Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 14:42:35 (7815)


[14:42]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ekki veit ég hvaða aðferðir tíðkast í málflutningi yfirleitt á milli manna á þingmálafundum í Norðurl. e. En ef hv. þm. er látinn komast upp með málflutning af þessu tagi á þingmálafundum heima hjá sér þá finnst mér það ekki meðmæli með samþingmönnum hans úr öðrum flokkum, sem þó eru hér eigi allfjarri sumir hverjir.

    Ég verð að segja alveg eins og er að hér var um að ræða málflutning sem var af mjög kostulegu tagi og ég ætla að staldra við tvennt.
    Veruleikinn er auðvitað sá að í tíð núv. ríkisstjórnar hafa skattar á einstaklinga hækkað mjög mikið og það er alveg nauðsynlegt fyrir þingmanninn að kynna sér þetta. Skattar á einstaklinga hafa hækkað um 5.000--6.000 millj. kr, í fyrsta lagi vegna flutnings aðstöðugjaldsins. Síðan koma til aðrar breytingar, m.a. lækkun barnabóta, lækkun vaxtabóta og hækkun alls konar þjónustugjalda almannatryggingakerfisins. Og þegar þetta er allt talið saman þá hygg ég að menn séu eigi langt frá tölunni 10.000 millj. kr. eða svo sem hefur hækkað um á einstaklingum á vegum flokksins sem ætlaði ekki að hækka heldur að lækka og ætlaði að hækka skattfrelsismörkin í hvað? Í 80.000 kr. á mánuði. Hver eru þau? Þau eru 57.000 kr.
    Í öðru lagi er alveg nauðsynlegt fyrir hv. þm. að kynna sér það að verðbólgan minnkaði á heilsársgrundvelli í tíð síðustu ríkisstjórnar úr 21% á árinu 1989 í 6,8% á árinu 1991, svo ég taki heilt ár til samanburðar. Auðvitað var það þannig að ríkisstjórnin naut þar stuðnings verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda rétt eins og núv. ríkisstjórn gerir. Þannig að menn eiga ekki að leyfa sér þennan barnaskap sem fram kom í máli hv. þm. og ég skora á hann að æfa sig betur á að fara yfir þessar tölur a.m.k. áður en hann leggur upp í nýja fundarispu í Norðurl. e.