Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 16:20:59 (7852)


[16:20]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Útlán í húsnæðislánakerfinu í heild sinni voru um síðustu áramót tæplega 200 milljarðar kr. Af því fer um 1 / 4 í húsbréfakerfið. Á 40 mánuðum hafa menn lánað sem nemur 1 / 4 af öllum lánveitingum í húsnæðismál eins og staðan var á þeim um síðustu áramót. Það er auðvitað geysilegur fjáraustur í einn málaflokk og í raun og veru langt umfram það sem eðlilegt er af því að þjóðin á ekki nema tiltekið magn af peningum. Hún verður að verja þeim peningum í fleiri mál en bara það að lána til að kaupa eða byggja hús. Hæstv. félmrh. veit það jafn vel og ég að þó nokkur hluti af þeim peningum sem varið er í húsbréfakerfið fer í hendurnar á fólki sem er að selja íbúðir sem það á skuldlítið eða skuldlaust. Ég vil segja að það fólk getur alveg eins og aðrir lánað kaupandanum hluta af þessu verði í stað þess að fá það allt greitt í gegnum húsbréfakerfið. Mér finnst það ekki vera hlutverk húsbréfakerfisins með ríkisábyrgð að borga skuldlausum eða skuldlitlum seljendum eignarhlut sinn að fullu í íbúð við sölu. Mér finnst það ekki vera verkefni ríkisins, því miður. Við verðum bara að vera ósammála, ég og hæstv. félmrh., um hver hlutur ríkissjóðs á að vera í fjármögnun á almennu húsnæðislánakerfi. En ég legg áherslu á það að það sem hefur valdið þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag er fyrst og fremst það að menn hafa vanrækt að beina fjármagninu í atvinnulífið en tekið peningana í of ríkum mæli í húsbréfakerfið.