Áburðarverksmiðja ríkisins

156. fundur
Mánudaginn 09. maí 1994, kl. 18:17:48 (7752)


[18:17]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér finnst umræðan um þetta fyrirtæki hafa farið nokkuð á dreif. Hæstv. iðnrh. talaði um ábyrgðarvæðingu sem hann kallaði svo. Mér finnst það kaldar kveðjur til núverandi stjórnenda Áburðarverksmiðjunnar ef þeir eru ábyrgðarlausir menn. Nú vill svo til að formaður stjórnar, ef ég man rétt, er hv. formaður landbn. Egill Jónsson. Er verið að saka hann um ábyrgðarleysi? Er verið að kasta að honum steini fyrir ábyrgðarleysi í stjórn verksmiðjunnar?
    Það vill svo til að ég hef svolitlar taugar til þessa fyrirtækis. Ég hef fyrir það fyrsta verið viðskiptamaður fyrirtækisins allan þann tíma sem ég hef rekið búskap og átt við það góð viðskipti. Mér hefur stundum þótt áburðurinn dýr en ég hef orðið að kaupa hann og mikið af þeim afrakstri sem orðið hefur af búi mínu hefur farið til þess að borga þennan áburð.
    Það vill líka svo til að fyrsta mál sem ég flutti á Alþingi þegar ég tók hér sæti 1974 var einmitt þáltill. um stækkun Áburðarverksmiðjunnar. Jómfrúrræða mín fjallaði einmitt um hugsanlega stækkun Áburðarverksmiðjunnar. Ég var síðar formaður í nefnd sem sett var á stofn í framhaldi af þessum tillöguflutningi mínum. Sú nefnd gerði athugun á hagkvæmni þess að stækka Áburðarverksmiðjuna og hún var svo stækkuð í kjölfarið á þeirri vinnu.
    Nú er búið að ræða hér mikið um það að Áburðarverksmiðjan búi við vægt raforkuverð og ég hef enga trú á því að það breytist. Ég held að það hafi engin áhrif á raforkusölusamninginn þó að þetta verði gert að hlutafélagi og aðrir eigendur eignist fyrirtækið vegna þess að Landsvirkjun er í þeirri óþægilegu stöðu að hún verður að hafa raforku á útsölu vegna þess að Alþingi ákvað, mig minnir 1982, að virkja Blöndu. Það var gjörsamlega þarflaus ákvörðun og reyndar stórskaðleg. Þessi virkjun hefur verið Landsvirkjun þung í skauti. Það er að vísu risið mannvirki fyrir norðan og þar er hægt að framleiða rafmagn og reyndar framleitt dálítið rafmagn þegar verið er að taka upp vélar í Búrfelli eða annars staðar og búið að loka Kröfluvirkjun. En raforkumarkaðurinn þurfti ekkert á þessu fyrirtæki að halda og það var af öðrum ástæðum sem sú samþykkt var knúin í gegnum Alþingi að virkja Blöndu. Um það flutti ég töluvert mál á sínum tíma og var ekki sammála öllu því sem stjórnvöld aðhöfðust þar. Það vill nú svo til að flest af því sem ég sagði þá hefur ræst. Því miður, verð ég að segja.
    Við sökktum á einum mánuði 42 ferkílómetrum af grónu landi undir lón þessarar virkjunar. Það er stærsta inngrip Íslendinga til gróðureyðingar allt frá landnámstíð. Út af fyrir sig er ekki hægt að bæta það. Það er að vísu hægt að henda áburði og fræi en þetta var gróður sem guð hafði skapað og gefið okkur og kostaði okkur ekki neitt.
