Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

152. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 02:16:10 (7410)


[02:16]
     Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn) :
     Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með mönnum að ég tel að nú sé nóg komið. Við erum búin að vera hér æðilengi og ég sé ekki ástæðu til að reka menn áfram með þessum hætti. Mér finnst líka dálítið undarlegt að verða ekki við óskum um að ráðherrar þessara mála verði við umræðuna. Það er ekki venjuleg afgreiðsla mála eins og hér er að staðið. Þetta mál er mjög óvenjulegt. Það kom inn í þingið þannig að það eru líklega engin dæmi til eftir því sem gamlir og reyndir þingmenn segja að hver einasti maður sem skilaði nál. skrifaði undir með fyrirvara. Síðan birtust brtt. frá hæstv. ráðherra eftir að málinu hafði verið skilað frá nefndinni. Þetta er heldur ekki venjulegt.
    Ég tel að það sé full ástæða til að þessu máli verði gefinn gaumur og tími og þá að degi til þannig að allir, líka þeir sem ekki hafa mesta krafta til umræðunnar, geti verið með. Hér hefur það komið fram að einhverjir þingmenn sem ætluðu að taka þátt í þessari umræðu hafi horfið af vettvangi vegna þess hve langt er liðið á nóttina. Það er nú ekki gott til afspurnar hjá hv. Alþingi ef verið er að sitja af sér þá sem hafa kannski skynsamlegustu hlutina til málanna að leggja auk þess sem ráðherra málanna er ekki mættur til starfa til að svara fyrir sínar tillögur sem hafa ekki hlotið neina umræðu eftir að hæstv. ráðherra lagði þær fram þar sem hann hefur getað svarað fyrir þær.