Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 16:23:34 (7854)


[16:23]
     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Þessi síðustu orð hæstv. félmrh. gæfu alveg tilefni til nýrrar umræðu sem yrði ekki styttri en þessi sem fram hefur farið. Ef hæstv. félmrh. er áhugasamur um það að taka upp umræðu t.d. um þróun mála í húsbréfakerfinu og frammistöðu Alþfl. annars vegar og Alþb. hins vegar í málefnum þeirra sem hafa verið að kaupa eða byggja húsnæði á Íslandi í gegnum tíðina þá er alveg hægt að verða við því að ræða það lítillega við hæstv. félmrh. ( Félmrh.: Mín er ánægjan.) Eigum við þá t.d. ekki að byrja á því, hæstv. félmrh., að rifja það upp hver það var sem sór og sárt við lagði að það yrðu aldrei nein afföll af húsbréfum? Eigum við að rifja það upp hver hefur verið ráðherra húsnæðismála allan þann tíma sem húsbréfakerfið hefur verið starfrækt og skilur eftir þúsundir fólks sem skuldar 1--1,5 millj. meira en það fékk nokkurn tíma í hendur vegna affalla á húsbréfum sem voru um langan tíma yfir 20%.
    Ég get farið með mörg dæmi fyrir hæstv. ráðherra ef hann hefur ekki áttað sig á þessu hvernig þetta kom út. Ég þekki til að mynda bónda norður í landi sem ætlaði að byggja sér íbúðarhús á sinni jörð og honum stendur ekki til boða annað en húsbréf. Hann fór í gegnum hið fína greiðslumat og fékk það út að hann væri borgunarmaður fyrir svona rúmum 4 millj. kr. Hann tók að láni 4,2 millj. í húsbréfum. Hann fór með þetta út á markaðinn og ætlaði að gera sér þetta að peningum til að borga smiðunum o.s.frv. --- Og hvað fékk hann? Að frádregnum afföllum og kostnaði 3 millj. Hann skuldar 4,2 millj. með bréfum sem gefin eru út á bak við húsbréfin en fékk aldrei nema 3 millj. í hendurnar. Þetta var húsbréfakerfið, hæstv. forseti, þegar það var upp á sitt besta. Svo kemur hæstv. félmrh. og ætlar að kenna okkur lexíu um það hvernig eigi að ræða um þessi mál.
    Er þetta ekki sami hæstv. félmrh. og sór það og sárt við lagði lengi af sínum ferli að það kæmi aldrei til greina að krukka í vaxtabæturnar? En hvað er búið að gera? Það er búið að skerða vaxtabæturnar um hálfan milljarð. Hvað eru vaxtabætur? Þær eru m.a. hluti af greiðslumati sem íbúðakaupendur og byggjendur hafa farið í gegnum undanfarin ár. Hvað er þá að gerast, hæstv. forseti? Það er að gerast það sama í tíð þessarar ríkisstjórnar og á ábyrgð hæstv. félmrh. og gerðist á árunum eftir 1983 að stjórnvöld eru einhliða að raska þeim forsendum sem fólk hefur haft til að taka ákvarðanir um sínar fjárfestingar. Með misgenginu 1983--1984 gerðist auðvitað einhver svívirðilegasta árás á fólk í formi stjórnvaldsákvörðunar sem uppi hefur verið á síðari tímum á Íslandi vegna þess að það er komið aftan að fólki. Það er rekinn hnífur í bakið á því með því að taka launavísitöluna úr sambandi en halda lánskjaravísitölunni, þannig að skuldirnar hækkuðu um 20% á sama tíma og laun hækkuðu um innan við 10%.
