Stjórn fiskveiða

149. fundur
Þriðjudaginn 03. maí 1994, kl. 22:05:09 (7177)


[22:05]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur staðið yfir í dag löng umræða um þetta stóra mál, frv. til laga um stjórn fiskveiða, og er það vonum seinna að það kemur til umræðu og er verið að afgreiða það á síðustu dögum þingsins. Það er alvarlegt mál út af fyrir sig vegna þess að þetta mál á sér langa forsögu og eitt af því fyrsta sem núverandi stjórnarflokkar ætluðu sér að takast á við var endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða. Litli flokkurinn í samstarfinu, Alþfl., fór strax af stað í upphafi stjórnarferilsins með gífuryrði í þessum málum, þessu vonda kerfi skyldi komið fyrir kattarnef, það skyldi tekinn upp auðlindaskattur og það skyldi gerð virk, eins og það var orðað, 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, að fiskimiðin væru sameign allrar þjóðarinnar.
    Það má aðeins víkja að þessu ákvæði með sameign allrar þjóðarinnar á fiskimiðunum. Mér hefur alltaf fundist þetta ákvæði vera rétt og sjálfsagt og auðvitað á öll þjóðin fiskimiðin. Hún hefur átt þau og á þau enn þá vegna þess að auðvitað nýtur öll þjóðin fiskveiðanna. Það eru fiskveiðarnar sem við lifum á, það eru fiskveiðarnar sem gefa um 80% af útflutningnum og það hlutfall hefur ekki breyst á síðari árum. Meira að segja á þeim síðustu fjórum árum sem þetta kvótakerfi hefur verið við lýði í núverandi mynd, því það hefur breyst í gegnum tíðina og verið að þróast frá 1985, þá hefur verðmæti sjávarafurða haldist nokkurn veginn óbreytt þrátt fyrir minnkandi afla og lækkandi verð upp á síðkastið. Þannig að ég sé ekki, þrátt fyrir allt, að þetta skipulag sé svo galið.
    Sannleikurinn er að það er niðurstaða í þessu máli núna, athyglisverð út af fyrir sig, að stjórnarflokkarnir treysta sér ekki til, þrátt fyrir öll gífuryrðin sem hafa fallið, þrátt fyrir alla nefndafundina, allar deilurnar og allar staðhæfingarnar um að kerfið sé ómögulegt og allar staðhæfingar um að fiski sé hent, eins og hv. 4. þm. Vesturl. kom inn á hér áðan, ætla stjórnarflokkarnir að byggja á þessu kerfi áfram. Þeir ætla sér það. Það er athyglisvert grundvallaratriði að það liggur fyrir að eftir fjögurra ára baráttu milli stjórnarflokkanna, fjögurra ára bardaga milli ýmissa aðila innan þeirra, með tvíhöfða nefnd sem var að störfum í allt að þrjú ár og með öllum þeim harmkvælum sem urðu við að koma fram þessu frv., þá er niðurstaðan sú að byggja áfram á því kerfi sem fyrir var. Þetta finnst mér afar athyglisvert og segir sína sögu. Þess vegna finnst mér broslegt þegar einstakir þingmenn stjórnarliðsins koma upp og berjast hatrammlega gegn þessu kerfi sem þeir eru að leggja til að verði fest í sessi áfram með vissum annmörkum þó, sem eru vissulega varhugaverðir svo vægt sé að orði kveðið.
    Sannleikurinn er sá að allur framgangur þessa máls og allar þessar deilur stjórnarliðsins hafa auðvitað stórskaðað málið vegna þess að þær hafa tekið dýrmætan tíma. Það var ekki fyrr en fyrir mánuði síðan eða svo, eða tæplega það, að stjórnarflokkarnir komu sér saman um tillögur í þessu máli í einhvers konar pókerspili á kvöldfundum þingflokka í þessu húsi. Þannig að hv. sjútvn. þingsins hefur haft mjög knappan tíma til þess að grandskoða þær tillögur. En tíminn hefur samt verið nógu langur til þess að þeir aðilar sem búa við þetta kerfi í fiskvinnslunni, í útgerð, hafa vaknað upp við það að hér sé um stórhættulega hluti að ræða og mótmælum hefur rignt yfir þennan stutta tíma sem þessi mál hafa verið til meðferðar.
