Störf efh.- og viðskn. og allshn., verkfall meinatækna

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:04:15 (7553)


[09:04]
     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins og ætlaði að beina máli mínu til hv. formanns efh.- og viðskn. og formanns allshn.
    Svo er mál með vexti að snemma þessa þings lagði ég fram í sjöunda sinn frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár sem fljótlega var vísað til hv. efh.- og viðskn. Við höfðum verið tveir flutningsmenn þessa frv. síðast í fyrra, ég ásamt hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, en nú bættust við margir nýir flutningsmenn, þar á meðal hv. þm. Steingrímur Hermannsson, Páll Pétursson, Kristín Ástgeirsdóttir, Jóhann Ársælsson og Kristinn H. Gunnarsson. Ég hef margýtt á eftir því við hv. nefnd að hún kæmi frv. frá sér inn í þingið þannig að menn fengju að greiða atkvæði, já eða nei, um lánskjaravísitöluna. Ég lýsi undrun minni á því að hv. nefnd hefur ekki enn tekist að koma þessu frá sér. Þegar ég hef rætt við nefndarmenn einn og einn hafa flestir tekið vel í mitt mál að þetta færi út og ég vil gjarnan heyra hvernig á því stendur að málið hefur ekki verið afgreitt úr nefnd. En enn er tími til að afgreiða málið, þingið er ekki búið og það er fljótgert hjá hv. nefnd að koma saman og keyra málið út.
    Þá ætlaði ég að minnast á annað mál sem ég hef flutt en það er í allshn. Það var frv. til laga um breytingu á lögum um þingfararkaup alþingismanna. Þar eru flutningsmenn ásamt mér hv. þm. Matthías Bjarnason, Tómas Ingi Olrich og Stefán Guðmundsson. 1. gr. þess var þannig:
    ,,Aftan við 8. gr. laganna bætist: Réttur til biðlauna fellur niður ef fyrrv. alþingismaður tekur við starfi í þjónustu ríkis, sveitarfélags eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eign ríkisins enda fylgi stöðunni jafnhá eða hærri laun en þingfararkaup. Ella greiðist launamismunurinn til loka tímabilsins.``
    Um þetta mál hygg ég að sé enginn ágreiningur. Öllum hv. þm. er ljóst að það þarf að hreinsa til. Þetta á að afgreiða og bara einn, tveir, þrír. Það stóð til að ná samkomulagi um fleiri mál í hv. nefnd tengd einmitt þessu máli. Það tókst því miður ekki en þegar það lá fyrir átti bara að afgreiða þetta mál út. Ég vona að hv. allshn. einnig taki sig til á þessum fáu mínútum sem eftir eru af þinginu og afgreiði málið úr nefndinni.