Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 15:51:57 (7716)


[15:51]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er flutt í samræmi við tillögur þeirrar nefndar sem hv. 1. þm. Austurl. vitnaði hér til. Þar er m.a. vikið að því að nauðsynlegt sé að huga að þessu verkefni sem er sveiflujöfnun innan sjávarútvegsins og ég hafði hugsað mér að það yrði gert. Á hinn bóginn er alveg ljóst að ég held að það sé rétt mat sem nefndin kemst að niðurstöðu um að um þá framkvæmd sjóðsins sem núgildandi lög mæla fyrir um er ekki sátt. Ég held að við þurfum ekki að eyða mörgum orðum um það, það höfum við rætt áður, en ég hafði hugsað mér að í ljósi þess að sjóðurinn verður með þessum lögum, ef sú brtt. verður samþykkt sem ég hef hér flutt, óvirkur á næstu árum, að sá tími yrði notaður til að huga frekar að því með hvaða hætti mætti ná samstöðu um sveiflujöfnun innan greinarinnar.