Þjóðminjalög

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 12:16:00 (7463)


[12:16]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Frú forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara. Mér þykir rétt og skylt að ræða það sem ég tel að sé aðalatriðið í því sem ég vildi hafa á annan veg í þeirri stefnumótun sem er um frv. til laga um breyting á þjóðminjalögum.
    Endurskoðun þessara laga stendur yfir og verður fram haldið. Nú er það svo að þessi lög eru í reynd sniðin að þeirri skipan stjórnkerfisins að hér sé ekki umhvrn. Þau eru sniðin að þeirri skipan að málaflokkurinn sem heild heyri undir menntmrh.
    Við höfum verið að festa hér í sessi umhvrn. sem hefur eftirlit með hinum margvíslegu þáttum, m.a. eru skipulagsmál komin þar undir og eftirlit með nýjum ákvörðunum Vegagerðarinnar um vegstæði eða lagningu á háspennulínu eða allt jarðrask sem hið opinbera stendur fyrir er þess vegna komið undir umhvrn. Það er nú svo að þessar fornminjar sem við eigum vítt og breitt hálffaldar í landslaginu vegna þess að þær eru úr torfi og grjóti eins og kunnugt er, eru ekki alltaf svo augsýnilegar. Það er ekki alltaf ljóst að þarna sé um helgan reit að ræða þó einhverjir þollar hafi verið settir þar niður. Og í hinni skjótu framkvæmd og ákvörðunartöku sem oft á sér stað á Íslandi hafa orðið slys í þessum efnum.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt að stefna að því að aðskilja safnaþáttinn og fornleifarannsóknirnar og færa þær undir umhvrn. Ástæðan er hvorki sú að ég telji að menntmrn. hafi ekki áhuga eða þekkingu til að sinna þessum málum. Ég undirstrika að ég tel að þeir hafi hvort tveggja, en ég lít svo á að eftirlitsþátturinn, sem verður að vera til staðar, er í höndum umhvrn. á öðrum sviðum og mér finnst að menntmrn. hafi hreinlega ekki þau vopn í hendi að geta fylgst með eftirlitsþættinum jafn vel og ég tel að umhvrn. geti gert í framtíðinni. Af þeirri ástæðu tel ég að þarna eigi að fara þá leið sem farin hefur verið á Norðurlöndum.
    Ég vildi koma þessu sjónarmiði mínu á framfæri vegna þess að það er einu sinni svo að þegar maður skrifar undir með fyrirvara þá er oft spurt: Hvað er það í aðalatriðum sem menn telja að sé athugavert við það sem hér er verið að gera? Það kemur fram í nál. Kristínar Ástgeirsdóttur, sem ég tel vera hárrétt, þar sem hv. þm. vekur athygli á þessum hluta málsins, að það sé eðlilegt að færa þetta yfir í umhvrn.