Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

148. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 03:06:36 (7082)


[03:06]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Í örfáum orðum vil ég mæla fyrir brtt. á þskj. 1131 um frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, öðrum en hvölum.
    Tillagan felur það í sér að frv. fjalli ekki um vernd, friðun og veiðar á selum og að núgildandi löggjöf um seli gildi áfram um sinn. Til að flýta fyrir afgreiðslu málsins á Alþingi varð að samkomulagi að taka 16. gr. út úr frv. og láta núgildandi löggjöf gilda áfram óbreytta á þessu stigi. Samkomulag er um það milli umhvrh., sjútvrh. og landbrh. að leggja fram frv. í haust um vernd sela og veiðar á þeim. Verður sumarið notað til að ná sátt í málinu sem er viðunandi fyrir alla aðila. Vegna þessa þarf að gera þær breytingar á frv. sem felast í tillögu minni og jafnframt þarf að fella burt 1. tölul. 22. gr. frv. eins og lagt er til í brtt. frá meiri hluta umhvrn. á þskj. 1153.
    Vegna orða hv. þm. Kristínar Einarsdóttur um umræðu um flutning veiðistjóra til Akureyrar þá tel ég hyggilegt, ekki síst í ljósi þess að vilji er hjá hv. formanni og raunar fleiri þingmönnum að liðka fyrir afgreiðslu þessa máls að í umræðum haldi menn sig við þau efni sem í frv. eru en láti önnur atriði, eins og flutning veiðistjóra sem er óháð frv. sem slíku, liggja í þagnargildi.