Rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis

158. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 11:22:06 (7943)


[11:22]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það sem liggur fyrir er auðvitað það að leiðsögn markaðarins sem átti að leysa allan vanda í efnahagsmálum hefur brugðist. Það er sú meginstaðreynd sem um er að ræða. Það eru 8 þúsund Íslendingar sem þurfa að sækja atvinnuleysisbætur sér til lífsframfæris, 8 þúsund Íslendingar. Það er staðreynd að það er aðferð markaðarins við að lækka verð á vinnuaflinu. Atvinnuleysi er aðferð markaðarins í því skyni. Það hefur tekist að verulegu leyti með því að skera niður yfirtíð, með því að skera niður yfirborganir og með því að skipuleggja atvinnuleysi sem hefur haft það í för með sér að fólk, hinn vinnandi maður í landinu sem á vinnuaflið, þorir ekki að sækja rétt sinn, menn þora ekki að efna til verkfallsátaka t.d. Þess vegna er það rétt hjá Ögmundi Jónassyni að þær niðurstöður sem liggja fyrir núna, eru afleiðingar af stjórnarstefnunni, skipulagðar í raun og veru þó að það sé ekki þannig að þeir sem standa að ríkisstjórninni gleðjist í hvert skipti sem þeir sjá hærri atvinnuleysistölur. Svoleiðis er málið ekki. Og afleiðingin af þeirri stefnu sem liggur fyrir er hver? Hún er fátækt, hún er niðurlæging, hún er meira atvinnuleysi, hún er meiri fátækt, hún er meiri niðurlæging og síðan stórfelldur aukinn hagnaður þeirra fyrirtækja sem enn starfa í landinu.
    Núna undanfarna daga hafa verið að birtast upplýsingar um það að hagnaður þeirra fyrirtækja sem eru á almennum hlutabréfamarkaði hefur aukist frá 1992--1993 um 150% í raunstærðum. Hér eru auðvitað um að ræða hrikalega staðreynd vegna þess að þetta sýnir tilflutning á peningum í þjóðfélaginu yfir til þeirra sem áttu peninga þannig að þeir eiga núna enn þá meiri peninga, meira en nokkru sinni fyrr meðan 8 þúsund Íslendingar þurfa að sækja sér atvinnuleysisbætur í hverri einustu viku. Þetta ástand sýnir veruleikann í hnotskurn nákvæmlega eins og hann er. Og hvað þarf að gera? Það sem þarf að gera í þessum efnum er fyrst og fremst það að grípa til pólitískra aðgerða, m.a. að ganga skipulega í þau verkefni, t.d.

í samgöngumálum, í stórauknum mæli sem bíða. T.d. hér á þéttbýlissvæðinu er um að ræða hagkvæm, skynsamleg verkefni upp á milljarða króna sem er hægt að fara í. Þannig eiga stjórnvöld auðvitað markvisst að grípa til ráðstafana til að taka atvinnuleysið niður og til þess auðvitað að flytja fjármuni frá þeim sem mikið eiga til þeirra sem lítið eiga þannig að þeir geti horft framan í hvern dag sem byrjar með stoltum og virðulegum hætti.
    Og umfram allt, hæstv. forseti, þarf auðvitað aðra ríkisstjórn. Að hlusta hér á hæstv. fjmrh. tala eins og hann sé í raun og veru ánægður með ástandið, sáttur við niðurstöðuna, hlusta á stjórnarsinna suma tala hér eins og þeir séu sáttir við niðurstöðuna. Það er algerlega fráleitt þannig að við þurfum fyrst og fremst ríkisstjórn sem er ekki sátt við atvinnuleysið, ríkisstjórn sem setur sér þann metnað að það sé til vinna í landinu. Það eru til peningar og það eru til verkefni. Atvinnuleysi þarf þess vegna ekki að vera eins mikið og raun ber vitni um þessar mundir.
    Ég spyr að lokum hæstv. félmrh.: Hvað með trillusjómennina og hvað með vörubílstjórana? Hvar er sú reglugerð á vegi stödd?