Lyfjalög

152. fundur
Fimmtudaginn 05. maí 1994, kl. 14:14:51 (7298)


[14:14]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við höfum fengið að heyra yfirlýsingu heilbrrh. um það hvernig hann hyggst koma til móts við kröfur okkar að nokkru leyti um breytingar á frv. Ég þakka honum fyrir það þó að það gangi ekki til þess ýtrasta sem við hefðum viljað sjá en það er alltaf þannig ef menn reyna að semja um eitthvert mál að hvorugur getur náð fram sínum ýtrustu kröfum.
    Þetta frv. er nokkuð sérstætt að því leyti til að það sem virðist vera stefnt að, þ.e. að ná niður lyfjaverði með því frjálsræði sem hér á að koma á, hefur enginn treyst sér til af þeim umsagnaraðilum sem hafa komið og rætt þetta frv. að fullyrða að geti orðið.
    Hins vegar virðist frv. stefna í það að lyfjaverð gæti orðið mjög misjafnt á landinu. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því enn einu sinni að okkar kerfi hefur verið mjög svipað og í Danmörku. Danir eru að endurskoða sitt kerfi núna og leggja til breytingar á lögunum en þeir taka það út frá öðrum sjónarhóli en við höfum gert. Þeir leggja sérstaka áherslu á að lyfjaverð sé jafnt í öllu landinu. Þeir tóku sitt dreifingarfyrirkomulag til endurskoðunar og niðurstaða þeirra virtist verða allt önnur en heilbrigðisyfirvalda hér. Það segir í skýringum með því frv. sem þeir hafa lagt fram í vetur og ákváðu eftir skoðun á sínum lyfjalögum, með leyfi forseta:
    ,,Það er skilningur ríkisstjórnarinnar`` --- þ.e. dönsku ríkisstjórnarinnar --- ,,að út frá forsendum samkeppnisréttar sé í sjálfu sér æskilegt að afnema þau miklu afskipti sem nú eru á sviði lyfjadreifingar og koma í stað þess á fyrirkomulagi með frelsi til að setja upp apótek hvar sem er og frjálsri verðlagningu. Ríkisstjórnin vill þó ekki leggja slíkt til. Hún er þeirrar skoðunar að stefna í heilbrigðismálum leyfi af ýmsum mikilvægum ástæðum einungis endurnýjun á sviði lyfjadreifingar. Ríkisstjórnin telur mikilvægt að tryggja að neytendur eigi sæmilega auðvelt með að kaupa lyf, einnig í dreifbýli. Í tengslum við þetta telur stjórnin að það sé í samræmi við stefnu í félagsmálum að halda fast við að neytendaverð á lyfi sé það sama alls staðar á landinu eins og reyndin er í öðrum EB-löndum.`` --- Það vitna þeir nú reyndar í líka en segja síðan að með fullu frjálsræðisfyrirkomulagi sé

ekki hægt að taka tillit til þess.
    Ég vil leggja sérstaka áherslu á þetta og tel einmitt nauðsynlegt að skoða þetta í þeirri nefnd sem hæstv. heilbr.- og trmrh. ætlar að setja á fót til að skoða hvaða áhrif EES-pakkinn hafi þegar hann kemur til framkvæmda. Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja mál mitt um þetta. Ég hef áður tekið til máls í þessari umræðu og lýst ítarlega mínum skoðum á frv. og hef þar engu sérstöku við að bæta.
    Ég vil þó taka undir orð hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjargar Pálmadóttur, sem spurði um það áðan hvort sjálfstæðismenn hefðu sætt sig við þær breytingar sem hér hefðu orðið á frv. Ég minnist þess einnig, eins og hún, að við 1. umr. um frv., bæði í fyrra þegar það var lagt fram og eins nú, voru þeir með miklar efasemdir og lýstu nánast andstöðu við það þannig að það mátti eiginlega lesa það út úr umræðum sem þá urðu að þetta frv. færi aldrei lengra en til 1. umr. Nú ber svo við við 2. umr. um málið að þó að einn og einn sitji í þingsal er enginn sem lýsir neinum skoðunum á frv. eða brtt. sem fram eru komnar. Þar sem hér er um stærri stjórnarflokkinn að ræða þá væri mjög eðlilegt að þingheimur og þeir sem hlusta á og fylgjast með umræðum frá þinginu fái að heyra hvaða skoðanir hinn stjórnarflokkurinn hefur á frv. eins og það lítur út.
    En á þessu stigi hef ég ekki frekari athugasemdir við þetta. Ég tel að við stjórnarandstæðingar höfum komið okkar sjónarmiðum mjög vel á framfæri og nokkur árangur náðst. Ég vona svo sannarlega að einmitt það að skipuð verði nefnd sem skoðar þessi mál muni skila sér í því að menn endurskoði e.t.v. einhver ákvæði í frv. sem stefnir þá í að verða að lögum fyrir vorið.