Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Mánudaginn 02. maí 1994, kl. 23:37:27 (7018)


[23:37]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður hafði af einhverjum ástæðum orð á því, og lagði lykkju á leið sína, að sá sem hér stendur pissaði í útlöndum. Nú er það svo að hv. þm., frændi minn Páll Pétursson, fer mjög oft til útlanda og það vona ég að guð gefi að hann pissi í útlöndum því bara hans vegna og þeirra sem í flugvélinni eru að hann passi sig nú á því að halda ekki svo lengi í sér að hann geymi það þar til hann kemur heim. Þetta segi ég við hv. þm. sem þurfti að hafa sérstaklega orð á þessu hér og kem þessari ábendingu til skila. ( ÓÞÞ: Hefur ráðherrann lent í þessum vandræðum?) Nei, ég hef ekki þurft að hafa neitt með hv. þm. að gera þannig að ég hef ekki lent í neinum vandræðum með hann.
    Það var líka athyglivert að hlusta á það að hv. þm. Páll Pétursson kom til þess að bjarga Framsfl. við í þessari umræðu sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hóf af þeirra hálfu. Og aðalerindi hv. þm. Páls Péturssonar í þennan ræðustól var að sýna fram á það að svokallaður kolkrabbi hefði keypt þetta fyrirtæki. Þetta var þeim mun athygliverðara sem það kom mjög rækilega og skýrt fram hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að hann gerði ekkert með það hverjir hefðu keypt fyrirtækið og hann spurði margsinnis um það hver væri þessi kolkrabbi. Því hefur aldrei verið haldið fram að einhver kolkrabbi hefði keypt þetta, það kæmi ekki málinu við. Örskömmu síðar kemur flokksbróðir hans ( ÓÞÞ: Vilhjálmur Egilsson lýsti því yfir að það hefði verið kolkrabbinn sem hefði keypt.), formaður þingflokks Framsfl., og eina erindið sem hann á í ræðustól fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt í minni ræðu er að skýra það út eða reyna að koma því til skila að þetta hafi verið þessi sami kolkrabbi. Svona stangast nú hvað á annars horn í málflutningi þeirra framsóknarmanna. ( SvG: Hvort heldur þú að sé rétt?)
    Það sem hér hefur verið rætt í dag og kannski skiptir mestu máli í þessari umræðu er það, eins og flestir ræðumenn hafa komið að, þeir sem efnislega hafa fjallað um þetta mál, hvort rétt hafi verið að sölu fyrirtækisins staðið í fyrsta lagi og hvort söluverðið sé eðlilegt.
    Ég vil í fyrsta lagi taka það fram að ég tel að verklagsreglum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum hafi verið fylgt allt frá því að söluhópurinn, sá starfshópur sem skipaður var til þess að fara með söluna, tók það starf að sér. Það er álit framkvæmdanefndarinnar og ég hef orð framkvæmdanefndarinnar fyrir því. Ríkisendurskoðun bendir reyndar á að það hafi verið mismunun í því eina tilviki að Haraldi Haraldssyni hafi verið gefinn kostur á umfram aðra sem að þessu máli komu að fá að sjá ákveðin gögn og ég taldi það á sínum tíma vera sanngjarnt. En vissulega má segja að í því felist mismunun á milli þessara aðila Haraldi Haraldssyni í vil.

    Í öðru lagi spyrja menn: Er söluverðið eðlilegt? Og ég vil að það komi skýrt fram að af hálfu fjmrn. sem auðvitað ber skylda til að fara með eigur ríkisins eins og best verður á kosið, að fá sem mest fyrir þær verði þær seldar, þá telur fjmrn. og fjmrh. að söluverðið sé afar eðlilegt. Það er hins vegar rétt að það komi fram og hefur komið fram áður í umræðunni að það voru deilur á milli ráðuneytanna tveggja, fjmrn. og sjútvrn., eða ágreiningur um það hvernig setja ætti upp stofnefnahagsreikning fyrirtækisins. Fjmrn. vildi að markaðsverð fyrirtækisins, söluverðið, væri látið ráða. Það væri svona á að giska 700--750 millj. sem áttu að fara í stofnefnahagsreikninginn en sjútvrn. vildi hafa hærri tölu og Ríkisendurskoðun hefur tekið undir það. Ástæðan fyrir því að fjmrn. vildi hafa lægri tölu var að lægri tala hefði gefið lægri afskriftarstofn og þess vegna verið meiri möguleiki á því að fyrirtækið greiddi skatta fyrr en ella.
    Ríkisendurskoðun gekk í lið með sjútvrn. og það er ekkert við því að segja. Það voru færð rök fyrir því og það hefur verið bent á að þetta hefði líka áhrif á söluverð fyrirtækisins hvernig stofnefnahagsreikningurinn var settur upp. Ríkisskattstjóri var spurður og ríkisskattstjóri sagði: Það fer ekkert í bága við lög að setja reikninginn upp með þessum hætti.