    En í raun og veru er það sem hæstv. félmrh. hefur látið yfir sig ganga í gegnum skerðingu vaxtabótanna sams konar aðgerð. Hún er auðvitað miklu minni og hún er að mínu mati ekki eins svívirðileg og misgengið var 1983 og 1984 en hún er af sama toga vegna þess að stjórnvöld setja upp fínt kerfi, það eru gefin út húsbréf og það er sagt við fólk: Þú ferð í gegnum greiðslumat, góði minn, þar verður reiknað út hvað þú getur borgað mikið og svo eru vaxtabætur og svo er þetta svona og hitt hinsegin og þú ert borgunarmaður fyrir láni af einhverri tiltekinni upphæð. Menn fara í gegnum greiðslumat, menn treysta þessu, menn taka sitt lán, reikna dæmið út. Ég er með þetta í kaup og ég fæ þetta miklar vaxtabætur. En hvað gerist svo þegar menn eru búnir að taka lánið, búnir að kaupa eða búnir að byggja? Þá kemur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með hæstv. félmrh. Jóhönnu Sigurðardóttur innan borðs og kippir fótunum undan þessum útreikningum með því að skerða vaxtabæturnar. Þetta eru svik og auðvitað hefði hæstv. félmrh. þá átt að segja af sér en ekki öll þessi skipti þegar hæstv. ráðherra hefur hótað því en aldrei látið af því verða. Þarna hafði hæstv. félmrh. tilefni til að hverfa úr stólnum.
    Ég held að það sé líka ástæða til þess að ræða það öðruvísi en hæstv. félmrh. gerði hér hvort þeim peningum hefur öllum verið vel varið á fasteignamarkaðinum sem farið hafa út í húsbréfum við eigendaskipti á skuldlausu húsnæði þegar eigendur stórra skuldlausra eigna frá verðbólgutímanum hafa nánast fengið greiðslu út í hönd fyrir þetta húsnæði með húsbréfum. En áður gerðust kaupin þannig að þeir þurftu að lána í slíkum viðskiptum því staðgreiðsla þekktist auðvitað ekki hér á fyrri tímum í viðskiptum með notað húsnæði. Það var nánast reglan að sá sem var að selja þurfti að lána talsverðan hlut til einhverra ára. Með tilkomu húsbréfanna breytist þetta allt saman og það fór að tíðkast að það var nánast borgað út í hönd þó að viðskipti á stóru og skuldlausu húsnæði ættu í hlut. Ég hef miklar efasemdir um að þessi hluti lánafyrirgreiðslunnar á undanförnum árum, og þarna hafa farið út miklir peningar, tugir milljarða á fáeinum árum, 40--50 milljarðar á líklega einum þremur árum, að þeim hluta af þessari peninganotkun sem hefur farið í að gera upp við eigendur skuldlauss íbúðarhúsnæðis hafi verið vel varið. Þannig að ég er ekkert feiminn við að koma með þann málflutning hér eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Ég þori alveg að ræða það við hæstv. félmrh. hvort ekki hefði verið hugsanlegt að ráðstafa einhverjum hluta þessa fjár betur. Ég þori það. Þar með er ég ekki að gera lítið úr því né heldur að mæla með því að það hefði í heildina átt að ráðstafa minni peningum til húsnæðismála. Ég bið hæstv. félmrh. að reyna ekki að snúa þannig út úr hlutunum. Þetta er spurningin um það hvernig þessum peningum er varið og ég minni á það að lífeyrissjóðirnir voru samningsbundnir til þess að ráðstafa fé inn í húsnæðismálin. Þeir höfðu gert það lengi vel í gegnum það að lána sínum sjóðfélögum. 1986 tekst samkomulag um það fyrirkomulag að lífeyrissjóðirnir komi með samningsbundnum hætti inn í fjármögnun húsnæðiskerfisins en hætti í staðinn að lána sínum félagsmönnum. Það er í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar sem þetta er allt saman leyst upp. Ég er ekki viss um að það hafi verið rétt eða skynsamleg ráðstöfun. Ég er ekki eins mikill markaðshyggjumaður og hæstv. félmrh. að ég telji að markaðurinn eigi bara að leysa þetta allt saman. Ég er ekki viss um að það

sé mjög skynsamleg aðferð. Og að einhverjum hluta til hefði ég talið að það hefði mátt byggja áfram á samningsbundnum samskiptum lífeyrissjóðanna og húsnæðiskerfisins.
    En hitt er líka rétt að ef við ætlum að ná nýju fé inn í atvinnulífið á Íslandi þá er það fyrst og fremst einn aðili sem hefur lausa fjármuni um þessar mundir, handbæra til ráðstöfunar, það eru lífeyrissjóðirnir. Þeir eru auðvitað sá fjárfestir, eins og það heitir á fínu máli, sem einn í landinu getur munað eitthvað um.
