Áburðarverksmiðja ríkisins

155. fundur
Laugardaginn 07. maí 1994, kl. 16:24:03 (7656)


[16:24]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi spurningu hv. þm. þá er mér ekki kunnugt um það hvort Áburðarverksmiðja ríkisins er í Vinnuveitendasambandi Íslands. Hef ekki spurst fyrir um það.
    Ég vil að öðru leyti þakka hv. þm. fyrir mjög hógværa og prúðmannlega ræðu. Auðvitað leyndi það sér ekki hver er lífsskoðun ráðherrans fyrrv. Hann er auðvitað ríkisrekstrarsinni í þessu máli eins og í Skipaútgerð ríkisins og annars staðar þar sem hann fjallar almennt um atvinnumál og það kemur engum á óvart. Hann er í Alþb. og við vitum hvaða hugsanir og skoðanir liggja til grundvallar í sambandi við lífsskoðanir þeirra manna þegar rætt er um stjórnmál og atvinnumál og er ekkert við því að segja. Þeir eru kjörnir hingað á þing sem slíkir og auðvitað ber þeim að halda uppi þeirri stefnu og þeim skoðunum.
    Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að það sé affarasælla fyrir starfsfólk Áburðarverksmiðjunnar að henni verði breytt í hlutafélag til þess að mæta nýrri samkeppni og nýrri stöðu.
    Á nál. á þskj. 976 kemur fram að fulltrúar Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. í landbn. vilja afgreiða málið með tilteknum hætti. Það er mikill meiri hluti þingsins og ég get ekki séð hvaða sanngirni er fólgin í því að reyna að hleypa þinghaldinu upp til þess að reyna að koma í veg fyrir það að góður meiri hluti þingsins nái sínum vilja fram.