Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 11:33:48 (7695)


[11:33]
     Gísli S. Einarsson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég hef í mínum ræðum um stjórn fiskveiða gagnrýnt ýmis atriði frv. sem lagt var fram í desember sl. Það hefur verið komið til móts við sjónarmið í mínum málflutningi með þeim brtt. sem liggja fyrir, þ.e., og má öllum vera ljóst, að fyrirliggjandi tillögur eru að sjálfsögðu málamiðlun. Ég vil minna á að það hefur ýmislegt náðst fram. Hvað með að lyfta afla krókabáta upp í 22.000 tonn? Hvað með rýmkun á rækjukvótanum? Hvað með þrengingu framsals? Og síðan þær brtt. sem liggja fyrir núna á þskj. 1269? Takmörkunin um framsal aflamarks kemur þar fram.

    Vandinn sem lýtur að meðafla er stór og ég er margsinnis búinn að ræða um þann vanda og ég held og trúi því að menn séu farnir að huga að því og hvernig þeir eigi að leysa það.
    Ég viðurkenni að sjálfsögðu það sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði, að það er um áfangasigur að ræða til breytinga á því kerfi sem við búum við.