    En ég held að ég láti þetta nægja að sinni, hæstv. forseti, um þennan þátt málsins. Þó er það eitt sem ég vil taka inn í umræðuna sem lítið hefur farið fyrir enn þá og það er vaxtastigið og vaxtaákvarðanir í tíð hæstv. ríkisstjórnar. Þeir komu hingað hv. þm., fótgönguliðarnir, Tómas Ingi Olrich og Björn Bjarnason, og voru að reyna að verja ríkisstjórnina og sögðu m.a. að hún hefði lækkað vexti. Staðreyndin er náttúrlega sú að þessi ríkisstjórn hefur fyrst og fremst hækkað vexti því að almenningur hefur sáralítils notið enn í þessari svokölluðu vaxtalækkun. Ríkissjóður hefur í sínum viðskiptum við stóra aðila pínt niður vextina, það er rétt, og náð þar nokkrum árangri. En hvar er vaxtalækkunin í bankakerfinu gagnvart almenningi? Hvar er hún? Hvar er vaxtalækkunin gagnvart fyrirtækjum í c- og d-áhættuflokki útlána hjá bönkunum? Það fer lítið fyrir henni. Hvar er vaxtalækkunin í Byggingarsjóði ríkisins, hæstv. félmrh.? Er það ekki þannig að í tíð hæstv. félmrh. hafi vextirnir hækkað í 4,9% og séu þar? Eða stendur kannski til að lækka þá? Ég hef ekki orðið var við það. Ég held því að hæstv. félmrh. og aðrir stuðningsmenn stjórnarinnar ættu að fara varlega í þessum efnum. Staðreyndin er sú að eitt af því sem hefur leitt mikla erfiðleika yfir fjölskyldurnar í landinu á síðustu missirum eru vaxtahækkanir í húsnæðiskerfinu, það er nú bara þannig, bæði í Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna hafa vextir hækkað eins og vonandi þarf ekki að minna hæstv. félmrh. á. Síðan eru útreikningar þannig á þessu blessuðu verðbótakerfi að það eltir sjálft sig. Staðreyndin er sú að það væri ástæða til að fara yfir það. Ég er með í höndunum m.a. gögn um það hvernig vaxtaútreikningurinn kemur út. Þrátt fyrir að það eigi svo að segja engin verðbólga að vera núna á milli útreikningstímabila er það nú samt þannig að menn eru að borga gífurlega vexti sem færðir eru annars vegar sem vextir en hins vegar sem vextir inni í verðbótaþættinum. Þannig að vaxtastigið er alveg gífurlega mikilvægt í þessum efnum. Þar hefur hæstv. ríkisstjórn ekki af miklu að moða, a.m.k. ekki þegar kemur að vaxtaákvörðunum gagnvart húsnæðislánunum.
    Það er auðvitað alveg ljóst að eitt af því sem veldur fólki núna erfiðleikum í stórum stíl og er alveg sammerkt með erfiðleikunum á árunum eftir 1983 er að það er búið að raska þeim forsendum sem fólk hafði til að taka sínar ákvarðanir á. Og það er að mínu mati eitt það allra ljótasta sem nokkur ríkisstjórn getur gert. Þegar sómakært og vandað fólk sem vill standa í skilum sest niður og reiknar sín dæmi, leggur saman sitt kaup, sín útgjöld, kemst að þeirri niðurstöðu að það hafi tiltekna greiðslumöguleika til íbúðarkaupa, fjárfestir svo í góðri trú og svo koma stjórnvöld aftan að því og kippa undan því fótunum. Hvort sem það er með misgengi launa og lánskjara, eins og varð 1983--1984 eða með því, eins og gerst hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar að vextir af húsnæðislánum eru hækkaðir, það eru lækkaðar vaxtabætur, það er skertar barnabætur, það er lækkaður persónufrádráttur. Á ég að halda áfram, hæstv. félmrh.? Það er hækkaður tannlæknakostnaður, það er innleidd kostnaðarþátttaka í heilbrigðiskerfinu, það eru lögð á skólagjöld. Á ég að halda áfram hæstv. félmrh.? Svona er þetta. Þarna er verið að raska forsendum fólks. Það vissu það engir sem keyptu íbúð 1990 eða 1991 að fram undan væri hækkun á vöxtum, lækkun á barnabótum, lækkun á persónufrádrætti, skólagjöld, tannlæknagjöld, lyfjaskattar og svo framvegis og svo framvegis. En þetta er allt orðið staðreynd í dag.
