Áburðarverksmiðja ríkisins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 17:44:44 (8009)


[17:44]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er spurning hvort hæstv. landbrh. er nálægur. Ég hefði talið það skemmtilegt ef það væri . . .  
    ( Forseti (StB) : Forseti mun gera ráðstafanir til þess að hæstv. landbrh. verði viðstaddur.)
. . .  væri eins og einn ráðherra í salnum að meðaltali. Það er svona skemmtilegri svipur á því að það sé þá a.m.k. eins og svona einn tíundi af ríkisstjórninni til staðar. ( Landbrh.: Það er a.m.k. einn þingmaður í ræðustólnum.) Já, það er nú alveg nóg, hæstv. landbrh. En nógu ræfilsleg er nú ríkisstjórnin orðin samt þó að sá ráðherra sem fer með mál hverju sinni sé viðstaddur umræðu.
    Ég gerði það að umtalsefni, hæstv. forseti, í sambandi við frv. um breytingar á lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins að breyta því fyrirtæki í hlutafélag við 2. umr. að það bæri að harma það að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. landbrh. hefðu leitað eftir víðtækara samkomulagi um afgreiðslu þess máls heldur en raun ber vitni af því að nú er staðreyndin sú og sést í þingskjölum og sögunni frá undangengnum árum að í sjálfu sér hefur það ekki alltaf þurft að vera ágreiningsmál þó að rekstrarformi ríkisfyrirtækja væri breytt og um það eru allmörg dæmi úr þingsögunni frá undangengnum árum að um slíkar breytingar hefur tekist sæmilegt samkomulag. Þessi ríkisstjórn hefur að vísu ekki leitað mikið eftir því að ná samkomulagi um slíkar breytingar, hvorki við stjórnarandstöðuna á þingi né heldur starfsfólk, samtök þess eða aðra slíka aðila. Það virðist vera svo, því miður, að það sé ógæfa þessarar hæstv. ríkisstjórnar einhver þráhyggja sem stjórnin sé haldin að böðlast áfram með þessi mál sín í ágreiningi og bullandi málaferlum. En það er auðvitað meginniðurstaðan af einkavæðingarofstæki hæstv. ríkisstjórnar sem hefur líka auðvitað orðið fótakefli borgarstjórnarmeirihlutans hér í Reykjavík að þrælast áfram með ótímabæra og illa undirbúna breytingu á fyrirtækjum í nafni einkavæðingar og fá svo allt upp í loft í ágreining, í deilur, í málaferli og verða svo jafnvel að renna á rassinn með allt saman eins og meiri hlutinn í Reykavík varð að gera með strætómálið.
    Ég kynnti það við 2. umr. að ef hæstv. landbrh. eða meiri hlutinn væri reiðubúinn til að skoða vissar lagfæringar á þessu frv., þá vildi ég fyrir mitt leyti kanna það hvort ekki væri hægt að ná þá um afgreiðslu þess sæmilegri samstöðu því að út fyrir sig er mér það ekki frekar en væntanlega flestum öðrum neitt sáluhjálparatriði hvort Áburðarverksmiðja ríkisins er rekin í formi hlutafélags eða einfalds ríkisfyrirtækis. Hitt er mér nokkuð mikið mál að menn eyðileggi ekki fyrirtækið Áburðarverksmiðju ríkisins og fórni því á altari þessa einkavæðingarofstækis. Og ég þykist líka hafa fært rök fyrir því að nógu óviss sé framtíð fyrirtækisins samt í kjölfar breytinganna á EES og fleiri hluta þó ekki bætist við að stofnað sé til pólitísks ágreinings um meðferð málsins hér á þingi. En það er auðvitað hæstv. landbrh. að gera. Og ef það skyldi nú fara svo að hæstv. landbrh. ætti eftir eins og þrjá mánuði í embætti, er það þá mjög gáfulegt og gott veganesti fyrir verksmiðjuna inn í framtíðina að hæstv. ráðherra nái að nudda hérna í gegn á síðustu klukkutímum þinghaldsins breytingum á þessum lögum sem ágreiningur er um og það komi þá í hendur nýrra manna að fara að reyna að lagfæra það eða snúa ofan af því eftir fáa mánuði? Nú er það svo að það

eru svona þokkalegar líkur á því og vonir hafa vaknað víða í þjóðfélaginu um að þessum harðindum af manna völdum fari nú að linna sem er seta hæstv. ríkisstjórnar á valdastólum og víða eru bundnar við það vonir svona með vorkomunni, ekki síst út um landið, að menn fari að losna við þessa ríkisstjórn og þurfi a.m.k. ekki að lifa annan vetur undir oki hennar, einn veturinn einn.
