Tryggingagjald

146. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 12:21:38 (6910)


[12:21]
    Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að það hefur ekki komið viðbragð við því enn þá hvort þetta mál verður tekið aftur til hv. efh.- og viðskn. sem skiptir kannski dálitlu máli upp á meðferð málsins og ræðuhöld. Það hefur komið fram mjög eindregin ósk um það frá hv. þm. Agli Jónssyni að málið verði tekið aftur til meðferðar í hv. efh.- og viðskn. og það hefur verið tekið undir það, hygg ég, af hv. 4. þm. Norðurl. e. og ef til vill fleiri. Ég vil því byrja mál mitt á því að ítreka þá spurningu því hún skiptir miklu máli í því sambandi sem hér er uppi. Ég hefði nú talið að það skipti miklu máli og þá einnig í tengslum við það sem ég ætla hér að flytja vegna þessa máls.
    Það sem ég vildi koma hér á framfæri, hæstv. forseti, snertir aðallega greiðslu Kísiliðjunnar við Mývatn á tryggingagjaldi. Þannig háttar til að hv. iðnn. skrifaði hv. efh.- og viðskn. bréf um greiðslu Kísiliðjunnar á tryggingagjaldi og mér er ekki kunnugt um að það hafi komið neitt viðbragð fram frá hv. efh.- og viðskn. um þetta mál. Hv. frsm. nefndarinnar, Vilhjálmur Egilsson, nefndi þetta bréf ekki í sinni ræðu né heldur aðrir þeir úr nefndinni sem talað hafa þannig að ég verð auðvitað að byrja á að spyrja að því hvort formaður nefndarinnar eða varaformaður eru staddir í húsinu til þess að svara því hvaða skoðun þeir hafa á þessu erindi hv. iðnn.
    ( Forseti (SalÞ) : Svo að forseti svari því sem hann getur svarað þá er formaður nefndarinnar ekki í húsinu á þessu augnabliki samkvæmt töflu.)
    En ætli hv. frsm. sé í húsinu?
    ( Forseti (SalÞ) : Þá er forseti að vitna til frsm., hv. 5. þm. Norðurl. v.)
    Varaformann nefndarinnar?
    ( Forseti (SalÞ) : Já, varaformaður nefndarinnar.)
    Já, takk fyrir.
    ( Forseti (SalÞ) : Hv. 1. þm. Austurl., formaður nefndarinnar, er heldur ekki í húsinu.)
    Það er þá spurning, hæstv. forseti, hvort ég gæti farið fram á það að það yrði hinkrað með málið þangað til þessir höfðingjar eru viðstaddir, annar hvor eða báðir, og ég héldi þá áfram ræðu minni einhvern tíma seinna í dag.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti sér ekkert athugavert við það þar sem er líka komið að því að fresta þessum fundi. Frestar þá hv. 9. þm. Reykv. ræðu sinni.)