Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:54:47 (6957)


[18:54]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er í senn athyglisvert og ánægjulegt að hv. þm. skuli hafa dregið það til baka að hann vilji rifta kaupunum. Það er líka í senn áhugavert og ánægjulegt að hv. þm. skuli lýsa því yfir að það beri að fagna því samkomulagi sem hafi náðst um þá sem stóðu að kaupum á SR, að það skyldi hafa tekist, eins og ég skildi hv. þm., vegna samsetningar fólksins, bæði vegna þess að í hópnum eru sveitarfélög, verkalýðsfélög, verkamenn og þar fram eftir götunum eins og ég hef hér áður rakið. Þetta hvort tveggja er ánægjulegt og sýnir að hv. þm. er svona orðinn vaklandi í málinu.
    Hitt er bara til þess að standa í hvorugan fótinn og reyna að vera engum trúr að halda því fram að þessi hópur hefði keypt Síldarverksmiðjurnar fyrir hærra verð. Það liggur fyrir að það hefði hópurinn ekki gert. Hópurinn hafði farið eins hátt og hann vildi og það var að sjálfsögðu rétt pólitískt mat að það var nauðsynlegt að Síldarverksmiðjur ríkisins lentu í góðum höndum.