Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

151. fundur
Miðvikudaginn 04. maí 1994, kl. 22:32:05 (7267)


[22:32]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Það er vor í lofti, birta og ylur aukast með hverjum degi sem líður. Morgun hvern má sjá mun gróðrar frá deginum áður. Það eru einnig ýmis teikn á lofti um að vor

sé að nálgast í íslenskum efnahagsmálum.
    Þegar stofnað var til ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar fyrir réttum þremur árum ríkti nokkur bjartsýni í íslenskum þjóðarbúskap. Til valda komst ríkisstjórn sem var staðráðin í að takast á við stöðugan hallabúskap í ríkisfjármálum og aukna skuldasöfnun. Þá var ekki annað sjáanlegt en að álver risi á næstu mánuðum sem skapaði fjölda starfa og kallaði eftir miklum fjárfestingum. Allir þekkja þær utanaðkomandi aðstæður sem urðu til þess að þau áform voru lögð til hliðar og frestast um sinn. Á þeim tíma var ekkert sem benti til svo alvarlegs þorskbrests sem raunin varð, hvað þá heldur til lækkandi afurðaverðs á erlendum mörkuðum okkar.
    Þrátt fyrir hið mikla mótlæti sem hefur verið við að etja hefur ríkisstjórn og þjóð tekist svo vel upp í varnarbaráttunni að við erum farin af finna fyrir nánd vorsins í efnahagsmálum og það mun fyrr en nokkurn gat órað fyrir. Franski rithöfundurinn Molière ritaði einhverju sinni: ,,Því meiri sem erfiðleikarnir eru þeim mun meiri vegsemd felst í að vinna bug á þeim.`` Í þessum orðum er fólgin mikill sannleikur. Íslensk þjóð á heiður skilinn og hefur hlotnast vegsemd sem aldrei fyrr í 50 ára sögu hins íslenska lýðveldis fyrir baráttuna gegn hruni efnahagslífsins og þar með hættunni á missi forræðis eigin mála. Vissulega hefur sú barátta ekki verið þrautalaus og á stundum hafa ýmis öfl í þjóðfélaginu vegið alvarlega að rótum sjálfstæðis okkar og forræðis með ábyrgðarlausum stóryrðum og háreysti. Slíkt kann á stundum að vera til vinsælda fallið en þó aðeins tímabundið. Íslensk þjóð er betur gerð en svo að hún láti blekkjast af fagurgala hræsnarans. Í mótlætinu snúum við bökum saman og tökumst á við aðsteðjandi vanda. Sá tími er liðin og þau vinnubrögð heyra fortíðinni til að vandamálunum sé ýtt til hliðar og komandi kynslóðir látnar um lausnir. Slíkir tímar mega ekki koma aftur í íslensku þjóðlífi.
    Ég sagði í upphafi máls míns að teikn væru á lofti um bata í íslensku efnahagslífi eftir samdráttartíma undanfarinna missira. Þar ræður mestu um að tekist hefur að vinna bug á og halda verðbólgu svo langt niðri að annað eins þekkist vart í hinum vestræna heimi. Við þær aðstæður hefur verið mögulegt að ná fram verulegum vaxtalækkunum sem hafa leitt til gífurlegra hagsbóta fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Einnig hefur sköttum verið létt af fyrirtækjum. Þær staðreyndir eru að birtast okkur um þessar mundir að fyrirtækin í landinu, sem því miður mörg hver sýndu allt of mikið tap á árinu 1992, hafa snúið vörn í sókn og hafa mörg hver bætt mjög stöðu sína á sl. ári. Batinn í rekstri fyrirtækjanna hefur hins vegar ekki enn farið til nýrra fjárfestinga heldur hefur sá skynsamlegi kostur verið valinn að grynnka á skuldum. Þannig eru fyrirtækin í landinu að búa í haginn undir frekari fjárfestingu á næstu missirum sem mun fjölga atvinnutækifærum í landinu verulega.
