Sala ríkisins á SR-mjöli

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 00:24:53 (7037)


[00:24]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir fór mikinn yfir því að hér væri að safnast saman á fárra hendur mikið vald með sölunni á SR-mjöli hf. og nefndi í því sambandi fyrirtæki nokkurt sem heitir Sjóvá-Almennar hf. sem er réttilega á meðal nokkurra annarra fyrirtækja sem eru stærstu hluthafar í hinu nýja fyrirtæki, SR-mjöli hf. En ég undrast þennan málflutning hv. þm. mjög þegar maður les síðan yfir þennan lista sem birtist í skýrslu hæstv. sjútvrh. um sölu þessa fyrirtækis og sér þar aðila og fyrirtæki á borð við Draupnissjóðinn hf., eignarhaldsfélag Alþýðubankans hf., hið myndarlega fyrirtæki Ingimund hf., sem rekur ágæta rækjuverksmiðju m.a. á Siglufirði, Lífeyrissjóð Austurlands, Lífeyrissjóð rafiðnaðarmanna, Lífeyrissjóð sjómanna, Lífeyrissjóð Vestmannaeyja, útgerðarmanninn Pétur Stefánsson og Sameinaða lífeyrissjóðinn svo að ég taki nokkur dæmi af þeim stóru hluthöfum sem eru í þessum hópi og heyra síðan þráðinn spunninn um að þetta sé allt til marks um það að hér séu að safnast á fárra hendur, að mér skilst hinna frægu fjórtán fjölskyldna, allt vald með sölunni á SR-mjöli. Mér finnst einmitt þessi listi sýna hið gagnstæða og ég fullyrði það að einmitt þátttaka útgerðarmanna og sjómanna og tuga starfsmanna SR-mjöls sýni að hér sé um býsna dreifða eignaraðild að ræða. Mig grunar að þróunin verði fremur sú á næstu árum ef fram heldur, sem eru áætlanir eigenda fyrirtækisins að opna fyrirtækið frekar til aukinnar hlutafjársöfnunar, að dreifing eignaraðildarinnar muni aukast fremur en hitt. Ég tel því að röksemdafærsla hv. þm. stangist gersamlega á við þær upplýsingar sem birtast í þessari skýrslu.