Happdrætti Háskóla Íslands

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 14:40:40 (7473)


[14:40]
     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta allshn. um frv. til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands og brtt. á þskj. 1159.
    Nefndin hefur fjallað um málið. Fékk hún á fund sinn til viðræðna ýmsa aðila sem nánar er getið í nál.
    Í frumvarpi til laga um söfnunarkassa, 446. máli þingsins, sem afgreitt var frá nefndinni samhliða þessu frumvarpi, er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilað að veita Íslenskum söfnunarkössum, félagi í eigu Rauða kross Íslands, Landsbjargar, Samtaka áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann og Slysavarnafélags Íslands, leyfi til að starfrækja söfnunarkassa með peningavinningum. Frumvarp þetta er flutt samhliða þar sem nauðsynlegt er að afmarka fyrrgreinda starfsemi gagnvart happdrættisvélum Háskóla Íslands. Afmörkuð er heimild til að nota samtengdar happdrættisvélar en Háskóli Íslands hefur einkaleyfi til rekstrar happdrættis með peningavinningum og hefur nýlega hafið rekstur peningahappdrættis með vélum sem ekki er rekið sem flokkahappdrætti.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Kristinn H. Gunnarsson og Anna Ólafsdóttir Björnsson standa að breytingartillögunni en ekki að nefndaráliti þessu.
    Lagt er til að lögtekið verði aldurslágmark þeirra sem spila mega í happdrættisvélum og verði miðað við 16 ára aldur. Þessar reglur eru fyrir hendi í reglugerð um happdrættisvélar Háskóla Íslands, nr. 455/1993, þar sem segir að aðgangur að vélum skuli takmarkaður við 16 ára og eldri, en að athuguðu máli telur meiri hlutinn rétt að mæla með lögfestingu þess aldurslágmarks.
    Ólafur Þ. Þórðarson og Jón Helgason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Undir nál. þetta rita nöfn sín: Sólveig Pétursdóttir, Gísli S. Einarsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Ingi Björn Albertsson og Tómas Ingi Olrich.