    Þetta vil ég að komi fram og það er ekkert við þetta að athuga. Ég vil benda á í leiðinni að Ríkisendurskoðun hefur komið að framkvæmd þessa máls og eitt af því sem ég tel vera gagnrýnisvert er að Ríkisendurskoðun sé að fjalla efnislega með gagnrýnum hætti um mál sem Ríkisendurskoðun hefur komið að sjálf. Ég vil taka það fram, ég er ekkert að ofsækja þá eða ásaka þá með neinum hætti, heldur bendi ég á þetta vandamál sem getur komið upp og kemur margoft upp að Ríkisendurskoðun kemur að máli en er síðan beðin um að líta yfir málið á síðari stigum. Slíkt er auðvitað mjög óþægilegt, ekki síst fyrir stofnunina sjálfa.
    Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir velti fyrir sér hvort fjármagnið sem fengist hefur fyrir fyrirtækið mundi koma inn á síðasta ári eða yfirstandandi ár. Samkvæmt greiðsluuppgjöri kæmu fjármunirnir inn á þessu ári, en skuldbindingin í ríkisreikningi væntanlega sl. ár, þó er það ekki alveg ljóst og ég verð að viðurkenna að það er ekki alveg öruggt mál hvernig færa skuli, en ég vil þó taka fram að það hafði enga þýðingu þegar var verið að ákveða það hvenær fyrirtækið var selt, hvort fjármagnið sem fékkst fyrir söluna kæmi inn á árinu 1993 eða 1994. Það er mikill misskilningur ef menn halda það.
    Það hefur verið rætt nokkuð um Ríkisendurskoðun og menn hafa verið harla ánægðir sumir hverjir með það sem frá Ríkisendurskoðun kemur og ég skal taka undir það að sumt er auðvitað ágætt og annað er því miður mjög slæmt. Ég tek hér eitt dæmi sem mér finnst vera eitt það lakasta sem ég sé og ekki hefur verið nægilega mikið rætt hérna. Það má lesa það á bls. 12 og 13 í greinargerð Ríkisendurskoðunar. Söluhópurinn vísar á bug þeirri staðhæfingu sem kom fram í sjálfri skýrslunni að í viðræðum söluhópsins við þá Benedikt og Jónas kæmi fram að sjútvrn. gæti fallist á söluverð fyrir öll hlutabréfin sem væri á bilinu frá 700--750 millj. kr. Starfshópurinn vísar þessu á bug og síðan gerir Ríkisendurskoðun tilraun til þess að svara því. Þegar það er lesið, þá sér maður hvernig Ríkisendurskoðun fer Krýsuvíkurleiðina í sínu svari og svarar þessu aldrei heldur kemur einungis fram í greinargerðinni að þeirri hugmynd hafi verið velt upp af Jónasi Aðalsteinssyni að rétt væri að VÍB og þeirra reiknimenn kæmu sér saman um hvað væri eðlilegt verð fyrir fyrirtækið. Auðvitað kom það aldrei til greina að hópurinn léti þessa upphæð fara til þeirra sem voru hugsanlegir kaupendur en það er ekki einu sinni tekið á því í greinargerðinni heldur látið liggja að því að það sé verið að svara þessu. Þetta er nokkuð athyglisvert hvernig farið er að. Það mætti nota orðið útúrsnúningur um þessa greinargerð en í raun og veru held ég að það sé rétt að segja að þetta er ekkert svar við því sem kemur fram frá hópnum, þetta er ekkert svar. Menn eru að reyna að koma sér hjá því að svara því sem varð tilefni þeirrar athugasemdar sem ég minntist á.
