Lyfjalög

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:10:27 (7526)


[18:10]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í heilbr.- og trn. gerum það að tillögu okkar að þeim hluta frv. sem ekki snýr að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við teljum að þær breytingar sem boðaðar eru í frv. muni ekki lækka lyfjaverð í landinu eins og markmiðið er með frv., enda engin rök komið fram sem hníga í þá átt. Þvert á móti muni lyfjaverð á landsbyggðinni verða mun hærra en á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
    Það er ekki hægt að sætta sig við að lyfjaverð sé mismunandi eftir búsetu. Ef stórverslanir á Reykjavíkursvæðinu hefja póstverslun með lyf, sem er líklegt ef frv. verður að lögum, er grundvöllur fyrir litlu apótekunum úti á landi brostinn og þar með öryggi þeirra stefnt í tvísýnu sem á bráðalyfjum þurfa að halda. Hér er verið að slaka á kröfum um jafna uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar og það viljum við ekki samþykkja. Ég segi já við frávísunartillögunni.