    Kostnaðurinn af Blönduvirkjun er þvílíkur að í ársreikningi Landsvirkjunar fyrir árið 1993 þar sem hallinn var 3.250 millj. er meira en helmingurinn af þessum halla rakinn til Blönduvirkjunar og það beinlínis viðurkennt skýrum stöfum að það sé vegna reksturs Blönduvirkjunar án þess að neinar viðbótartekjur komi á móti. Hinn beini halli var í kringum 1.400 millj. á sl. ári af því fyrirtæki. Síðan var gengisbreyting sem skýrir hinn hlutann í þessum mikla halla sem varð á Landsvirkjun. Það var gengisbreyting á árinu og lánin hækkuðu. Ef tekin eru saman þau lán sem voru tekin vegna Blönduvirkjunar og hallinn af fyrirtækinu þá voru það 1.771 millj.
    Landsvirkjun er ekki í stakk búin til þess að prísa rafmagn hátt og hefur raunar rafmagn á útsölu um þessar mundir. Við reynum að laða sem allra flesta til að nota sem allra mest rafmagn og það hefur verið unnið töluvert í því á síðustu mánuðum að auka raforkunotkunina í landinu og reyna að freista manna til að auka raforkunotkunina með því að lækka verðið.
    Áburðarverksmiðjan býr við mjög hagstæðan orkusölusamning. Þar er borguð eitthvað í kringum 10 mills fyrir rafmagnið. Það er rétt úr því að menn eru búnir að orðlengja svo mikið um raforkusölu til Áburðarverksmiðjunnar að rifja söguna upp. Þegar Áburðarverksmiðjan var stofnuð þurfti hún að kaupa rafmagn og orkusölusamningur var í gildi. Síðan er álver reist í Straumsvík og gerður við það sérstakur orkusölusamningur. Þessi orkusölusamningur var afskaplega hagstæður álverinu og mönnum þótti ósanngjarnt að láta Áburðarverksmiðjuna, sem var þó það fyrirtæki sem var hliðstæðast álverinu, borga miklu hærra verð. Það var ákveðið að lækka verðið til Áburðarverksmiðjunnar niður í það sem álverið borgaði, þ.e. Áburðarverksmiðjan gekk inn í álverssamninginn. Fljótlega kom þó í ljós að þetta var ekki hagkvæmt vegna þess að álverðið gekk upp og niður og orkuverðið sömuleiðis. Orkuverðið til álversins var bundið álverði. Það var gerður nýr samningur við Áburðarverksmiðjuna og núna borgar hún eitthvað í kringum 10 mill. Álverið 10,5 mill. Lægst orkuverð borgar Járnblendifélagið, eitthvað í kringum 7 mill.
    Það má geta þess að í framleiðslukostnaðarverð á raforku úr nýjum virkjunum er eitthvað í kringum 20 mills. Þannig að út af fyrir sig er þetta gjafverð sem Áburðarverksmiðjan býr við. Og ég held að það séu engin rök til þess að orkusölusamningnum verði breytt að neinu leyti í kjölfar þess að fyrirtækið verði gert að hlutafélagi og komist í aðrar hendur.
    En framtíð áburðarframleiðslu á Íslandi er hins vegar mjög ótrygg eins og hefur glögglega komið hér fram og tekið er sérstaklega fram í stjfrv. sjálfu og hefur óspart verið vitnað til í umræðunum.
    EES-samningurinn gerir það reyndar að verkum að það kann að vera að samkeppnisstofnun EFTA, þ.e. ESA, telji þetta lága raforkuverð óeðlilega viðskiptahætti vegna þess að Landsvirkjun telst opinbert fyrirtæki eða a.m.k. hálfopinbert. Eins og menn vita þá er Landsvirkjun að hálfu í eigu ríkisins og hinn helminginn eiga Reykjavíkurborg og Akureyrarbær.
    Raforkusamningurinn við Járnblendifélagið hefur hlotið gagnrýni úti í Brussel. Að þarna væri verið að raska samkeppnisstöðunni með því að opinbert fyrirtæki skaffaði rafmagn á of lágu verði. Þetta er ein af hættunum í EES-samningnum. Nú er ég ekki að segja að þetta fari svo en ég vek athygli á að þetta geti gerst.
