Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 12:07:11 (7799)


[12:07]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef undanfarna daga verið að velta fyrir mér Reykjavíkurbréfinu sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og þeim furðulegu skoðunum sem þar koma fram og þessari undrun Sjálfstfl. á þeirri stöðu sem hann er lentur í í borginni. En ræða hv. þm. áðan sýnir það að sjálfstæðismenn lifa í einhverjum blekkingarheimi. Að halda það að þessar ráðstafanir sem hefur verið gripið til, þ.e. lág verðbólga og það að heldur hefur tekist að lækka vexti, séu einhverjar björgunaraðgerðir fyrir fjölskyldur sem lifa á barmi gjaldþrots er mikill misskilningur og mikil blekking.
    Varðandi það sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. að ýmist væru menn að krefjast þess að námslánin væru hærri en kvörtuðu svo yfir því að greiðslubyrðin væri of há og hann nefndi önnur lán líka til sögunnar, þá vil ég ítreka það sem hér kom fram áðan að það verður að sýna ábyrgð, bæði þeir sem taka lán og þeir sem veita lán. Það er mjög mikilvægt. Við verðum líka að huga að því neyslumynstri sem blasir við í okkar þjóðfélagi og jafnframt því að við búum enn þá að nokkru leyti við verðbólguhugsunarhátt þannig að fólk reisir sér hurðarás um öxl. Þetta á allt rætur að rekja til fortíðarinnar eins og ýmislegt fleira sem kemur fram í þessari skýrslu.