    Þá held ég að það sé ekki mjög gæfulegt að leggja upp með ágreining um þetta mál inn í þá óvissuframtíð sem Áburðarverksmiðja ríkisins þarf að glíma við í kjölfar samninganna um Evrópskt efnahagssvæði og reyndar fleiri breytingar. Ég teldi þess vegna til mikilla bóta, hæstv. forseti, ef hægt væri að ná hér fram þó ekki væri nema eins og tveimur breytingum á þessum lögum. Sú fyrri væri við 3. gr. frv. og gengi út á það að sambærilegt ákvæði kæmi inn um meðferð hlutafjár í Áburðarverksmiðju ríkisins hf., ef hún verður til, eins og sett var inn í frv. um Lyfjaverslun ríkisins. Úr því að menn gátu orðið sammála um það og menn töldu það sameiginlega til bóta að setja þar inn ákvæði um að ekki skyldi heimilt að selja nema allt að helmingi hlutafjársins nema afla þá til þess á nýjan leik og sérstaklega heimildar Alþingis þegar Lyfjaverslun ríkisins átti í hlut, þá spyr ég: Af hverju er þá ekki hægt að gera það sama með Áburðarverksmiðjuna? Ég hef þess vegna, hæstv. forseti, á þskj. 1309 leyft mér að flytja svofellda brtt. við frv. til laga um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins, sem er 199. mál, að síðasti málsl. 3. gr. orðist svo en það er sú grein sem fjallar um meðferð hlutafjárins:
    ,,Landbúnaðarráðherra er heimilt að höfðu samráði við fjárlaganefnd Alþingis að selja allt að helming hlutabréfa ríkissjóðs í félaginu.``
    Þetta er í raun alveg sambærilegt orðalag við að sem nú er komið í lögin um Lyfjaverslun ríkisins fyrir utan það að þarna er bætt við samráði við fjárln. Alþingis. Og ég leyfi mér að segja að það eru ærin tilefni til þess að reyna að vanda málsmeðferðina umfram það sem verið hefur í einkavæðingarmálum ríkisstjórnarinnar upp á síðkastið. Og ætli það gæti nú að breyttu breytanda ekki verið heldur til bóta að hæstv. ríkisstjórn hefði þá a.m.k. það aðhald að hafa þyrfti samráð við fjárln. þingsins um meðferð þessara eigna þannig að ekki kæmi til útsöluvinnubragða af því tagi sem hæstv. sjútvrh. ástundaði með miklum endemum þegar seldar voru Síldarverksmiðjur ríkisins eða afhentar. Þetta legg ég því til, hæstv. forseti, að orðist svona, að heimildin nái til sölu á allt að helmingi hlutafjárins og það er jafnframt áskilið að ráðherra skuli hafa samráð við fjárln. Alþingis.
