Stjórn fiskveiða

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 15:19:38 (7713)


[15:19]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því í morgun að hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., yrði viðstaddur þessa umræðu og ítreka það við upphaf ræðu minnar að hæstv. utanrrh. verði viðstaddur nú þegar ég mun beina til hans allnokkrum orðum. Meðan ég bíð eftir hæstv. utanrrh. og formanni Alþfl. vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort hann hafi íhugað það þegar hann tók þá ákvörðun að auka rækjukvótann til þess að ná samkomulagi í þingflokki Sjálfstfl. um breytingartillögur á þessu frv. hvort afleiðingar þeirrar ákvörðunar kynnu fyrst og fremst að birtast í því að sókn íslenskra skipa á úthafið til rækjuveiða mundi minnka að sama skapi. Niðurstaðan yrði þess vegna sú að þessi ákvörðun sjútvrh. fæli í sér friðunaraðgerðir á rækju sem bundin er við úthafið.
    Það er a.m.k. nokkuð sérkennilegt ef þessi ákvörðun hæstv. sjútvrh. verður ekki til þess að auka neitt rækjuaflann í sjálfu sér, heldur hefur það eingöngu í för með sér að íslensk skip munu draga úr sókn á rækjumiðum sem verið hafa á frjálsu úthafi. Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. svari þessari spurningu því að það er mjög mikilvægt að reyna að átta sig á því hvert samhengið er í þeim ákvörðunum sem ráðherra tekur varðandi hlutfallið milli þess afla sem sóttur er með hefðbundnum hætti og þess afla sem við höfum í auknum mæli verið að sækja á úthafið.
    Virðulegi forseti. Nú ítreka ég ósk mína um það að hæstv. utanrrh. komi til umræðunnar.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti hefur þegar gert ráðstafanir til þess að gera honum viðvart. Hann er í húsinu.)
    Þá mun ég, virðulegi forseti, bíða eftir því að hæstv. ráðherra komi því að það var um kl. hálfellefu í morgun sem ég setti fram þá ósk að hæstv. utanrrh. yrði viðstaddur.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. utanrrh. hefur fengið þessi skilaboð og væntanlega kemur hann fljótlega í salinn.)
    Ég er út af fyrir sig reiðubúinn til að gera hlé á ræðu minni og bíða í salnum, forseti. En ég tel fullkomlega óeðlilegt þegar ósk hefur verið sett fram fyrir mörgum klukkutímum að hæstv. ráðherra yrði viðstaddur að hann hagi ekki störfum sínum með þeim hætti að geta orðið við þeim óskum.
    Virðulegi forseti. Ég sé að hæstv. utanrrh. er kominn til umræðunnar og vil ég þá beina máli mínu sérstaklega til hans sem forustumanns annars stjórnarflokksins og þar með meginhöfundar þeirrar stefnu sem hér á að fara að lögfesta. Ég vil í upphafi rifja það upp að 1990 var lögð á það mikil áhersla af hálfu Alþfl., í tíð þáv. ríkisstjórnar, að tvímælalaust yrði það gert skýrt í lögum að sú skipan sem væri á stjórn fiskveiða væri tímabundin, að lögfest yrði að endurskoðun færi fram á stefnunni svo að tryggt væri að ekki væri verið að festa í sessi lengur en fáein ár þá skipan sem verið hefði. Mín fyrsta spurning til hæstv. ráðherra er því á þá leið: Hvar er tryggingin fyrir því í þeirri lagasetningu sem hér er verið að ganga frá að ekki sé verið að lögfesta þessa skipan til frambúðar?
    Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Hver af þeim stefnumálum í sjávarútvegsmálum sem Alþfl. lagði áherslu á við myndun þessarar ríkisstjórnar hafa náðst fram með þessari lagasetningu?
