Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:13:00 (7036)

[00:13]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir það með hæstv. fjmrh. að ég deili áhyggjum hans af framtíð Ríkisendurskoðunar en af allt öðrum ástæðum en hann. Sannleikurinn er sá að meðan fjmrn. réð yfir Ríkisendurskoðun gat ráðuneytið haft Ríkisendurskoðun eins og því þóknaðist. Til þess var Ríkisendurskoðun færð undan framkvæmdarvaldinu og undir Alþingi beint að Ríkisendurskoðun væri sjálfstæð stofnun sem Alþingi bæri ábyrgð á. Síðan það gerðist hefur Ríkisendurskoðun ekki verið vært og í einu máli eftir öðru hefur Ríkisendurskoðun mátt sæta gagnrýni framkvæmdarvaldsins ef eitthvað annað hefur komið í ljós en því hefur líkað. Svo langt hefur þetta gengið um einfalda hluti, kannski ekki einfalda en þó mál sem ætti að vera hægt að leysa, að nefnd hefur setið að störfum nú um langt skeið til að reyna að bögglast við að ákveða hvernig ganga skuli frá ríkisreikningi. Síðast var fjárln. Alþingis lofað að þessi nefnd lyki störfum og skilaði okkur skýrslu 6. mars sl. Sú skýrsla er ekki komin enn og ég efast um að hún komi. Og ekki yrði ég hissa, eigi þessi lánlausa hæstv. ríkisstjórn einhverja lífdaga fram undan, þó það næsta sem við sæjum yrði lagafrv. um að ráðuneytið fengi aftur yfirráð yfir Ríkisendurskoðun. Það er eina ráðið til að hafa hana góða. Sú smekklausa umræða sem hefur átt sér stað hér í dag um persónu ríkisendurskoðanda er alveg óheyrð í sögu þingsins.
    Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að ríkisendurskoðandi vinnur á ábyrgð Alþingis og það hefur komið fram í dag að meiri hluti Alþingis er honum sammála um gagnrýni í þessu máli. Meiri hluti þingsins er sammála Ríkisendurskoðanda og vænti ég svo að sú umræða verði látin niður falla að tala hér um og draga í efa að Ríkisendurskoðun vinni af heilindum við eftirlit með meðferð fjármuna þjóðarinnar. Þetta er fráleitt að hlusta á.
    Það ætti kannski að vera nokkur skýring á þeim æsingi sem er í þessu máli af hálfu þeirra hv. sjálfstæðismanna hver áhugi hæstv. landbrh. hefur verið á þessu máli í dag. Hingað til hef ég ekki haldið að þetta mál heyrði beint undir hans ráðuneyti. En það skyldi aldrei eiga sér skýringar? Alþingi Íslendinga hefur verið að horfa upp á það og næsta aðgerðalítið eða aðgerðalaust að það er verið að færa alla þætti þessa samfélags á hendur sama fólksins. Það verður einhver að segja þetta upphátt og ef enginn annar gerir það skal ég þá gera það.
    Margumræddur Benedikt Sveinsson hrl. var fulltrúi einna þriggja kaupenda. Skyldi nú aldrei vera að það vilji svo til að hann sé stjórnarformaður í Sjóvá-Almennum og bróðir hans Einar Sveinsson framkvæmdastjóri. Og þegar litið er á hluthafana og meðstjórnendur koma gamlir kunningjar í ljós. Þetta fyrirtæki á nú 7,5% í hinu nýja fyrirtæki. Önnur 7,5% á eignarhaldsfélag Alþýðubankans. Muna menn nokkuð hvaða önnur eignarhaldsfélög eða fulltrúar hvaða annarra eignarhaldsfélaga runnu þar inn? Minnast menn eignarhaldsfélags Verslunarbankans? Ég ætla ekki að fara út í það hvaða menn komu svo inn í stjórn bankans einn á fætur öðrum. Það skyldi ekki vera þetta sama fólk? (Gripið fram í.) Það skyldi ekki vera sama fólkið sem hefur lagt undir sig alla flutninga á láði og legi í landinu, komið sér fyrir í stjórn Flugleiða, í stjórn Eimskipafélags Íslands og í tilefni af því var það talin góð aðgerð að selja Ríkisskip og hvað varð svo um aumingja litla fyrirtækið sem keypti Ríkisskip? Það lagðist á hnén um leið. Og hverjir skyldu nú hafa gleypt það og flesta þess flutninga? Það skyldi þó aldrei hafa verið Eimskipafélag Íslands? Í vetur sáum við svo þessu góða félagi fyrir hafnaraðstöðu eins og fara gerði. Maður spyr á endanum: Hvar er þetta sama fólk ekki með ítök? Það er eins og hv. 9. þm. Reykv. segir. Það má svo sannarlega segja: Þetta er ár fjölskyldunnar.