    Sannleikurinn er sá að samkomulag stjórnarflokkanna um breytingar á frv. hefur valdið óróa í þjóðfélaginu. Það hefur kannski valdið óróa vegna þess að kastljósið í umræðunni hefur mjög beinst að sjómönnum vegna verkfalls þeirra í vetur og meintrar þátttöku þeirra í kvótakaupum. Eins hefur kastljósið beinst mjög að veiðum trillusjómanna, sem almenningur í landinu hefur auðvitað samúð með, þeirri hefðbundnu aðferð við útgerð sem á svo ríkan þátt í atvinnusögu okkar og menningu, ef svo má að orði komast. Sú umræða hefur verið mjög hógvær og skipt á umræðu um kjör hinna fjölmörgu sem vinna í landi, fiskvinnslufólksins sem vinnur þúsundum saman við þessa atvinnugrein. Sjómenn una því illa að vera neyddir til að taka þátt í kvótakaupum. Ég mæli ekki með því. Ég tel að það verði að koma í veg fyrir það. En ég held að sjómenn, eigi að síður, það sem þeir vilja í þessu máli, sé að það sé ljóst þegar þeir skrá sig á skip hvaða kjör þeir eiga að hafa og þeir geti gengið að einhverju öryggi í þeim efnum. Þess vegna held ég að það sé allt of langt seilst að fara í svo afdrifaríkar breytingar á kvótakerfinu til þess að koma í veg fyrir þátttöku þeirra í kvótakaupum.
    Það liggur fyrir í fjölmörgum gögnum þessa máls, sem er orðið allmikið að vöxtum, enda er hér um stórt mál að ræða, að ýmsir aðilar í þjóðfélaginu, hvort sem þeir kalla sig atvinnumenn eða hafa kynnt sér rekstur sjávarútvegsins að öðru leyti, telja þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. og heftingu framsals mjög varhugaverðar og að þær geti komið niður á hagkvæmni greinarinnar í heild. Ef hagkvæmni greinarinnar í heild minnkar þá hlýtur það að koma fyrr eða síðar niður á öllum sem við hana vinna, hvort sem það eru sjómenn, landverkafólk, útgerðarmenn, eða þjóðin í heild. Það er hér allt of mikið í húfi. Þetta er sá atvinnuvegur sem við erum samkeppnisfærir í, þetta er sá atvinnuvegur sem útflutningsstarfsemi okkar byggist á að langmestu leyti, þó það kæmi fram í einhverju krossaprófi sem þingmenn voru að þreyta í dag að sjávarútvegurinn er um 16% af þjóðarframleiðslunni, en það er allt annað mál. Þessi 16% af þjóðarframleiðslunni skaffa um 80% af útflutningstekjunum. Þess vegna er mikið í húfi að þessum málum sé vel til skila haldið og það er náttúrlega mjög ámælisvert að þeim skuli hafa verið stefnt þannig að endurskoðun þessara laga skuli hafa tekið þrjú ár og síðan sé Alþingi ætlað að afgreiða veigamiklar breytingar á málinu á fáeinum dögum og öllum sem við atvinnugreininna vinna ætlað að átta sig á þeim breytingum á örskömmum tíma.
    Það er nú svo að afkoma sjávarútvegsins í landinu er ekkert of góð. Þar er ekki allt sem sýnist. Satt að segja hefur kannski of lítið farið fyrir þeim málum í þessari umræðu, hvernig á að sjá sjávarútveginum farborða á komandi árum. Það er nú svo að endurnýjun fiskiskipaflotans hefur átt sér að mjög miklu leyti stað í frystitogurum. Það hefur gífurlegum upphæðum verið varið til þess að byggja frystitogara og atvinnufyrirtækin hafa endurnýjað sinn fiskiskipastól að miklu leyti í þeim vígalegu skipum sem eru náttúrlega feiknarlega mikil atvinnutæki. En gallinn er auðvitað sá að vinnslan fer fram úti á sjó og atvinnuöryggið í landi verður þá minna. En alvarlegasti hluturinn er sá að vinnslustöðvarnar og útgerðarmennirnir hafa ekkert bolmagn til þess að endurnýja ísfisktogarana. Það vantar grundvöllinn fyrir þeirri endurnýjun. Það væri hægt að nefna fjölmörg dæmi um slíkt. Þess vegna er það svo að endurnýjunin fer í allt of miklum mæli fram í frystiskipum.
    Ég er ekki búinn að sjá að þetta frv. og þessar breytingar sem nú er verið að gera á frv. taki neitt á þessu atriði. Að mati atvinnumannanna, sem svo eru kallaðir, ýta þær miklu frekar undir það að frystitogaravæðingin verði enn hraðari. Nú er ég ekki einn af þeim sem hef fordæmt frystitogara, ég held að það þýði ekki að standa æpandi í fjörunni á þá, þeir eru staðreynd. En samt, ef sú þróun heldur áfram og frystitogaravæðingin af fullum krafti og eykst kannski enn frá því sem komið er, þá held ég að geti orðið vá fyrir dyrum. Hins vegar er það eitt af verkefnunum í þróunarstarfsemi og nýsköpun í fiskvinnslu að finna leiðir til þess að verkafólk í landi geti unnið fiskinn af þessum frystitogurum og hann sé fullunninn í landi. Það ætti að vera takmark okkar vegna þess að vissulega færa þeir í land gott hráefni. En það er mjög alvarlegt varðandi afkomu sjávarútvegsins í heild að möguleikar fyrirtækjanna til fullvinnslu sjávarafurða, fjárhagslegir möguleikar, eru mjög takmarkaðir eins og afkoma greinarinnar hefur verið síðustu árin. Það væri verðugt verkefni að setja í þá þróunarstarfsemi einhverja peninga. Það væri ekki ómerkari atvinnuuppbygging eða atvinnuþróun heldur en hvað annað.
