Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 21:13:00 (7259)


[21:13]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Vorið og sumarkoman hafa sérstaka þýðingu hér á Íslandi og þessa tíma er beðið með óþreyju. Að þessu sinni hefur vorað nokkuð seint en nú er breyting að verða og senn er allt komið í sumarskrúða á landinu bjarta. Rétt eins og í náttúrunni skiptast á skin og skúrir í hinni efnahagslegu tilveru þessarar þjóðar. Við höfum gengið í gegnum efnahagslegan vetur, annars vegar vegna þess að ytri aðstæður hafa verið okkur erfiðar og hins vegar vegna þess að síðasta ríkisstjórn glutraði niður góðum tækifærum og hélt að milljarða fjáraustur úr sjóðum væri heppilegri til að halda atvinnuvegunum gangandi en að bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins í almennum aðgerðum. Fullyrt var reyndar að Ísland lyti sérstökum lögmálum í þessum efnum.
    Gerbreyting hefur orðið á íslenskum efnahagsmálum á þremur árum. Það hefur kostað töluverð átök og fórnarlund, en nú er árangurinn að koma í ljós á öllum sviðum. Nú er að vora í efnahagslífi Íslendinga. Og sá mikli árangur sem er að verða mun skila sér í bættri stöðu hjá fólki og fyrirtækjum.
    Atvinnulífinu hafa verið sköpuð almenn skilyrði til að byggja sig upp við öruggar og traustar aðstæður. Íslensk fyrirtæki hafa ekki um langan tíma haft betri og heilbrigðari skilyrði til þess að stunda öfluga starfsemi. Að þessu hefur verið unnið undanfarin þrjú ár með mjög markvissum hætti og öll sú vinna er að skila árangri. Verðbólgan, hinn erfiði draugur hins íslenska efnahagslífs, er nú loks komin í traust bönd og er verðbólgan undir 1% og standa Íslendingar sig best allra Evrópuþjóða í þessum efnum. Verðbólgan var 17% að meðaltali í tíð síðustu ríkisstjórnar en lækkaði nokkuð á síðustu mánuðum hennar en var þó 8--10 sinnum hærri þá en hún er nú.
    Beinir og óbeinir skattar í atvinnulífinu hafa lækkað verulega og hafa ekki fyrr verið gerðar jafnumfangsmiklar aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Raungengið er nú tryggt og hagstæðara fyrir Íslendinga í samkeppni þeirra við aðrar þjóðir en það hefur verið í þrjá áratugi. Gengisaðlögun hefur átt sér stað án þess að kollsteypa yrði í efnahagslífinu eins og gerðist hér áður við svipaðar aðstæður.
    Alger umskipti hafa orðið í vaxtamálum í kjölfar endurskipulagningar í efnahagslífi og almennra aðgerða ríkisvaldsins, bæði ríkisstjórnar og Seðlabanka. Þegar ríkisstjórnin tók við var raunávöxtun á verðbréfaþingi 8,42% en er nú 4,94%, úr 8,42% í 4,94%. Vaxtastigið í landinu dregur dám af þessu þótt munur á óverðtryggðum vöxtum og verðtryggðum sé enn of hár í bönkum landsins og þurfa þeir að gera átak í þessum efnum svo að vel megi við una.
    Í skýrslu sem mér barst frá bankastjórn Seðlabanka í dag kemur fram að frá 14. apríl sl. hefur

ávöxtun spariskírteina og húsbréfa á eftirmarkaði lækkað stig af stigi. Sérstaklega er athyglisvert hvað ávöxtunarkrafa húsbréfa hefur lækkað en hún er nú komin niður í 4,98%. Lengi var talið að ómögulegt væri að koma raunvöxtum niður fyrir 7% hér á landi og var talað um sálfræðilega girðingu því sambandi. Sú girðing hefur verið rofin með eftirminnilegum hætti. Allt bendir til þess að vextir geti enn lækkað nokkuð á næstunni og forsendur fyrir lágu vaxtstigi séu mjög traustar.
    Viðskipti okkar við útlönd eru hagstæðari en oftast áður. Þjóðin aflar nú meira heldur en hún eyðir og er því að greiða niður sínar erlendu skuldir. Þetta er árangur sem þjóðin getur verið stolt af. Þegar núverandi stjórn tók við völdum var þjóðarskútan á hraðri siglingu í þá átt sem frændur okkar Færeyingar lentu í, illu heilli. Þjóðarskútunni hefur verið siglt á annað svið og enginn talar um að Íslendingar séu lengur á fyrri ógæfusiglingu.
