Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 21:57:32 (6998)


[21:57]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Allt frá því að lög nr. 20/1993, um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins, voru samþykkt hér á Alþingi var ljóst að um sölu hlutabréfa fyrirtækisins yrðu deilur. Í atkvæðaskýringum við afgreiðslu málsins á síðasta ári kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að verið væri að splundra þjóðþrifafyrirtæki sem á undanförnum áratugum hefði malað þjóðarbúinu gull. Þá kom fram hjá hv. þm. að hann spáði óvissu í þeim byggðarlögum sem Síldarverksmiðjurnar hafa starfað í og verið þar burðarás atvinnulífsins og öryggi starfsmanna yrði stefnt í hættu. Á þessari stundu bendir ekkert til þess að þær hrakspár rætist, því starfsmenn, sveitarfélög, viðskiptamenn, lífeyrissjóðir og fleiri úr þeim byggðum þar sem verksmiðjurnar eru reknar hafa orði eigendur hluta í fyrirtækinu. Það bendir vissulega til þess að þeir aðilar sem eiga svo mikið undir þessum rekstri treysta þeim hópi sem fer fyrir eigendum fyrirtækisins.
    Í samræmi við 3. gr. laganna um SR-mjöl hf. var hlutafélag fyrirtækisins selt eins og hv. þm. vita. Í skýrslu hæstv. sjútvrh. sem hér liggur fyrir og í ræðu hæstv. ráðherra hér fyrr í dag var gerð ítarleg grein fyrir aðdraganda, öllum undirbúningi og viðbrögðum ráðuneytisins við þeirri gagnrýni sem hefur komið fram vegna sölunnar. Þá liggja fyrir skýrslur um málið hjá hv. fjárln. hjá Ríkisendurskoðun og þeim sem að sölu hlutabréfanna stóðu fyrir hönd sjútvrn. Öll þessi gögn eru mikilvæg til þess að við þingmenn getum sem best áttað okkur á því hvað megi betur fara við framkvæmd sölu ríkisfyrirtækja sem munu verða seld á næstu mánuðum og næstu árum.
    Í samræmi við þingsköp og lög um Ríkisendurskoðun óskaði fjárln. eftir því að Ríkisendurskoðun athugaði hvernig staðið var að undirbúningi og sölu á hlutabréfum SR-mjöls hf. Sú samþykkt var gerð vegna umfangs málsins og í ljósi þeirra umræðna sem fram fóru hér í þinginu. Þá þegar var af hálfu stjórnarandstöðunnar reynt að gera málið tortryggilegt og sköpuð neikvæð umræða um einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
    Vegna málareksturs fyrir héraðsdómi Reykjavíkur hefur þetta mál fengið mikla umfjöllun og verið sett í mjög sérkennilegt ljós fjölmiðlanna. Það var því við því að búast að skýrsla Ríkisendurskoðunar mundi fá aðra umfjöllun en æskilegt er þegar hún var lögð fram á Alþingi og reyndar kynnt fyrir fjárln. fyrst. Hins vegar hefur sú skýrsla sem hæstv. sjútvrh. hefur lagt fram um málið fengið minni umfjöllun í fjölmiðlum en eðlilegt hefði verið að mínu mati þegar hún kom fram hér á þingi.
    Við þessa umræðu vil ég, virðulegi forseti, gera að umræðuefni nokkur atriði sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu SR-mjöls hf. en skýrslan er til umfjöllunar og athugunar í fjárln. ásamt þeim greinargerðum sem hafa verið lagðar fram vegna þessa máls.
    Ég vil nefna, virðulegi forseti, sex þætti sem einkum koma fram og hafa verið til umræðu í dag hjá mörgum þingmönnum. Í fyrsta lagi hefur verið nokkuð rætt um verklagsreglurnar sem settar voru upp. Þær reglur sem ríkisstjórnin samþykkti og þær vinnureglur sem farið hefur verið eftir við undirbúning þessa máls. Vissulega er mikilvægt að settar séu skýrar reglur um sölu ríkisfyrirtækja. Það er afar mikilvægt og nauðsynlegt. Það kemur fram gagnrýni hjá Ríkisendurskoðun á framvindu málsins, en ég tel að sú gagnrýni sé fyrst og fremst leiðbeinandi, hún breytir ekki í neinu í grundvallaratriðum framvindu þessa máls, né heldur að hún bendi til þess að ef ekki hefðu komið fram þau atriði sem gagnrýnd eru hefði hópurinn eða hæstv. sjútvrh. komist að annarri niðurstöðu um verðlagningu eða framkvæmd þessa máls. Þess vegna tel ég að ábendingar Ríkisendurskoðunar séu fyrst og fremst mikilvægar leiðbeiningar í þessu afar mikilvæga máli.
