Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 11:09:12 (7941)


[11:09]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram núna dag eftir dag um það sem kannski mestu máli skiptir í þessu þjóðfélagi og skiptir án efa mestu máli fyrir þann almenning sem við eigum að starfa fyrir hér á Alþingi. Það er annars vegar sú umræða sem fór fram í gær um skuldastöðu heimilanna og svo aftur í dag um afleiðingu atvinnuleysis. Ég lít svo á að þetta séu mál málanna og það segir manni kannski sitthvað um störf Alþingis að það skuli ekki vera fyrr en á síðasta og næstsíðasta degi þingsins sem slík mál fá hérna almennilega umfjöllun.
    Komið hefur fram að það eru um 7--8 þús. manns án atvinnu að jafnaði. Vinnumarkaðskönnun sem Hagstofa Íslands gerði segir reyndar að það séu um níu þús. manns sem ganga atvinnulausir í landinu. Þetta atvinnuleysi er dýrt. Það kostar samfélagið í heild 10--15 milljarða kr. og það segir okkur auðvitað að það má ýmislegt gera og ýmsu til kosta til þess að reyna að vinna gegn atvinnuleysinu. Þessar tölur segja okkur þó ekki alla söguna því það er mikið dulið atvinnuleysi í landinu. ASÍ reiknar út að fullt atvinnustig ætti að vera þannig að það væru 135 þús. störf í landinu, en þau eru núna 122--123 þús. Það vill segja að skráð og dulið atvinnuleysi sé núna á bilinu 12--13 þús. einstaklingar og það segir manni að atvinnuleysið er í rauninni nær 10% heldur en 6%, eins og hér hefur verið talað um.
    ASÍ reiknar líka út að það þurfi að skapa allt að 22 þús. störf fram að aldamótum ef það eigi að halda hér fullu atvinnustigi. Í Reykjavík einni þýðir þetta að það þarf að skapa 9 þús. störf. Það eru núna 3.400 manns á atvinnuleysisskrá og það bætast við þúsund manns á ári út á vinnumarkaðinn og þessi störf

verður að skapa með einhverjum tiltækum aðferðum.
    Hér hefur verið rætt dálítið um stöðu hinna atvinnulausu og ég ætla ekki að fara út í það, tími minn leyfir það ekki. Fjmrh. minntist hér á almennar aðgerðir sem ríkisstjórnin hefði gripið til í atvinnumálum og taldi að þær hefðu skilað heilmiklum árangri. Ég er ekki sammála fjmrh. Þær hafa að vísu skilað þeim árangri að stórfyrirtækin í landinu eru farin að hagnast. Þannig var hagnaður SH á síðasta ári 600 millj. kr. og hefur aldrei verið meiri í sögu þess fyrirtækis. Fyrirtækin sem eru á hlutabréfamarkaði eru líka farin að hagnast og auðvitað er þetta góðra gjalda vert, en þetta hefur ekki skilað fleiri störfum. Og það er ekki þar með sagt að þó að þessi fyrirtæki hafi skilað hagnaði að það sama gildi um smáfyrirtækin og við megum ekki gleyma því að Ísland er einu sinni smáfyrirtækjaland öðru fremur. En til þess að ráðast gegn þessu atvinnuleysi og skapa þau störf sem ég nefndi áðan, allt að 22 þús. störf fram að aldamótum, þarf róttækar aðgerðir. Við stöndum einfaldlega andspænis því að vélin er biluð og við verðum að grípa inn í með öllum tiltækum ráðum. Markaðurinn mun ekki sjá um þessi mál eins og kredda Sjálfstfl. segir til um. Það þarf opinberar aðgerðir.
    Nýlega var haldið aðgerðarþing um nýsköpun, það var reyndar í janúar sl., á vegum Rannsóknaráðs ríkisins og Útflutningsráðs og þar var m.a. ýmislegt nefnt sem væri að í okkar málum og eins ýmsir styrkleikar sem okkar atvinnulíf byggi yfir. Veikleikarnir sem nefndir voru þarna voru, með leyfi forseta:
    ,,Léleg tengsl atvinnulífs og skóla, skortur á áhættufjármagni, lélegir markaðsmenn, skortur á frumkvæði, skortur á leiðtogum, skortur á stefnumótun, skortur á framsýni, skortur á opinberum stuðningi við atvinnulífið og skammtímahugsun of algeng.``
    Þetta var meðal þess sem þarna var nefnt og þetta á ekki síst við þegar litið er til þess sem ríkisstjórnin hefur gert vegna þess að hún hefur fyrst og fremst gripið til almennra aðgerða og látið sveitarfélögin um hinar sértæku aðgerðir. Og ef við horfum á sveitarfélögin í landinu þá hefur hlutfall þeirra af skatttekjum sem þau hafa lagt til atvinnumála verið mjög hátt víða. Í Ólafsvík, á árabilinu 1987--1991, fóru um 34% af skatttekjum þess sveitarfélags til aðgerða í þágu atvinnulífsins á staðnum, Keflavík 4,18%, Akureyri 18,4%, Reykjavík 0,43%. Þannig hafa sveitarfélögin flest hver út um allt land þurft að styðja mjög myndarlega við atvinnulífið heima fyrir, en í Reykjavík hefur það ekki verið gert af sama myndugleika.
    Kostnaður ríkisins af atvinnuleysi er mestur og auðvitað á ríkið að bera hitann og þungann af þessum málum, hitann og þungann af atvinnusköpuninni, en ekki velta því yfir á sveitarfélögin. Ég sagði áðan að markaðurinn mundi ekki leysa þessi mál. Það þarf opinberar aðgerðir og við verðum að láta af þeirri kreddu sem Sjálfstfl. hefur alið á, sem trúir á hægri frjálshyggjuna sem núna er auðvitað á undanhaldi í allri Evrópu og þarf ekki annað en vitna til sveitarstjórnarkosninganna sem voru nýverið í Bretlandi þar sem Íhaldsflokkurinn fékk þá verstu útreið sem hann hefur lengi fengið. Það duga ekki lengur hugmyndakerfi sem útskýra allt og kunna svar við hvers manns vanda og geta útskýrt hvers manns vanda á einhvern hugmyndafræðilegan réttan hátt eins og frjálshyggjan hefur gert. Slík hugmyndakerfi eru liðin undir lok í stjórnmálum. Þetta er kredda sem við verðum líka að segja skilið við hér á landi ef við ætlum að byggja upp öflugt atvinnulíf og mannlíf í landinu.