    Ýmsir hafa legið verkalýðshreyfingunni á hálsi fyrir að standa ekki nægjanlega vörð um kaupmátt launa. Ég segi að þvert á móti hefur verkalýðshreyfingin skilið að án vaxtar og viðgangs atvinnufyrirtækjanna í landinu verður engin vinna. Það verður engin raunverulegur hagvöxtur ef stöðugt rekstrartap og tilheyrandi skuldaaukning verður. Það verður ekki byggt á sandi.
    Á stundum hafa andstæðingar okkar jafnaðarmanna sakað okkur um að setja auðgildið ofar manngildinu, að hafa gert árás á það velferðarkerfi sem óumdeilanlega er runnið undan rótum jafnaðarstefnunnar. Slíkar árásir dæma sig sjálfar ef grannt er skoðað. Ég þekki ekkert samfélag þjóðanna þar sem tekist hefur að skapa jöfnuð og velferð þegnanna án hagnaðar og verðmætasköpunar. Það er ánægjulegt í þessu sambandi að nýkjörinn formaður Framsfl. hefur einmitt tekið undir þessi sjónarmið okkar alþýðuflokksmanna í ræðu sinni hér fyrr í kvöld.
    Það hefur alla tíð verið og verður ætíð hlutverk Alþfl. að velja velferðina. Við alþýðuflokksmenn höfum alla tíð verið talsvert á undan öðrum stjórnmálaflokkum að átta okkur á því hvar hættur leynast svo ekki steyti á skeri. Þannig hefur Alþfl. um langt skeið verið gerandinn í íslenskum stjórnmálum, komið stórkostlegum framfaramálum til leiðar, sem ýmsir hafa ekki áttað sig á eða ekki viljað sjá að horfðu til framfara. Því hefur Alþfl. umfram aðra flokka oft sætt óvæginni gagnrýni, Alþfl. sem trúr sínu hlutverki hefur aldrei hopað velferðinni í landinu til varnar.
    Er það gegn velferðinni að spara í ríkisútgjöldum í stað þess að hækka skatta eða auka við erlendar skuldir? Er það gegn velferðinni að tryggja stöðugleika og lága vexti sem er besta kjarabótin sem völ er á? Er það gegn velferðinni að við flytjum á erlenda markaði meiri verðmæti en við flytjum inn, að við lifum ekki lengur um efni fram? Er að gegn velferðinni að samkeppnisskilyrði íslenskra fyrirtækja hafa aldrei í sögunni verið betri en nú er? Er það gegn velferðinni að hafa spyrnt við fótum gegn sjálfvirkum útgjaldavexti í heilbrigðiskerfinu? Er það gegn velferðinni að hafa náð fram bættu aðgengi fyrir íslenskar vörur á Evrópumörkuðum með EES-samningum? Þannig mætti lengi áfram telja, en svari hver fyrir sig.
    Ef grannt er skoðað þá hefur það aldrei gerst að hin stóru framfaramál sem Alþfl. hefur barist fyrir og komið á hafi verið gerð afturræk þrátt fyrir stór orð andstæðinga okkar á stundum. Nærtækasta dæmið er EES-samningurinn sem ýmsir höfðu um þau orð fyrir fáum missirum að myndi leiða slíkar hörmungar yfir íslenska þjóð að ekki yrði aftur snúið. Í dag vildu allir þá Lilju kveðið hafa.
    Danski heimspekingurinn Friðþjóf Brandt sagði einhverju sinni: ,,Fáum er ljóst hversu gott þeir hafa það, öllum hve gott þeir gætu haft það.`` Í þessum orðum eru sannindi fólgin. Okkur er gjarnt að álíta að það sé mun grænna handan lækjarins, að hamingju og gæðum samfélagsins sé misskipt. Vissulega er það svo að við þurfum ætíð að vera vel á verði hvað þetta varðar. Það hefur alltaf verið hlutverk jafnaðarmanna og verður alla tíð að hlúa að velferðinni, að skipta gæðunum með sem sanngjörnustum hætti. Það

verður hins vegar ekki gert ef enginn verðmæti eru fyrir hendi. Það verður heldur ekki gert án þess að áhrifa mannúðarstefnu Alþfl., jafnaðarmannaflokks Íslands, gæti við stjórnvölinn. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.