Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:40:22 (6983)


[21:40]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þessi ræða hæstv. landbrh. var nú með þvílíkum eindæmum að henni verður ekki svarað í stuttu andsvari. Hæstv. ráðherra byrjaði á því að bera mönnum það á brýn að þeir vildu kasta fyrirtækinu á markað og hélt um það mikla tölu í upphafi hvílíkt ábyrgðarleysi það væri, endaði svo á því að fara hér með ástarjátningu til frjáls markaðsbúskapar og einkavæðingar. Þannig var samfellan í málflutningnum.
    Loðnuverksmiðja Hraðfrystistöðvar Þórshafnar er þessu máli óviðkomandi. Það er rangt sem hæstv. ráðherra sagði að menn hefðu fengið einhvern sérstakan stuðning við uppbyggingu hennar frá Síldarverksmiðjum ríkisins. Sú verksmiðja var keypt af heimamönnum og byggð upp af þeim.
    Gagnrýni mín og reyndar annarra sem ég hef heyrt tala hér í dag beinist ekki að því að þessir kaupendur hafi ekki verið jafngóðir öðrum eða jafnvel betri til að kaupa fyrirtækið. Málið snýst ekki um það, hæstv. landbrh. Það væri til tilbreytingar gott fyrir hæstv. ráðherra að hlusta einu sinni á það sem sagt er í þessum umræðum. Málið snýst um það hvernig að þessu var staðið. Málið snýst um málsmeðferð. Það er hún sem Ríkisendurskoðun og þingmenn hér hafa gagnrýnt en ekki hverjir eru kaupendurnir.