    Þegar ríkisstjórnin greip til efnahagsúrræða sinna fullyrtu forustumenn stjórnarandstöðunnar að nú væri að hefjast skelfilegur víxlgangur í efnahagslífinu. Verðbólgan mundi rjúka upp og vextir mundu hækka stórkostlega. Allir vita að slíkar illspár reyndust óráðshjal. Margir óttuðust að atvinnuleysi mundi fara hér upp í 10--20% eins og farið hefur í okkar nágrannalöndum. Í kjölfar þorskbrests og annars andstreymis hefur atvinnuleysið vaxið og var 4,4% á sl. ári og verður nálægt 5,5% á þessu ári. En eftir það fer atvinnuleysið jafnt og þétt minnkandi á ný með traustari og öflugum vexti hins íslenska atvinnulífs.
    En það er fróðlegt að fylgjast með því og skoða hvernig vinstri stjórn þeirra þáv. formanns Framsfl. og formanns Alþb. annars vegar og núv. ríkisstjórn hafa farið með kaupmátt launafólks í landinu því mjög er um það talað. Árin 1988--1990 þegar þeir félagar stjórnuðu forsrn. og fjmrn., fóru með efnahagsmálin, hrundi kaupmáttur almennings um 14%, hvorki meira né minna, en þá var reyndar góðæri í landinu. Síðustu 12 mánuði hefur kaupmáttur launa ekkert lækkað og ljóst er að lækkun á matarskatti hefur algerlega skilað sér til neytenda þrátt fyrir spár um annað. Ef aðeins eru teknir þeir sem lökust hafa kjörin, þá kemur í ljós að þeirra kaupmáttur hefur styrkst. Inni í þessum kaupmáttartölum er ekki hin mikla vaxtalækkun mæld en ekki er vafi á að heimilin í landinu eru af þeim ástæðum mun betur sett en áður, enda lögðu talsmenn verkalýðshreyfingarinnar höfuðáherslu á að vextir yrðu lækkaðir. Þetta var reyndar þeirra höfuðkrafa oft í kjarasamningum en þeir fengu engan árangur fyrr en nú.
    Ég vil, góðir áheyrendur, víkja örfáum orðum að umræðu um málefni Evrópu sem orðið hefur í þjóðfélaginu að undanförnu. Það er ekkert undarlegt þó að aukin umræða hafi orðið um stöðu Íslands eftir aðildarsamninga hinna EFTA-ríkjanna. Það þarf ekki að koma neinum á óvart. Hins vegar hafa engir óvæntir atburðir gerst sem breyta þeirri stefnu sem þegar hafði verið mótuð. Fyrir tveimur árum var ljóst að þrjú EFTA-ríki ætluðu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Tilboð Evrópusambandsins til EFTA-ríkjanna, þar á meðal Íslands, um að gengið yrði til samninga við þau um aðild áður en stjórnkerfi sambandsins yrði breytt vegna stækkunar þess var lagt fram í júní 1992. Með umsókn Norðmanna í nóvember 1992 var staðfest að flest EFTA-ríkjanna og öll Norðurlandanna nema Ísland stefndu að aðild að Evrópusambandinu. Um þessar horfur allar hefur að sjálfsögðu verið fjallað í ræðu og riti af hálfu íslenskra stjórnvalda innan lands og utan sem og um það hvernig menn mundu bregðast við þegar mál skýrðust.
    Ég ætla að taka einungis eitt dæmi um þessa umfjöllun íslenskra stjórnvalda en það dæmi er líka sótt aftur um tvö ár, til mars 1992. Í ræðu sem ég flutti þá á fundi benti ég m.a. á að EES-samningurinn mundi færa okkur stórkostlega búbót. Síðan sagði ég orðrétt:
    ,,Reyndar þarf að gera breytingar á tilteknum framkvæmdaratriðum í EES-samningnum ef flest hinna EFTA-ríkjanna ganga í Evrópubandalagið á næstu árum. Aðalatriðið fyrir okkur er þó það að með EES-samningnum er Evrópubandalagið skuldbundið okkur á mikilvægum sviðum. Við getum áfram byggt á samningnum sem grundvelli samskipta okkar við EB og þannig að hann tryggi veigamikla hagsmuni okkar á meginlandinu. Flest hinna EFTA-ríkjanna, ef ekki öll, hyggja á inngöngu í EB af því að þau horfa til þess sem þau telja að vanti í EES-samningnum.``
    Um norrænt samstarf og þessi mál sagði orðrétt í þessari ræðu fyrir tveimur árum síðan:
    ,,Eftir inngöngu Svía, Finna og Norðmanna innan fárra ára í EB mun norrænt samstarf óhjákvæmilega í auknum mæli taka mið af bandalaginu. Hin Norðurlöndin munu eiga með sér náið samráð sem beinist að því að móta sameiginlega afstöðu í EB. Við munum verða með í viðræðum á norrænum ráðherrafundum um mál sem eru í deiglunni í Evrópubandalaginu. Slíkt tryggir okkur miklvægan aðgang að málefnum bandalagsins án aðildar að því.``
    Ég endurtek að þetta var sagt í mars 1992, áður en EES-samningurinn var undirritaður í maí á því ári. Menn komu því ekki af fjöllum fyrir nokkrum vikum þegar samningar tókust um aðild annarra EFTA-ríkja að Evrópusambandinu. Þvert á móti hefur legið fyrir skýr stefna um viðbrögð við slíkri þróun mála.