    Ég veit að ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra að þegar hann var að réttlæta ákvörðun Alþfl. að mynda þessa ríkisstjórn, þá var það eitt af örfáum atriðum sem ráðherrann taldi upp til að réttlæta þátttöku Alþfl. í þessari ríkisstjórn að líkur væru á því að Alþfl. fengi mun meira fram af sínum stefnumálum í sjávarútvegsmálum í þessari ríkisstjórn en í öðrum valkosti. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra að því hver af stefnumálum Alþfl. í sjávarútvegsmálum hafa náðst fram í þeirri lagasetningu sem hér er verið að lögfesta.
    Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig stendur á því að Alþfl. er ófáanlegur til þess hér á þingi að lögfesta breytingar á 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða sem tryggja það að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki ígildi eignarréttar. Ég vil í því sambandi minna á að Alþfl. hefur hælt sér mjög af því á undanförnum árum að hafa átt hlutdeild að því ásamt Alþb. á sínum tíma að 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða var breytt á þann veg sem við þekkjum, en ljóst er að sú breyting hefur haft takmarkað gildi. Hún hefur að vísu verið mjög mikilvæg en gildi hennar hefur verið takmarkað og þess vegna töldum við nauðsynlegt að tryggja almannaréttinn á fiskveiðistofnunum með skýrari hætti en gert er í gildandi lögum. Alþfl. greiddi atkvæði gegn því við 2. umr. málsins. Nú er það hins vegar þannig að enn er hægt að gera 1. gr. öruggari en hún er nú og ég vil þess vegna spyrja að því hvort Alþfl. sé reiðubúinn til samvinnu um það að gera eign þjóðarinnar á fiskveiðistofnunum afdráttarlausari og skýrari en gert er nú í 1. gr.
    Í fjórða lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hverjar af niðurstöðum tvíhöfða nefndarinnar ráðherrann telur að náist fram með þeirri lagasetningu sem hér er verið að ganga frá.
    Ég vil í því sambandi rifja það upp að hæstv. ráðherra gaf um það mjög skýrar yfirlýsingar á sínum tíma að niðurstöður tvíhöfða nefndarinnar væru mikill ávinningur fyrir Alþfl. Það voru birtar skýrar greinar í Alþýðublaðinu og viðtöl við ráðherrann og yfirlýsingar sem hann setti fram til þess að verja hlutdeild Alþfl. í niðurstöðum tvíhöfða nefndarinnar. Er rétt að ítreka það einnig, sem ég veit að ég þarf ekki að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra, að hann kaus að velja aðstoðarmann sinn, Þröst Ólafsson, til þess að gegna formennsku í þessari nefnd þannig að sérstakt, beint og mililiðalaust samband væri á milli ráðherrans í utanrrn. og formennskunnar í tvíhöfða nefndinni. Einnig lagði Alþfl. á það svo mikla áherslu að það skapaði krísu í ríkisstjórninni í nokkrar vikur á sínum tíma að Alþfl. ætti aðild að formennskunni í tvíhöfða nefndinni. Ekkert í þessari sögu þarf ég að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra. En í ljósi þess og í ljósi þess að í frv. til laga, þskj. 360, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er að finna þessa ítarlegu skýrslu tvíhöfða nefndarinnar, þá er satt að segja mjög fróðlegt að fara yfir þær tillögur sem hún gerir og horfa síðan á frv. eins og það blasir við eftir 2. umræðu og ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar að lögfesta hér á Alþingi.
    Ég vil fara yfir þessa tillöguliði örfáum orðum.
    Lagt er til að efla rannsóknir á lífríkinu í hafinu sérstaklega. Það hefur nú ekki farið mikið fyrir því, hæstv. ráðherra. Þvert á móti hafa verið felldar við fjárlagaafgreiðslu tillögur um litlar upphæðir til þess að auka þessar rannsóknir sérstaklega.
    Í öðru lagi er lagt til að aflamark verði sett á keilu, löngu, lúðu, steinbít og blálöngu. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra upplýsti hvað þeirri tillögu líður.