    Auðvitað er þetta ástæðan fyrir því offorsi sem þetta mál var sótt af. Hvaða vit er í því að það skuli líða tveir mánuðir frá því að starfshópurinn er settur á laggirnar, nánar tiltekið frá 13. okt. til 28. des. og þá er bara allt um garð gengið? Mönnum er sagt: Ef þið kaupið ekki fyrirtækið sem á eignir upp á 5 milljarða á fjórum dögum þá fáið þið bara ekki neitt að kaupa. Hvers konar viðskiptahættir eru þetta? Og svo undrast menn að hér skuli haldið uppi umræðu um þetta. Þjóðin horfir agndofa á þessar aðgerðir, beinlínis agndofa. Síðan leyfa menn sér hér í fullri alvöru, eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. í kvöld, að bera saman þetta fyrirtæki, sem vitað var þegar það var selt að það mundi skila 300 kr. arði á sl. ári og trúlega enn meiri arði í ár, og gjaldþrota fyrirtæki á hinum ýmsu stöðum á landinu þar sem enginn rekstur er í gangi. Án þess að blikna eða blána ber formaður Verslunarráðs Íslands saman slík fyrirtæki og Síldarverksmiðjur ríkisins eða SR-mjöl.
    Þetta er fráleitur málflutningur. Það verður sama sagan hér og hefur átt sér stað í öðrum slíkum

fyrirtækjum að hringurinn á eftir að þrengjast. Það verður ekki verkafólkið, sem alltaf er notað til veðsetningar, það er almenningur, það er ekki verkafólkið sem er að kaupa þessi fyrirtæki. Það voru líka fátækir Íslendingar sem keyptu Eimskipafélag Íslands á sínum tíma, lögðu sinn síðasta eyri í þetta óskabarn þjóðarinnar. Það vill svo til að þrjú bréf frá þeim tíma eru enn þá til í minni fjölskyldu, að vísu búin að taka ýmsum breytingum síðan. Arðurinn af þeim kom í gær, 255 kr. Það er arður ársins 1993. Ætli það fari ekki svo að hinn fjölmenni hópur verkamanna hafi harla lítið upp úr SR-mjöli. En það gæti verið að þeir sem allt eiga hafi þeim mun meira upp úr því.
    Hæstv. forseti. Það verður að stöðva þetta. Hvar er nú hæstv. ráðherrann sem spurði einhvern tíma: ,,Hverjir eiga Ísland?`` Hann lætur ekki sjá sig. Kannski hann sé búinn að uppgötva hverjir eiga Ísland síðan hann fór að taka þátt í þessari ríkisstjórn. Hann vissi það augljóslega ekki þá þó að við hefðum getað sagt honum það. Ég vil mælast til að menn átti sig á því hvað er að gerast í samfélaginu. Halda menn að það hefði ekki verið nær að standa þannig að þessari sölu að hún væri boðleg? Það er alltaf sama sagan, sömu hótanir. Hér koma þingmenn þeirra kjördæma þar sem verksmiðjurnar eru staðsettar, mæra þá sem reka fyrirtækin, sjálfsagt að verðleikum, og skírskota til hins almenna manns sem á allt undir því að atvinnulífi sé haldið uppi í kjördæmunum og segja: Ef þið segið orð þá missið þið vinnuna. Haldið þið að þetta sé ekki gamalkunnug lumma?
    Sama gerist þegar verið er að setja fyrirtækin á hausinn á hinum ýmsu stöðum. Fólki er hótað öllu illu, ríkissjóði er hótað. Ef við fáum ekki peninga þá leggst byggðarlagið í rúst. Þetta heitir að veðsetja verkafólk í landinu og við erum orðin leið á að láta veðsetja það. Þetta verður að stöðva. Íslenska þjóðin lætur ekki bjóða sér þetta lengur.
    Hitt er svo annað mál, hæstv. forseti, að forsætisnefnd þingsins og Alþingi sjálft verður að gera upp við sig hvers konar stofnun það vill reka sem heitir Ríkisendurskoðun. Ef Alþingi vill ekki bera ábyrgð á Ríkisendurskoðun þá verður að breyta lögunum. Ef hæstv. fjmrh. líkar ekki við ríkisendurskoðanda, segir að margt sé illa gert í hans verkum, þá verður hann að koma til forseta Alþingis og segja: Það er ekki hægt að hafa svona ríkisendurskoðanda. Ég held hins vegar að hann hefði ekki meiri hluta fyrir því í þinginu. En menn verða að vita hvað þeir eru að gera.
    Það verður skemmtileg framtíðarsýn ef þessu vindur fram þegar þessir fáu einstaklingar leika sér að því að hafa fjöregg þjóðarinnar í hendi sér. Hverjir ætla svo að keppa við SR-mjöl? Hvar er samkeppnin? Hverjir ætla að keppa? Það verður einokun á því eins og það er einokun á flugi í landinu og einokun í siglingum. Ég er ansi hrædd um að menn ættu að kynna sér svolítið við hvern þeir ætli að keppa. Hvar er hin frjálsa samkeppni?
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta. Ég býst við að landbrh. komi hlaupandi enn eina ferðina heiman að frá sér til að sýna þessu máli þennan sérkennilega áhuga sem hann hefur sýnt á því í dag.