    Í fylgiskjölum með nál. 2. minni hluta sjútvn. kemur m.a. fram í greinargerð frá Ragnari Árnasyni prófessor, sem hefur fjallað um kvótakerfið lengi, og hann segir um breytingarnar á frv., með leyfi forseta:
    ,,Það er skemmst frá að segja að þessar nýju tillögur fela í sér afskaplega skaðlegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Alvarlegast er að réttur til framsals veiðiheimilda er stórlega skertur. Ýmis önnur ákvæði eru einnig afar skaðleg. Horfið er frá því að leyfa fiskvinnslustöðvum að eiga kvóta. Þá er frelsi smábáta, svokallaðra krókaleyfisbáta, til veiða utan kvóta aukið.``
    Auðvitað eru þetta skoðanir þessa prófessors í fiskihagfræði sem hér eru fram settar, en þær falla saman við skoðanir margra annarra sem standa niðri á jörðinni í þessu kerfi og eru að vinna í kvótakerfinu. Þannig að ég skil ekkert í því í raun að það skuli vera skellt skollaeyrum við öllum þeim aðvörunum sem fram koma í þessu máli.
    Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er erfitt verk að ná samstöðu í þessu máli og jafnvel útilokað, hagsmunirnir eru svo gífurlegir í þessu kerfi og misjafnir að það er afar erfitt verk að ná þjóðarsamstöðu um kerfi í fiskveiðum. Hins vegar verð ég að segja að það hefur ekki verið mikið reynt til að ná breiðri pólitískri samstöðu hér á Alþingi um þetta kerfi og um breytingar og lagfæringar. Eins og ég sagði fyrr í ræðu minni þá afgreiddu stjórnarflokkarnir þetta mál eftir langa mæðu á kvöldfundi í báðum þingflokkum fyrir nokkrum vikum án þess að leita víðtækari samstöðu um það. Það er mjög miður að það skuli ekki hafa verið reynt a.m.k. að ná víðtækari samstöðu um þetta mál.
    Það er nú svo að kvótakerfið felur í sér breytta hugsun og við höfum búið við þetta kerfi í u.þ.b.

tíu ár, sem er nú ekki langur tími í þjóðarsögunni. Það var auðvitað nýtt fyrir okkur að takmarka veiðar. Við höfum verið veiðimannaþjóðfélag og okkur finnst hart að þurfa að búa við það að veiðar séu takmarkaðar. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að reyna að sætta sem flest sjónarmið í þessu máli, þó ég geri mér fullkomlega ljóst að það sé erfitt verk.
    Eins og ég sagði fyrr þá hafa mörg gífuryrði fallið um þetta kerfi og hv. stjórnarliðar hér á Alþingi og ýmsir stjórnarandstæðingar koma upp í þennan ræðustól með miklar yfirlýsingar, veitast m.a. að Framsfl. fyrir þessi mál. Framsfl. hefur verið töluvert til umræðu hér í dag og forustumenn hans í tengslum við þetta mál. Það er ljóst að Framsfl. átti ríkan þátt í að koma þessari skipan mála á og sjútvrh. hans í átta ár. En þá vil ég líka segja að það hefur bara enginn gengið hér fram fyrir skjöldu og bent á annað kerfi sem hægt er að sætta þjóðina um. Það er staðreynd. ( KHG: Hún er ekki sátt við þetta.) Ég veit, hv. 5. þm. Vestf., að það er ekki sátt um þetta kerfi, en það hefur bara enginn bent á kerfi sem er meiri sátt um. ( Gripið fram í: Eða hagkvæmara.) Eða hagkvæmara. Hv. 11. þm. Reykn. hélt ágæta ræðu áðan og hún var svo hreinskilin að hún sagði beinlínis: Ég er ekkert ánægð með allt í þessu kerfi en ég get ekki bent á neitt annað betra. Ég held að það væri nú betur að fleiri hefðu hreinskilni til að segja þetta frekar en að geisa hér út og suður og ráðast á Framsfl. fyrir að hafa átt þátt í þessu kerfi í gegnum árin.