    Í þriðja lagi er lagt til að heimilt verði að framselja aflahlutdeild báts yfir á vinnslustöð enda hafi vinnslustöðin gilt útflutningsleyfi. Ekki skal skrá meiri kvóta á fiskvinnsluhús en sem svarar eðlilegri vinnslugetu þess. Það þarf auðvitað ekki að tíunda það fyrir hæstv. ráðherra að horfið hefur verið algjörlega frá þessari tillögu þrátt fyrir það að hún njóti stuðnings ýmissa í þingsalnum.
    Síðan er í fjórða lagi tillaga um smábátaveiðar, mjög ítarleg, sem ég ætla ekki að tefja tímann með að lesa. En það er auðvitað öllum ljóst í þessum sal að þessar tillögu er hvergi að finna í þeim lagatexta sem hér á að fara að lögfesta.
    Í fimmta lagi er tillaga um það að leggja af tvöföldun kvóta vegna línuveiða í mánuðunum nóvember til febrúar. Það er ekki heldur ætlunin að lögfesta þá tillögu í þeim lagatexta sem hér á að afgreiða.
    Í sjötta lagi er lagt til að ekki sé mismunað sjóvinnslu og landvinnslu í löggjöfinni. Það er auðvitað alveg ljóst að það er ekkert í lagatextanum sem felur það í sér.
    Í sjöunda lagi er að óheimilt verði að fyrna kaupverð varanlegra aflahlutdeilda sem eigendaskipti verða að frá og með upphafi fiskveiðiársins sem hefst 1. sept. 1996 og það er líka alveg ljóst að það er ekkert í lagatextanum um það.
    Í áttunda lagi er lagt til að rýmkaðar verði heimildir erlendra aðila til fjárfestinga í íslenskum sjávarútvegi, einkum varðandi óbeina eignaraðild. Það er mál sem við þekkjum öll hvernig er á vegi statt.
    Ég hef nefnt hér meginhluta þeirra tillöguefna sem tvíhöfða nefndin gerir að sínum. Þegar litið er yfir þessar tillögur og þann texta sem hér á að lögfesta þá er það alveg ljóst, hæstv. utanrrh., að öll þessi mikla tilraun með tvíhöfða nefndina hefur mistekist. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. utanrrh., formann Alþfl., hver sé niðurstaða hans eftir þetta rúmlega tveggja ára stríð um tvíhöfða nefndina. Fyrst stríðið um formennskuna í nefndinni, síðan stríðið um tillögur nefndarinnar og að lokum stríðið um örlög þessara tillagna sem nú er greinilega að mestu leyti tapað.
    Ef tvíhöfða nefndin --- nú vil ég biðja hæstv. ráðherra að fylgjast með þessum spurningum því þótt

hann kunni að vilja þiggja aðstoð frá formanni Sjálfstfl. í tvíhöfða nefndinni sem tók það verk að sér þegar hinn formaður Sjálfstfl. í tvíhöfða nefndinni gafst upp þá er ég fyrst og fremst að ræða hér við formann Alþfl. en það sýnir kannski best hvernig hann er orðinn staddur í þessu máli að hann getur ekki tekið við þessum spurningum nema fá ítarlega aðstoð og fyrirmæli frá formanni Sjálfstfl. í tvíhöfða nefndinni um það hverju hann eigi að svara. Hefur nú ráðgjöf hv. þm. Vilhjálms Egilssonar lokið að sinni til hæstv. utanrrh.?
    Hver er þá árangurinn af stríði Alþfl. í sjávarútvegsmálum á öllu þessu kjörtímabili, hæstv. utanrrh.? ( Gripið fram í: Er ekki rétt að Vilhjálmur svari?) Það er nú óþarfi að láta hv. þm. Vilhjálm Egilsson svara fyrir Alþfl. en það er hins vegar athyglisvert að hann treystir ekki ráðherranum til að svara einum spurningunum og er hlaupandi til hans mælandi í eyra hans hvað hann eigi að segja og munu þingskjölin geyma það eilíflega, frásögn af því hvernig hv. þm. Vilhjálmur Egilsson þurfti að aðstoða formann Alþfl. á þessari lokaafgreiðslu laganna um stjórn fiskveiða sem hefur verið, hæstv. utanrrh., næst á eftir Evrópumálunum, helsti textinn í öllum ræðum ráðherrans. Ég þarf nú ekki að rifja upp frægar ræður á Akureyri og annars staðar, LÍÚ fundum og við önnur tækifæri, þar sem ráðherrann hefur tekið stórt og mikið upp í sig varðandi þessi mál.