    Ég held að hæstv. félmrh. ætti að fara frekar þannig að í þessari umræðu að viðurkenna hvernig hlutirnir hafa gengið fyrir sig heldur en að kenna okkur alþýðubandalagsmönnum eitthvað um húsnæðismál. Ég held að við séum alveg sæmilega liðaðir í að ræða það hérna við hæstv. félmrh. alveg fram á Jónsmessu ef því er að skipta.
    Hæstv. forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið býsna góð umræða og ég er mjög glaður og feginn því að hún hefur farið hér fram. Vegna þess að í fyrsta skipti, liggur mér við að segja, um nokkurt skeið hefur aftur komist pólitík á dagskrá hér á Alþingi og það óvænt núna þegar langt er liðið á maímánuð. Og hvers vegna það? Það er vegna þess að menn eru farnir að ræða hér um hluti sem skipta máli, um lífskjör fólksins í landinu, um atvinnuleysið, um skuldaaukningu heimilanna, um hluti sem varða lifandi fólk en ekki kjaftæði af því tagi sem oft og tíðum tekur hér allt of mikinn tíma. Það væri auðvitað um þessa hluti sem við ættum að ræða einhverja sólarhringa áður en þingið fer heim af því það eru ljótir hlutir að gerast í þjóðfélaginu. Það er algjörlega borin von að hv. stjórnarliðum muni takast það hér með aulalegum ræðum af því tagi sem hafa verið fluttar af hálfu þeirra sem á annað borð hafa þorað í umræðuna úr stjórnarliðinu að drepa málinu á dreif og fara að ræða um fortíðina eða eitthvað annað eins og hér var gert. En það var málflutningur þeirra hv. þm. Björns Bjarnasonar, Tómasar Inga Olrich og fleiri. Þeir týndu sér í fortíðinni af því að þeir þorðu ekki að horfast í augu við þá alvarlegu hluti sem eru að gerast í nútímanum og blasa við fram undan.
    Er það ásættanlegt að í maímánuði skuli vera 7.500 manns á atvinnuleysisskrá? Er það ásættanlegt? Er það þolandi ástand að það lítur varla út fyrir að skólafólk fái yfir höfuð vinnu í sumar svo nokkru nemi? Það hefur aldrei verið annað eins ástand fram undan í atvinnumálum skólafólks á Íslandi eins og nú er. Það er í raun og veru verið að dæma þá íslensku hefð úr leik að fólk geti unnið yfir sumartímann og létt undir með skólagöngu sinni þannig eða haft af því eitthvert framfæri.

    Er hæstv. félmrh. hreykinn af þessu? Er þetta kannski það sem á að leggja með upp í kosningarnar?
    Hæstv. forseti. Ég endurtek að ég tel það nokkurs virði að pólitík hefur komist á dagskrá í þessari umræðu og menn eru að ræða um hluti sem virkilega skipta máli. Og þá held ég að svo langt sem það nær sé þessi skýrsla um skuldastöðu heimilanna nothæft plagg en ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni og beini því til hæstv. félmrh., að það verði ekki látið staðar numið við þennan pappír vegna þess að þetta er ekki einu sinni hálfnað verk. Það þarf að fylgja þessu eftir. Og það sem sérstaklega þarf að gera er að setja saman á einn stað samanburð á tilfærslunni sem hefur orðið í skuldum, í skattbyrði þannig að við getum skoðað það hvernig þetta hefur dreifst á heimilin, á fyrirtækin, á ríkið, á sveitarfélögin og hvernig aldurshóparnir standa að vígi. Hverjir eru fórnarlömbin í þessum breytingum hæstv. ríkisstjórnar? Ég sagði það hérna fyrr í dag og ég endurtek það: Fórnarlömbin eru lágtekjufjölskyldur með mörg börn, gjarnan foreldrarnir á aldrinum 30--35 ára. Það er markhópurinn sem þessi ríkisstjórn hefur fundið til að leggja auknar byrðar á á kjörtímabilinu. Ég óska Jafnaðarmannaflokki Íslands til hamingju með það.