    Nú er það svo að það er auðvitað ákaflega erfitt fyrir Ríkisendurskoðun að fara yfir mál eins og þetta og ég hef lýst því yfir að ég hafi verulegar áhyggjur af því að Ríkisendurskoðun geti skaðast við sitt starf. Þó er það svo að miklar breytingar hafa orðið á undanförnum árum af ýmsum ástæðum. Þar á meðal höfum við þrjú verðbréfafyrirtæki, við höfum verklagsreglur ríkisstjórnarinnar þannig að við höfum margt lært. Það er t.d. athyglivert að fletta hér upp í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá janúar 1991 um Þormóð ramma og lesa þar, með leyfi forseta, þessa setningu hér:
    ,,Þó svo að í lögum sé ekki að finna bein fyrirmæli eða reglur um það hvernig standa skuli að sölu hlutabréfa í eigu ríkissjóðs sýnist sem almennra jafnræðissjónarmiða hafi ekki verið gætt í nægilega ríkum mæli við sölu hlutabréfa ríkisins í Þormóði ramma hf. Þar kemur einkum til að hvorki sala hlutabréfanna né þeir skilmálar og skilyrði sem sett voru fyrir sölunni voru auglýst opinberlega.``
    Þetta er hörð árás á þáv. fjmrh. Ef við lítum á skýrsluna núna þá er hvergi nærri því vikið með föstum skotum að sölu fyrirtækisins, sem við erum að fjalla hér um, einfaldlega vegna þess að menn hafa bætt vinnubrögðin sem betur fer. Síðan segir í þessari sömu skýrslu, ég er að lesa niðurstöður í skýrslunni um Þormóð ramma, með leyfi forseta:
    ,,Miðað við þær forsendur sem Ríkisendurskoðun gaf sér við útreikning á virði Þormóðs ramma hf. og að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem fjmrn. setti fyrir sölunni, telst verðmæti alls hlutafjár í félaginu á söludaginn á bilinu 250--300 millj. kr. Við sölu hlutabréfa ríkissjóðs var hins vegar verðmæti þeirra metið á 150 millj. kr.``
    Með öðrum orðum, þetta er nánast tvöföldun á upphæðinni. Menn sjá auðvitað hérna að sú gagnrýni sem kemur hér fram er margfalt alvarlegri því að Ríkisendurskoðun hefur sagt í sinni fyrri skýrslu að

það hafi mátt fá hærra verð en þetta er auðvitað margfalt alvarlegra sem hér kemur fram í þessari gömlu skýrslu. Ég ætla ekki að áfellast fyrrv. ráðherra fyrir þetta vegna þess að ég held að sem betur fer hafi verklagsreglurnar breyst og batnað og við höfum miklu betri tæki í höndunum í dag til að fást við þessa hluti en þá var þannig að ég get ekki vegna þessa atriðis ráðist á fyrrv. ráðherra.
    Hins vegar er það mjög sérkennilegt þegar maður les síðan um söluna á Siglósíld að sjá hvernig það var gert. Ég held að hv. þingmenn ættu að skoða það því að slíkt kemur varla fyrir held ég aftur. Þar gerist það að til þess að hækka nafnverð á Siglósíld, þá er tekið við eign Ingimundar sem var kaupandi fyrirtækisins og sagt: Hún er 117,5 millj. kr. virði. Á sama árinu er þessi eign síðan afhent Sláturfélagi Suðurlands og hvert er þá skráð verðmæti eignarinnar? 54,5 millj., meira en helmingi lægra heldur en nafnverðið var þegar Ingimundur keypti Sigló, svo fær ríkið eignina í Súðarvogi og borgar með henni og þá er hún orðin helmingi lægri. Ég get bætt við þessa sögu að fulltrúar Sláturfélags Suðurlands komu síðan á minn fund og buðu mér þessa eign á rúmlega helminginn af því sem þeir höfðu tekið hana á. Þetta mat sem er kannski þrefalt til fjórfalt er sett mat til þess að hækka nafnverð á fyrirtæki, þetta mundi aldrei geta gerst í dag einfaldlega vegna þess að við höfum betri tæki, við höfum mun betri tæki en fyrrv. ráðherra hafði á sínum tíma. En þetta segir kannski sína sögu hvers konar gífurlegur munur er á því sem er að gerast núna og hinu sem gerðist fyrir nokkrum árum síðan og á þessu hafa menn auðvitað lært, þessi ríkisstjórn og vonandi þær sem eiga eftir að koma.
    Ég lýsti því í umræðu um Lyfjaverslun ríkisins að ég hefði alvarlegar áhyggjur af stöðu Ríkisendurskoðunar og ég hef það vegna þess að ég veit og ég held að ég tali fyrir hönd allra hv. þingmanna þegar ég segi að okkur er nauðsynlegt að hafa Ríkisendurskoðun sem hægt er að treysta og vinnur sitt verk faglega. Það er gífurlega mikilvægt. Þegar ég var að segja þetta var það ekki neinn dómur yfir Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun er oft af þingmönnunum sjálfum og nefndum þingsins og stjórnendum þingsins sett í slíka stöðu að það er ákaflega erfitt fyrir hana að starfa.
    Ég var að benda á það, og það ætla ég að gera að mínum lokaorðum, hvað það er t.d. erfitt fyrir stofnunina að þurfa að fást við mál þar sem Ríkisendurskoðun hefur komið að málinu eins og t.d. í þessu dæmi hér. Fulltrúar Ríkisendurskoðunar sem Ríkisendurskoðun skipaði fyrir sína parta endurskoðaði reikninga SR og ef menn lesa t.d. reikningana frá 1991, þá held ég að menn þyrftu ekkert annað heldur en lesa þá yfir og skoða hvaða álit Ríkisendurskoðun hafði á málum þá til þess að sjá hve erfitt er fyrir fyrirtækið í dag að skrifa hlutlausa skýrslu um það hvað hefur gerst núna þegar fyrirtækið var selt einkaaðilum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vona aðeins að þessi umræða sem ég tel að hafi verið góð sýni það að stjórnvöld eru smám saman að ná miklu betri tökum á sölu slíkra fyrirtækja eins og SR-mjöls en áður var hægt og ég hef rakið það hér með dæmum sem ekki er hægt að hrekja.