Skuldastaða heimilanna

157. fundur
Þriðjudaginn 10. maí 1994, kl. 17:32:28 (7873)


[17:32]
    Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ja, ólíkt var það skárra en nú og oft fannst mér hæstv. ráðherra bara ylja sér sæmilega við katlana á þeim áratug og held ég að henni hafi liðið þar nokkuð betur heldur en henni líður nú undir þessari ríkisstjórn þegar hún er orðin ein með sjálfri sér á kvöldin og fer að gera upp hug sinn.
    En það sem veldur auðvitað áhyggjum er hvernig komið er fyrir heimilunum í landinu í dag og því vaxandi atvinnuleysi sem fram undan er. Gerir hæstv. ráðherra og ríkisstjórn sér grein fyrir því hvert unga fólkið á að leita þegar það kemur út úr skólunum í vor? Hvar er atvinna handa þessu fólki? Hvað mun þetta þýða? Þetta mun þýða það að fjöldi ungs fólks sem hefur verið og er við nám í dag mun ekki geta horfið að námi á haustdögum. Það er morgunljóst. Það er ekki bara að þetta unga fólk hafi ekki tækifæri til að afla sér þeirra tekna sem nauðsynlegar eru heldur hafa þeir sem fram að þessu hafa getað stutt það, fjölskyldurnar, einnig tapa þeim tekjum sem þeir hafa getað nýtt til þess að gera þeim námið kleift.