Þjóðminjalög

154. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 09:29:05 (7565)


[09:29]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég var ekki við í þinginu þegar þetta mál kom frá hv. menntmn. og ég vil nota þetta tækifæri til að þakka nefndinni fyrir afgreiðslu málsins og fyrir þá samstöðu sem þar ríkti um afgreiðslu þess.
    Varðandi þær spurningar sem hv. þm. beindi til mín, þá mun ég að sjálfsögðu framkvæma lögin eins og þau segja að ráðherra skuli gera. Ég held að það sé engin ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því hvern ég muni skipa formann þjóðminjaráðs. Það liggur að sjálfsögðu ekki fyrir nein ákvörðun um það af minni hendi, en ég mun alveg áreiðanlega vanda það val.
    Ég nefndi það þegar ég talaði fyrir frv. á sínum tíma að það lægi fyrir að það þyrfti að endurskoða þjóðminjalögin í heild og ég get ítrekað þá yfirlýsingu mína að það þarf að gera. Um það kom sérstök ábending frá þjóðminjaráði og ég ætla að heildarendurskoðun þjóðminjalaganna fari fram í góðu samstarfi við þjóðminjaráð alveg eins og sú endurskoðun sem nú er verið að afgreiða í þessu lagafrv. var gerð í mjög góðu samstarfi við þjóðminjaráð. Að öðru leyti hef ég ekki ákveðið neitt um hvernig að þessu máli verður staðið.