Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 16:58:19 (7724)


[16:58]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér hefur verið hreyft er auðvitað úrslitamál varðandi framtíðarrekstur Áburðarverksmiðjunnar hf. sem menn eru hér að tala um að stofna vegna þess að hagstætt orkuverð hefur verið undirstaðan undir rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins.
    Ég tel að þau svör sem liggja fyrir frá hæstv. iðnrh. séu mikilvæg að því er þetta mál varðar en ég vil þá bæta við einni spurningu og hún er þessi: Hvað mun hann sem yfirmaður Landsvirkjunar gera sem er hin hliðin á málinu? Landsvirkjun er í eigu ríkisins, ríkið ræður verðlagningu frá Landsvirkjun í grófum dráttum, þ.e. ráðuneytið og stjórn Landsvirkjunar eins og hún er á hverjum tíma. Ætlar hæstv. ráðherra að sætta sig við að raforkuverð til iðnfyrirtækja sé mismunandi frá Landsvirkjun? Gerir hann ráð fyrir því að iðnaðarfyrirtæki í landinu muni sætta sig við það að þau búi við mjög mismunandi raforkuverð eftir því hvað þau eru að framleiða? Ég er alveg sannfærður um það þó að hæstv. orkuráðherra sé ánægður með þetta fyrirkomulag sem ráðherrann lýsti hér áðan þá getur hæstv. iðnrh. ekki verið það vegna þess að ég er viss um að iðnfyrirtækin í landinu munu ekki þola það að þeim verði mismunað með þeim hætti sem hæstv. ráðherra var að lýsa hér áðan.