Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 18:10:26 (7748)


[18:10]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg rétt sem hv. 9. þm. Reykv. hefur sagt að Áburðarverksmiðja ríkisins er firnasterkt fyrirtæki. Það sjáum við bara m.a. á því að skoða ársreikninga þess. Ég hef því miður ekki undir höndum nema ársreikning fyrir árið 1992 þar sem kemur m.a. fram að veltufjármunir fyrirtækisins eru upp á 826 millj. kr. en heildarskuldir eru í árslok 1992 215 millj. þannig að þarna munar um 600 millj. kr. sem eign fyrirtækisins er umfram skuldir í veltufjármunum og þá erum við ekki farin að skoða eignir fyrirtækisins í fastafjármunum að neinu leyti. Það er út af fyrir sig alveg ljóst að þetta fyrirtæki er mjög sterkt og engin ástæða til að gera lítið úr því. En það sem þetta mál snýst um núna er að það eru að koma yfir fyrirtækið nýjar aðstæður sem blasa við strax í ársbyrjun 1995 og það er niðurstaða þeirra sem mest hafa skoðað þessi mál, svo sem eins og stjórnenda fyrirtækisins, að til þess að fyrirtækið geti mætt þessum nýjum aðstæðum þá sé skynsamlegast að gera það með því að breyta rekstrarforminu úr því að þetta sé hefðbundið ríkisfyrirtæki í það að þetta verði hlutafélag. Það er niðurstaða þeirra manna sem gleggst hafa skoðað þetta mál.
    Varðandi það sem menn hafa verið að gera að sérstöku umtalsefni, að það geti vofað yfir stórkostleg orkuverðshækkun ef þessi breyting á rekstrarforminu eigi sér stað, þá held ég að það sé afar langsótt. Enda vek ég athygli á því að hvorki í minnihlutaáliti hv. landbn. á þessu þingi né í minnihlutaálitinu í fyrra var einu orði minnst á þetta. Talsmenn Alþb. í landbn. Alþingis töldu enga ástæðu til að vekja athygli á þessu máli í sínu minnihlutaáliti, einfaldlega vegna þess að það er svo fjarlægt að ímynda sér að það geti verið hagsmunir Landsvirkjunar að stórhækka orkuverð til eins kaupanda með þessum hætti og tefla þannig í tvísýnu orkukaupasamningum við góðan kaupanda.