Leikskólar

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 10:25:02 (7430)


[10:25]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í 1. umr. um frv. til laga um leikskóla benti ég einmitt á þetta atriði í 2. gr. þar sem rætt er um kristilegt siðgæði barna. Og þó ég hafi síst á móti því að það sé eflt í grunnskólum og leikskólum sem og annars staðar þá fannst mér að það væri kannski vafasamt að hugsa sér það að foreldrar barna sem væru búddatrúar eða múhameðstrúar mundu endilega vilja að það væri kristilegt siðgæði sem verið væri að kenna börnunum. Ég held að allir hafi verið sammála um þegar búið var að ræða þetta lítið eitt fram og aftur hér í þinginu, að þetta væri rétt og þó svo að ráðherra segði að hann teldi að þessari hlið trúarlegs uppeldis barna væri borgið þrátt fyrir þetta orðalag, held ég samt að það væri mjög til bóta ef brtt. hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar kæmi inn í þetta frv. Það mundi sýna þá virðingu sem við eigum að sýna öðrum trúarbrögðum einmitt með þeirri víðsýni og því umburðarlyndi sem talað er um í næstu grein á undan í markmiðunum í II. kafla leikskólalaganna ,,að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisaðstöðu þeirra í hvívetna.`` Í samræmi við þessa grein finnst mér afskaplega eðlilegt að tillaga Ólafs Þ. Þórðarsonar verði samþykkt.
    Ég benti líka á það í 1. umr. að það væru fleiri starfsmenn á leikskólum í dag, og mundu verða um langan aldur enn, heldur en þeir sem hefðu menntun leikskólakennara og mér fyndist eðlilegt að inni í 12. gr. væri ákvæði þar sem sagt væri að allir starfsmenn leikskóla ættu kost á uppeldismenntun. Ég er ekki viss um að hv. þingheimur hafi yfirleitt skilið hvað ég var að tala um, skilið það að þó nokkuð stór hluti þeirra starfsmanna sem halda uppi leikskólastarfi í landinu í dag eru ekki lærðar fóstrur, alls ekki, heldur ófaglært fólk sem í krafti ágætis síns hefur unnið mjög gott starf. Sums staðar hefur starfsfólk þetta fengið námskeið og t.d. í Reykjavík hafa allir sem vinna á leikskólum möguleika á að taka 200--300 kennslustunda námskeið í uppeldisfræðum. Mér fyndist ekki óeðlilegt að í þessu frv. væri ákvæði um það að þetta fólk ætti rétt á uppeldisfræðilegu námi svo lengi sem aðstaða okkar er þannig að við verðum að nýta krafta þessa fólks fyrir leikskólana. En það er eins og það hafi hreinlega gleymst og mig grunar að hv. þingheimur hafi ekki skilið það sem ég var að tala um, að stór hluti, mjög stór hluti af starfsmönnum leikskólanna í dag hefur ekki fósturfræðilegt nám að baki og væri eðlilegt að stæði í frv. að það ætti rétt á að fá uppeldisfræðilega kennslu.
    Þetta tvennt vildi ég taka sérstaklega fram. Ég veit ekki hvort við erum komin það langt að það sé ekki hægt að bæta þessu inn í frv., en brtt. Ólafs Þ. Þórðarsonar styð ég af heilum hug.