Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 18:57:11 (6959)


[18:57]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Við þekkjum það báðir frá þingmannsferli okkar fyrir norðan hvaða áhrif það hefur ef mikið óöryggi ríkir um Síldarverksmiðjur ríkisins, t.d. á Raufarhöfn, ég tala nú ekki um ef Síldarverksmiðjurnar lentu í erlendum höndum. Kjarni málsins er sá að það er ekki hægt að gera hvort tveggja í senn, að tryggja það að rekstur sem þessi lendi í höndum kunnáttumanna og að vel sé að honum staðið og segja í hinu orðinu að það hafi verið rétt að láta skeika að sköpuðu hverjir keyptu fyrirtækið á almennum markaði af því að fyrirtækinu hefði átt að breyta í almenningshlutafélag. Ég held að hv. þm. vær hollt sem þingmanni Norðurlands að rifja upp hvers vegna Síldarverksmiðjur ríkisins voru stofnaðar á sínum tíma, og honum væri líka hollt að rifja upp hvernig þeir menn líta á þessi mál sem eiga bæði atvinnu sína, eignir og annað undir því að Síldarverksmiðjur ríkisins séu fjárhagslega sterkt fyrirtæki og rekið af myndarskap og framsýni.