    Í öðru lagi hefur verið gagnrýnt og kemur reyndar fram ábending og athugasemdir frá Ríkisendurskoðun um mat á virði þessa fyrirtækis. Það átti ekki að koma nokkrum manni á óvart og allra síst hv. þingmönnum að það gæti orðið mismunandi túlkun og mismunandi mat manna í þjóðfélaginu og ekki síst hér á hinu háa Alþingi um hvert verð ætti að vera fyrir þetta stóra og mikilvæga fyrirtæki. Það er gagnrýnt m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar að það hafi ekki verið fenginn nema einn aðili til þess að meta virði fyrirtækisins. Ég get út af fyrir sig tekið undir þá athugasemd en ég tel samt sem áður að það hafi verið sýnt fram á það bæði í skýrslum söluhópsins og þeirra ráðgjafa sem unnu fyrir söluhópinn og sjútvrn. að þetta hafi út af fyrir sig ekki skipt sköpum en vissulega ber að taka þessar ábendingar Ríkisendurskoðunar til greina og læra af þeim og hafa til hliðsjónar þegar undirbúin er sala á þeim fyrirtækjum sem kunna að koma til sölu á vegum ríkisins. En ég get ekki séð, virðulegi forseti, að neitt komi fram í þeim gögnum sem hér liggja fyrir, í þeim skýrslum sem liggja fyrir, sem bendir til annars en að viðunandi verð hafi fengist fyrir fyrirtækið.
    Í þriðja lagi vil ég nefna það sem gagnrýnt er um þátt Landsbréfa en Landsbréf buðust til þess að vinna að sölu SR-mjöls hf. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég tel, með hliðsjón af þeirri hörðu gagnrýni og þeim miklu athugasemdum sem forsvarsmenn Landsbankans settu fram um það leyti sem var verið að undirbúa söluna, þá fannst mér það eðlileg niðurstaða hjá söluhópnum að líta svo á að það væri ekki æskilegt að Landsbréf, sem er hluti af Landsbankanum, væri sá aðili sem væri meginráðgjafi við sölu fyrirtækisins. Þess vegna get ég ekki fallist á þann þátt í gagnrýninni.
    Í fjórða lagi er svo minni háttar athugasemd frá Ríkisendurskoðun varðandi það að ekki hafi verið gerður skriflegur samningur við Verðbréfamarkað Íslandsbanka um ráðgjöf. Út af fyrir sig er það auðvitað rétt ábending og gagnrýni, auðvitað ber að gera skriflega samninga um svo viðamikið viðfangsefni. En það hefur komið hér fram að gengið var að tilboði, skriflegu tilboði, þar sem öll atriði komu fram sem skiptu máli og fallist á það, þannig að í raun var þar um skriflegan samning að ræða þó hann væri ekki formlegur. En þetta er auðvitað ábending sem ég tel að sé eðlilegt að taka til greina.

    Í fimmta lagi hefur verið gagnrýnt að sett væru svo ákveðin og ströng skilyrði um fjárhagslega getu þeirra sem ættu og fengju að bjóða. Ég get ekki fallist á þá gagnrýni sem hefur komið fram um það. Ég tel að það hafi verið eðlilegt af söluhópnum að setja ströng skilyrði um það með hvaða hætti efnahag þeirra væri háttað sem fengju að ganga til þess að bjóða í fyrirtækið. Þannig að ég get ekki fallist á þær athugasemdir, en auðvitað þarf samt sem áður hvað þann þátt varðar að líta til þess sem Ríkisendurskoðun hefur fram að færa í þessu sambandi og eins og ég hef nefnt fyrr, læra af því og meta hvað af þessum athugasemdum getur orðið innlegg í góðan undirbúning og vönduð vinnubrögð í framtíðinni hjá þeim sem standa fyrir sölu ríkisfyrirtækjanna.