    En það er annað sem leiðir af EES-samningnum alveg augljóslega. Einkaréttur Áburðarverksmiðjunnar til þess að framleiða og selja áburð á Íslandi fellur niður um næstu áramót og því getum við ekki breytt. Þar af leiðir getum við ekki varist innflutningi af útlendum áburði. Hér hefur verið kastað fram þeirri tölu að innfluttur áburður væri 10% lægri heldur en sá sem er framleiddur hér. Skynsamir bændur sem hafa skoðað þetta mál hafa sagt mér að það muni vera nær 20% sem innflutti áburðurinn verði lægri. Þar af liggur það ljóst fyrir að Áburðarverksmiðjan sem slík kemur ekki til með að starfa með óbreyttum hætti. Langlíklegasta niðurstaðan er sú að þar verði rekin áfram, a.m.k. um eitthvert skeið, pökkunarstöð og blöndunarstöð fyrir áburð en rafgreiningu til vetnisframleiðslu verði hætt vegna þess að það er hægt að komast yfir hráefni með ódýrari hætti.
    Það er rétt að hafa það líka með í minni í þessari umræðu að þetta háa áburðarverð er náttúrlega hluti af verði landbúnaðarvara vegna þess að við íslenskir bændur búum við hærra áburðarverð en bændur í ýmsum öðrum löndum. Þá þegar af þeirri ástæðu verða landbúnaðarvörur hér dýrar.
    Það er rétt að minna á það að forráðamönnum Áburðarverksmiðjunnar er það ljóst að framtíð hennar er óörugg og þeir vildu ekki framlengja orkusölusamninginn lengur en til næstu áramóta. Orkusölusamningur fyrirtækisins við Landsvirkjun rennur út um áramótin 1994/1995. Ég vil hins vegar láta það koma fram að ef fyrirtækið treystir sér til að halda áfram þá mun ég mæla með því í stjórn Landsvirkjunar eins og ástandið er að samningurinn verði framlengdur. Hann hefur reyndar verið framlengdur einu sinni eða tvisvar til eins árs í senn því hæstv. utanrrh. var búinn að telja mönnum trú um að Evrópskt efnahagssvæði tæki gildi fyrr en raun varð á.
    Hvers vegna er verið að einkavæða þetta fyrirtæki? Það liggja til þess nokkrar ástæður. Hæstv. landbrh. kemur til með að ráða stjórninni og þá getur hann fundið sér fimm jafnoka hv. þm. Egils á Seljavöllum og sett í stjórn fyrirtækisins og bara plokkað þá sjálfur út og þarf ekkert að bera þá undir Alþingi. Þeir geta verið allir miklir sjálfstæðismenn og það er ekkert sem hindrar ráðherrana í því að ráða þessari stjórn. Nú veit ég að hv. 3. þm. Austurl. er afburða maður að vissu leyti en ég er ekkert vonlaus um að það finnist kannski fjórir sjálfstæðismenn til viðbótar sem séu jafnokar hans að vitsmunum og dug. Ég er ekkert vonlaus um það. Ég er ekki að gefa mér það en ég geri ráð fyrir því. Ég a.m.k. þori ekki að sverja fyrir að svo geti ekki farið. ( JGS: Ef Vilhjálmur étur eins og þorskurinn áfram þá . . .  ) Það kann að vera að hann yrði tækur í þennan selskap einhvern tímann seinna þegar fram líða stundir ef nóg er að borða.
    Það hefur verið vitnað í það álit búnaðarþings að þingið hafi ekki haft á móti því að fyrirtækið væri gert að hlutafélagi. Ég ætla að leyfa mér að lesa úr umsögn búnaðarþings frá 9. mars 1994. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Verði Áburðarverksmiðju ríkisins breytt í hlutafélag eins og frv. gerir ráð fyrir leggur búnaðarþing áherslu á að inn í lögin komi skýr ákvæði um að Alþingi kjósi félaginu stjórn. Komi til álita að ríkið selji hlutabréf sín er það krafa búnaðarþings að Alþingi kjósi félaginu stjórn.``
    Mér finnst þeir vera bjartsýnir með seinni kröfuna en sú fyrri er auðvitað sjálfsögð en við henni hefur ekki verið orðið. Ég finn það ekki í breytingartillögum sem hv. landbn. flytur um málið þannig að landbrh. kemur til með að skipa stjórnina eða ráða stjórninni. Hér segir reyndar að hún verði kjörin á aðalfundi og hverjir mæta á aðalfundinn? Handhafar hlutabréfanna sem í fyrstu verða hæstv. landbrh. eða einhver sem hann hefur til vika fyrir sig.