    Hið síðara varðar breytingu á 7. gr. frv. sem svo stendur nú eftir 2. umr. en staðreyndin var sú að frv. var þannig úr garði gert af hálfu hæstv. landbrh. að í því voru í raun og veru engin nothæf ákvæði um stjórn fyrirtækisins. Þess vegna tóku menn sig til og fluttu um það brtt. að við frv. bættist ný grein aftan við 6. gr. sem yrði 7. gr. og mælti fyrir um fyrirkomulag á stjórn fyrirtækisins eftir að það væri orðið að hlutafélagi. Ég legg til að í staðinn fyrir þetta fyrirkomulag sem lagt var til í brtt. meiri hlutans og hljóðar upp á að kosnir skuli menn í stjórn á aðalfundi fyrirtækisins --- sem er náttúrlega brandari á meðan ríkið er eigandi hlutafjárins að 100% og hæstv. landbrh. fer með þann hlut, ætlar hann þá að halda aðalfund heima hjá sér, hæstv. landbrh., með sjálfum sér og framkvæma þar kosningu á 5 mönnum í stjórn eða hvað? --- Ég legg til að í staðinn komi svofellt ákvæði:
    ,,Meðan ríkið er eigandi fyrirtækisins að meiri hluta eða öllu leyti skulu fulltrúar ríkisins í sjö manna stjórn kosnir hlutfallskosningu á Alþingi. Landbrh. skipar einn þeirra formann verksmiðjustjórnar.``
    Með þessu móti yrði það ósköp einfaldlega þannig eins og verið hefur að meðan ríkið er eigandi verksmiðjunnar að fullu og öllu er öll stjórnin kosin hér á Alþingi eins og gert hefur verið frá upphafi starfsemi fyrirtækisins en mundi nú ríkið selja einhvern hluta af bréfunum til annarra aðila og fækka þar með af eðlilegum ástæðum þeim stjórnarmönnum sem þar ættu rétt á, þá mundi það ósköp einfaldlega endurspeglast í því að færri menn yrðu kosnir inn í stjórnina af hálfu ríkisstjórnarinnar eða Alþingis. Þannig gæti maður hugsað sér að í staðinn fyrir sjö yrðu það fimm eða fjórir sem kosnir yrðu hér á þinginu hlutfallskosningu á meðan ríkið ætti þó meiri hluta í fyrirtækinu. Þetta er framkvæmd sem ég held að geti gengið auðveldlega fyrir sig. Ég sé enga vankanta á því að þessu yrði einfaldlega hagað þannig að fyrst lægi það fyrir gegnum eignarhlutina hversu margir stjórnarmenn annars vegar ríkið og hins vegar þá einhverjir meðeigendur ættu miðað við hlutafjáreign og síðan kæmi til kosninga hér á Alþingi um fjóra, fimm, sex eða sjö stjórnarmenn eftir því hvað ríkið ætti þarna stóran hlut.
    Hæstv. forseti. Ég held að þessar breytingar eins og þær eru fram bornar af hæstv. ríkisstjórn séu því miður ekki til góðs fyrir Áburðarverksmiðjuna og ég óttast um framtíð fyrirtækisins. Það væri dapurlegt ef þetta stærsta efnaiðnaðarfyrirtæki Íslendinga og talsvert stóri orkunotandi hér ætti eftir að lenda í erfiðleikum og verða undir í samkeppni hér á næstu árum og þarna hyrfi í burtu fjölmennur vinnustaður sem hefur sparað mikinn gjaldeyri og verið í raun og veru hið mesta þjóðþrifafyrirtæki frá fyrstu tíð í okkar landi.
    Ég endurtek svo að lokum að ég tel að breytingartillögur, ef náðst gæti eitthvert samkomulag um þær í þessa veru, væru til bóta og mundu auðvelda afgreiðslu málsins hér. Það er auðvitað mjög dapurlegt að standa frammi fyrir því ef svo er, hæstv. forseti, í hverju málinu hér á fætur öðru að það er ekki einu sinni hlustað á, virðist vera orðið tilgangslaust að ræða um jafnvel minnstu lagfæringar af þessu tagi við menn. Það kemst ekkert annað að í þverhausum hæstv. ríkisstjórnar heldur en að keyra málin, svo gölluð sem þau eru, óbreytt hér í gegnum þingið með góðu og þó helst endilega með illu því að það er það verklag sem hæstv. ríkisstjórn hefur aðallega ástundað hér síðustu vikurnar.