    Í sjötta lagi vil ég svo nefna það, virðulegur forseti, og velta fyrir mér þeirri spurningu hvort bjóðendur hafi uppfyllt þau skilyrði sem sett voru. Þessir tveir, einkum og sér í lagi, sem styrinn hefur staðið um, annars vegar sá hópur sem hreppti nú hnossið og hins vegar Haraldur Haraldsson og fleiri. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar kemur fram að í raun hafi hvorugur aðilinn uppfyllt skilyrðin. Þetta er auðvitað mjög mikilvæg niðurstaða hvað varðar þann aðilann sem hefur síðan höfðað mál fyrir dómstólum til þess að ná fram rétti sínum. Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því að þessi niðurstaða Ríkisendurskoðunar er ekki afdráttarlaus, eins og segir á bls. 41 í skýrslunni, með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt er að mati stofnunarinnar umdeilanlegt hvort þeir hafi uppfyllt margnefnd skilyrði 3. og 5. liðar í bréfi VÍB frá 7. des. 1993.`` --- Þá var verið að fjalla um þann hóp sem Jónas Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og fleiri stóðu fyrir. ( Gripið fram í: Á hvaða blaðsíðu?) Á bls. 41 í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þarna er sleginn varnagli, þarna er sleginn fyrirvari hjá Ríkisendurskoðun um það að þessir tveir aðilar, það gildi í raun ekki það sama um það að þeir hafi ekki uppfyllt skilyrði.
    En þegar litið er yfir þetta mál með sanngirni, virðulegi forseti, hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að sjútvrh. hefur lagt allt kapp á það að vinna sem best að undirbúningi þess og gefið fyrirmæli um vandaðan undirbúning, ekkert annað hefur komið fram að mínu mati. Hins vegar hefur það orðið til þess að skerpa umræður um mikilvægt hlutverk Ríkisendurskoðunar og nauðsyn þess að í gildi séu skýrar verklagsreglur um sölu ríkisfyrirtækja. Hins vegar verður að setja verklagsreglur að sjálfsögðu og endurskoða þær í ljósi hvers viðfangsefnis hverju sinni þó að meginreglur og lagafyrirmæli séu og þurfi að vera skýr.
    Við þingmenn verðum að varast að draga embætti Ríkisendurskoðunar inn í pólitísk deilumál eins og hér hefur verið gert og notfæra okkur faglegar athugasemdir og ágreining um aðferðafræði viðskiptanna í pólitískum tilgangi. Meginatriði þessa máls hlýtur að vera það að fyrirtækið er í höndum 176 eigenda, einstaklinga, sveitarfélaga, lífeyrissjóða og félaga, sem hafa fest kaup á fyrirtækinu. Um það er friður meðal þeirra sem reksturinn varðar mestu, þ.e. sjómanna, útvegsmanna, starfsfólks í landi og heimamanna allra, sem eiga svo mjög undir því að verksmiðjurnar verði vel reknar og séu í traustum og öruggum höndum.
    Allar þessar umræður draga hins vegar fram þá staðreynd að okkur er nauðsynlegt að marka skýrari verklagsreglur og/eða lagafyrirmæli um skýrslugerð Ríkisendurskoðunar til þess að tryggja stöðu Ríkisendurskoðunar og sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við þingmenn megum hins vegar ekki sýna þeim embættismönnum sem í góðri trú hafa unnið í málinu það virðingarleysi sem mér hefur fundist örla á hér í umræðunum þegar því er haldið fram að málið sé litað af annarlegum tilgangi eða óvönduðum vinnubrögðum sem ég tel fjarri öllu lagi.
    Að lokum vil ég taka undir það, virðulegi forseti, sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var lögð fyrir fjárln. í morgun að viðfangsefni af því tagi sem hér er til úrlausnar er mjög viðkvæmt og vandasamt. Það á ekki síst við þegar málið er í meðferð dómstóla landsins.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekkert hafa komið fram í þessari umræðu sem gefur tilefni til frekari umræðu eða aðgerða af hálfu þingsins. Því ber að fagna.