Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

153. fundur
Föstudaginn 06. maí 1994, kl. 18:47:57 (7541)


[18:47]
     Eggert Haukdal (um atkvæðagreiðslu) :
    Virðulegi forseti. Alþingi og ríkisstjórn eru oft seinheppin í málafylgju. Hér hefur verið hægt að eyða löngum tíma í þetta frv. um vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Það er vissulega dæmalaust hvað mönnum dettur í hug að setja í lög.
    Ekki skal lítið gert úr því að öllu lífi þarf að sýna tilhlýðilega virðingu, þar á meðal hagamúsum, rottum, minkum og refum. En þarf ekki að ræða vanda mannfólksins? Hefði ekki t.d. í stað þessarar umræðu í þinginu þurft að ræða atvinnuleysið og finna leiðir í þeim hrikalega vanda sem þúsundir Íslendinga eiga við að etja? Atkvæði mitt í þessu máli eru mótmæli. Mótmæli við því að það skuli vera hægt að eyða dýrmætum tíma Alþingis í þetta miðstýringarfrv. Því mun ég segja nei við þessu máli.