    Varðandi þátttöku sjómanna í kvótakaupum þá er það nú staðreynd að slík þátttaka er bönnuð með lögum og auðvitað á að finna leið til að framfylgja þeim lögum ( SJS: Kjarasamninga.) og kjarasamningum. Rétt, hv. 4. þm. Norðurl. e. Það er til bóta að koma aftur á samráðsvettvangi milli útgerðarmanna og sjómanna, en sá samstarfsvettvangur var afnuminn á sínum tíma. Það er til mikilla bóta að koma honum á aftur, en ég tel að það sé hættulegt að leysa þetta mál gagnvart sjómönnunum með því að skemma það kerfi sem þeir vinna við og eiga á hættu að það verði óhagkvæmara og komi niður á sjómönnunum þegar til lengdar lætur.
    Ég er þeirrar skoðunar að það verði að reyna að ná sem mestri sátt á milli útgerðarflokka, milli smábáta og þeirra sem gera út stærri skip. Mér er samt alveg ljóst að fullkomin sátt um þau mál næst aldrei, en það er nauðsynlegt að reyna að vinna að því að það sé hægt að stunda hér smábátaútgerð. Hins vegar verða aldrei allir ánægðir í þessu kerfi, það er alveg ljóst. En menn ættu að geta sameinast um það takmark að gera þetta kerfi eins hagkvæmt og kostur er því við eigum engan annan kost. Þetta er nú einu sinni sá atvinnuvegur sem gefur okkur mestar tekjur og er undirstaðan undir lífskjörum í landinu, hefur margfeldisáhrif, er undirstaðan undir þeirri þjónustu sem skapar einnig þjóðartekjurnar og sem fjöldi fólks lifir af.
    Það hefur verið töluvert rætt um, eins og ég kom að fyrr, 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, sem kveður á um eign þjóðarinnar á fiskimiðunum og þau ákvæði sem verið hafa í gildi, að úthluta kvóta á skip. Það hafa verið höfð um þessi atriði hin verstu orð, að hér sé verið að selja fiskinn í sjónum, það sé verið að selja, svo tekin sé líking, fugl í skógi og að þetta sé hið versta brask sem eigi ekki að viðgangast. Mér finnst gæta nokkurs misskilnings í þessu efni. Auðvitað er verið að selja réttinn til að veiða og rétturinn til að veiða hefur verið bundinn við þá sem eiga skip til þess að veiða. Það hefur verið erfitt að finna annan grundvöll til að úthluta þessum heimildum. Það er ljóst að í grundvallaratriðum er byggt á þessu kerfi áfram. Og það er mjög athyglisvert og ég er ánægður með það út af fyrir sig, því ég er einn af þeim sem sé ekki neitt kerfi sem skilar okkur í rauninni betri árangri, þó ég geri mér vissulega ljósa ýmsa annmarka sem eru á því. Hins vegar er það oft svo að margir kenna kerfinu um það að það er lítill afli og ekki nógur fiskur. Kerfið eykur ekki fiskinn í sjónum. Grundvöllur vandans er sá að við höfum orðið svo stóran flota að við getum þurrkað upp fiskstofnana ef ekki er nógu varlega farið.
    Hér hefur verið ákveðið að leggja til atlögu við þetta kerfi að vissu leyti og það er ljóst, ef það verður samþykkt eins og það liggur fyrir, að það verður ekki eins hagkvæmt og áður og það er miður. Það hefur t.d. lítið verið rætt um það í þessari umræðu hvaða áhrif heftingar á framsali hafi á síldar- og loðnubáta o.s.frv. Sannleikurinn er sá að þinginu gefst ekki tími til að gaumgæfa þessa niðurstöðu sem orðið hefur hjá stjórnarflokkunum og það er náttúrlega ekki viðunandi að bjóða sjútvn. upp á það að mál sem hefur verið í meðferð í þrjú ár skuli afgreitt á örfáum vikum út úr nefnd. Því að stórmál sem þetta verða auðvitað að vera til umræðu víðar en innan þessara þykku veggja í þessu húsi og í því húsi sem nefndirnar hafa til umráða hér hinum megin við götuna. Slíkt mál þarf að vera til umræðu úti í þjóðfélaginu. Þeir sem í atvinnugreininni vinna verða að hafa tóm til að velta fyrir sér þessum breytingum og gera sér sem ljósasta grein fyrir afleiðingum þeirra. Ég fullyrði að slíkt ráðrúm hefur ekki gefist. Þó vissulega hafi þeir sem í atvinnugreininni vinna og bera hitann og þungann af henni tekið viðbragð í málinu og vissulega hafi umræða um þetta mál verið mikil í gegnum tíðina þá hafa þessar brtt. ekki fengið nægjanlega umræðu í þjóðfélaginu, því miður.