    Eru líklegt að ríkið losni við þessi hlutabréf? Er líklegt að einhver vilji kaupa hlutabréf í verksmiðju sem líklega hættir núverandi framleiðslu? Við skulum athuga það ofurlítið nánar. Það er hægt að breyta framleiðslu í verksmiðjunni. Þó hætt verði við framleiðslu á köfnunarefnisáburði getur hún verið blöndunar- og pökkunarstöð áfram. Það er hægt að breyta verksmiðjunni án þess að þurfa að gera það í grundvallaratriðum. Þarna er meira að segja hægt að framleiða sprengiefni ef menn hafa lyst á. ( JGS: Er gert í dag.) Og er gert. Það er hægt að auka sprengiefnaframleiðsluna og allt getur þetta stuðlað að framhaldslífi. En þessi verksmiðja á miklar eignir og er mikil eign í sjálfu sér jafnvel þó hún verði ekki í sömu framleiðslu og hún hefur verið. Þá eru það fyrst og fremst mannvirkin og þó langfrekast aðstaðan í Gufunesi sem er dýrmæt í sjálfu sér. Ekki sem byggingarlóðir endilega fyrir íbúðarhús. Þarna er nú dýrmætasta hafnaraðstaða á öllu Reykjavíkursvæðinu sem ekki er komin í hendur Eimskipafélagsins eða Eimskipafélagið hefur ekki náð tangarhaldi á eða er að ná tangarhaldi á. Ef rísa ætti frísvæði eða fríhöfn í Reykjavík þá yrði henni valinn staður í Gufunesi. Það kynni nú að vera að einhverja kitlaði að ná tangarhaldi á þessu svæði.
    Við höfum fyrir augum okkar einkavinavæðingu SR-mjöls og allt það óhreina mjöl sem þar var í pokahorninu og við ræddum fyrir fáeinum dögum síðan. Ég leyfi mér að búast við því að hæstv. landbrh. --- og nú bið ég hæstv. landbrh. að gjöra svo vel og taka eftir ef hann hættir að tala við hv. formann landbn. sem er sjálfsagt að sannfæra hann um að það sé ekki hægt að finna fjóra jafnoka sína í Sjálfstfl. á Íslandi. Þegar hæstv. landbrh. er búinn að tala þá ætla ég að halda áfram ræðu minni. (Forseti hringir.) Ég óska, frú forseti, eftir því að landbrh. komi í salinn.
    Ég þakka, hæstv. landbrh. Ég á von á því að hæstv. landbrh. velji sér þóknanlega viðskiptamenn þegar þetta fyrirtæki er orðið að hlutafélagi og afhendi þeim hlutabréfin fyrir eitthvert skoplega lágt verð eins og gerðist í SR-mjöli. E.t.v. hafa þeir vit á að borga ekki hlutabréfin strax með arðgreiðslum frá fyrirtækinu en þeir gætu tekið peninga út úr því og það þarf ekki að vera neitt óþægilegt að kaupa þetta fyrirtæki eftir þeim fordæmum sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefið. Hérna væri nefnilega hægt að hafa virkilega einkavinavæðingu. Nú er það alkunna að hæstv. landbrh. er besti vinur Eimskipafélags Íslands í þessari stofnun. Hann er sporléttasti sendiherra þeirra í ríkisstjórninni. Ég á von á því að hæstv. landbrh. selji Eimskipafélaginu eða einhverjum anga þess þessi hlutabréf síðla árs eða í byrjun þess næsta og við mjög vægu verði þar sem þetta væri ónýtt fyrirtæki.
    Frú forseti, ég læt ræðu minni lokið.