    Ég legg áherslu á þetta því að maður hefur á tilfinningunni að í nýlegum skoðanakönnunum hafi komið m.a. fram misskilningur þess efnis að íslensk stjórnvöld séu stefnulaus í málinu, engin raunhæfir kostir aðrir en aðild séu fyrir hendi og Íslendinga bíði einangrun og áhrifaleysi utan ESB.
    Niðurstaðan í sjávarútvegsmálum í aðildarsamningum Norðmanna kemur heldur ekki á óvart. Norskir sérfræðingar og norskir ráðherrar hafa um langa hríð fullyrt að samkvæmt sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þyrftu Norðmenn ekki að láta af hendi neinar verulegar veiðiheimildir til ESB umfram það sem þegar hafði verið gert. Allar líkur voru á að þetta gengi eftir og það kom á daginn. Samt er mikil andstaða við aðildarsamninginn í þeim hluta Noregs sem háður er sjávarútvegi og svipar því til íslenskra aðstæðna. Andstaðan stafar ekki síst af því að varanleg undanþága fékkst ekki frá sameiginlegri sjávarútvegsstefnu Evrópusamningsins í norskri lögsögu þótt hinar pólitísku yfirlýsingar sem Norðmenn treysti á liggi fyrir um framhaldið. Við þyrftum miklu meira og sjávarútvegsþátturinn í aðildarsamningi Norðmanna breytir því ekki forsendum íslenskrar stefnu gagnvart Evrópusambandinu. Evrópustefna Íslands snýst um íslenska hagsmuni og íslenskan vilja en ekki um að vera með í lestarferðum eins og stundum er haldið fram. Enginn flokkur og engin hagsmunasamtök eða fyrirtæki hafa mælt með því að Íslendingar færu á lestarstöðina, enn síður út á brautarpallinn, hvað þá að við stígum um borð.
    Góðir áheyrendur. Í upphafi ræðu minnar reifaði ég nokkrar staðreyndir sem kannski koma ykkur á óvart um efnahagslega stöðu á Íslandi. Væntanlega koma þær staðreyndir þægilega á óvart því að nægar eru úrtöluraddirnar og neikvætt og langt þeirra mas. Þið munuð fá ófá dæmi um það síðar í umræðunni en það er nánast sama á hvaða mælikvarða er horft. Allt ber að sama brunni. Allt okkar erfiði, samstillt átak og stefnufesta er að skila sér. Við erum að uppskera eins og sáð var til. Illgresið hefur jafnharðan verið hirt og hent úr íslenska þjóðgarðinum og því verður uppskeran væntanlega góð. Það er því bjart yfir íslensku efnahagslífi næstu missirin. Eftir þá miklu hreinsun sem þar hefur orðið eru tækifærin alls staðar fram undan. Þorskinum hefur verið hlíft og allt bendir til að vaxtarskilyrði hans séu að batna. Hagræðing hefur átt sér stað í sjávarútvegi og flest fyrirtækin þar eru að komast upp úr öldudalnum. Íslenskur iðnaður er að fá betri viðspyrnu en hann hefur lengi haft. Ferðaþjónustan er í örum vexti og fyrstu mánuðir ársins lofa mjög góðu um hina íslensku ferðaþjónustu. Framtíðin er því björt og ný tækifæri blasa hvarvetna við. En forsendan er auðvitað sú að við höldum ótrauð réttri stefnu og hrekjumst ekki af leið.
    Ég óska öllum Íslendingum gleðilegs sumars á hátíðarafmælisári. Takk fyrir.