    Spurning mín er síðan sú: Hvað ætlar Alþfl. að gera nú? Nú er Alþfl. að berja hér í gegn varanlega lögfestingu á þessari skipan um stjórn fiskveiða. Mér sýnist niðurstaðan verða sú að nánast ekkert af því sem forusta Alþfl. hefur sett á oddinn sem baráttumál í þessum málaflokki hafi náðst fram. Munurinn á þessari niðurstöðu, hæstv. utanrrh., og þeirri niðurstöðu sem við náðum fram 1990 er sá að í þeirri niðurstöðu fékkst viðurkenning á því að stjórn fiskveiða væri ekki varanleg í því formi sem hún var þá og á að lögfesta nú. Nú aftur á móti er Alþfl. að gangast inn á það að þessi skipan sé varanleg. Þannig að niðurstaðan úr ríkisstjórnarþátttöku Alþfl. í þessu máli er að hann beygi sig undir það að það kerfi sem hann hefur gagnrýnt manna harðast og lengst allra um stjórn fiskveiða er fest í sessi. Að því leyti er auðvitað hægt að óska hæstv. sjútvrh. til hamingju með það að hafa unnið hæstv. utanrrh. svona rækilega í þessu stríði, alveg eins og hann hefur unnið ráðherrann í þyrlustríðinu. En það eru dálítið sérkennileg örlög fyrir jafnvígfiman baráttukappa eins og hæstv. utanrrh. að tapa ávallt þessum stríðum.
    Nú getur það vel verið að hæstv. utanrrh. kjósi, eins og hæstv. viðskrh., að segja bara ekki neitt í þessari umræðu og þá er auðvitað að taka því og draga sínar ályktanir af því. En mér fyndist lítið leggjast fyrir mikinn kappa í baráttunni um sjávarútvegsmál á Íslandi á síðustu 10 árum að láta þessari umræðu ljúka á Alþingi án þess að ráðherrann hafi talað. Ég minnist þess ekki að ráðherrann hafi talað við 2. umr., það má þó vel vera að hann hafi gert það. En ég minnist þess ekki. Ég minnist þess ekki að hæstv. utanrrh. hafi nokkuð tjáð sig um þessa slátrun á tillögum tvíhöfða nefndarinnar. Ég minnist þess ekki að hæstv. utanrrh. hafi tjáð sig um þær tillögur sem kokkaðar voru í þingflokki Sjálfstfl. og eru að verða burðarásinn í þeirri afgreiðslu sem hér á að fara fram. Ég hef þess vegna kosið að rifja þetta hér upp til þess að hafa það alveg hreint að hæstv. utanrrh., formanni Alþfl., var gefið tækifæri til þess, a.m.k. á síðustu klukkustundunum áður en lokaatkvæðagreiðslan fer fram um lögin um stjórn fiskveiða, lög sem hafa engin tímabundin ákvæði í sér og munu þess vegna gilda um aldur og ævi, hæstv. utanrrh., um aldur og ævi, nema það myndist hér eitthvert stjórnmálaafl til að taka þau upp og sá er munurinn á lagasetningunni 1990 að nú er Alþfl. að skrifa upp á þennan víxil til lífstíðar. Ég hef þess vegna kosið að rifja þetta upp fyrir ráðherranum, gera þetta alveg skýrt og gefa honum og Alþfl. kost á því að gera þinginu og þjóðinni á þessu lokastigi grein fyrir svörum við þeim spurningum sem ég hef borið fram.