Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:42:53 (6985)


[21:42]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Það er nú, hæstv. forseti, langt síðan legið hefur svona mikið við hjá hv. þm. Engeyjarættarinnar að tala í máli hér á Alþingi,
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. ráðherra.
hæstv. ráðherra, með þessum tilþrifum sem hér gerist og spyr svo ef menn séu á móti því að þetta fólk, þessir aðilar fái að kaupa fyrirtækið, þá eigi þeir að segja það hreint út. Það er margbúið að segja það hér, bæði af mér og öðrum, að málið snýst ekki um það. Hins vegar er það greinilegt að málstaður íhaldsins er svo lélegur að þeir hafa þá einu vörn fram að færa hér vegna þeirrar réttmætu gagnrýni á málsmeðferðina sem hefur fram komið að reyna að snúa þessu upp í deilu um það hvort þessir aðilar eða einhverjir aðrir hafi átt að kaupa fyrirtækið. Málið snýst bara alls ekki um það. Það hafa allir tekið fram. Þetta er ónýt málsvörn, hæstv. ráðherra, gjörsamlega ónýt. Og ég tel það vera til afhjúpunar á afspyrnulélegum málstað gagnvart þeirri gagnrýni sem fram hefur komið að reyna að snúa út úr málinu með þessum hætti. Það hefur enginn maður í þessum umræðum gagnrýnt það út af fyrir sig að kaupendahópurinn væri samsettur með þessum hætti (Forseti hringir.) og þetta eru upp til hópa sómamenn og ágætis útgerðir o.s.frv. og gott að starfsfólkið sé þarna með o.s.frv., o.s.frv. En málið snýst ekki um það og reyndu ekki, hæstv. ráðherra, að snúa svona endalaust út úr í þeim efnum.