Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:13:07 (8032)


[19:13]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Fyrr á þessum degi fóru hér fram allmiklar umræður um afleiðingar atvinnuleysis á Íslandi á grundvelli skýrslu sem lögð var fram af hæstv. félmrh. í desembermánuði sl. Þær umræður leiddu margt fróðlegt í ljós og er ástæðulaust út af fyrir sig að endurtaka það, en hitt liggur fyrir að það virðist hvað sem öðru líður vera allgóð samstaða um nauðsyn þess að taka sérstaklega á málefnum skipasmíðaiðnaðarins.
    Því miður er það svo að skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi er kominn mjög að fótum fram og má segja að hann hafi verið um og upp úr áramótunum og sé jafnvel enn í andarslitrunum. Þess vegna var það svo að hv. iðnn. Alþingis ákvað að fara sérstaklega yfir málefni þessarar iðngreinar, gerði það m.a. með því að heimsækja skipasmíðastöðvar á Akranesi og Akureyri og að kynna sér sérstaklega málefni greinarinnar í heild á tveimur eða þremur fundum í nefndinni. Þess vegna má segja að þær aðgerðir sem ákveðnar hafa verið á þessu tímabili, á þeim mánuðum sem liðnir eru frá því í haust, mér liggur við að segja, hæstv. forseti, frá því að skipt var um ráðherra í iðnrn., að á þessum tíma hefur það komið fram að um málin hefur verið allgóð samstaða. Auðvitað er það svo að við sem erum í stjórnarandstöðu hefðum mörg viljað láta standa öðruvísi að málum. Við teljum t.d. að þau nýju lög sem samþykkt hafa verið um jöfnunartolla séu ekki nægilega skýr. Ég tel satt að segja að þau séu mjög gölluð og að hætta sé á því að þau muni ekki koma greininni að þeim notum sem nauðsynlegt er.
    Ég tel einnig að nauðsynlegt hefði verið að ákveða fyrr og með myndarlegri hætti þá jöfnunaraðstoð sem ákveðin var í vetur og er nú uppurin. Og aðalástæða þess, hæstv. forseti, að ég óskaði eftir þessari utandagskrárumræðu hér í lok þingsins er sú að ég vildi spyrja hæstv. iðnrh. hvort uppi eru hugmyndir um það að halda jöfnunaraðstoðinni áfram. Það var ákveðið, hygg ég, snemma á þessu ári að veita 40 millj. kr. í jöfnunaraðstoð. 13% af þeim verkefnum sem unnin eru eftir tilteknum reglum hafa verið greidd niður með þessum peningum. Staðreyndin er hins vegar sú að þessir peningar eru búnir. Þeir fjármunir sem notaðir hafa verið, þessar 40 millj., hafa nýst mjög vel þannig að það er augljóst mál að skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi hefur aðeins farið af stað aftur með þessum fjármunum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þessari tilraun verði haldið áfram og skora á hæstv. iðnrh. að beita sér eins og hann getur fyrir því að þessir fjármunir fáist a.m.k. út árið 1994. Ég tel að það sé ekki sanngjarnt gagnvart öðrum skipasmíðaverkefnum að láta hér staðar numið og þess vegna sé eðlilegt og óhjákvæmilegt að þessari aðstoð verði haldið áfram út árið 1994.
    Jafnframt tel ég rétt að inna hæstv. iðnrh. eftir því hvort hann hefur gert einhverjar ráðstafanir til þess að kalla fram aukna samstöðu og samvinnu skipasmíðafyrirtækjanna í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru alveg óhjákvæmilegt, ef skipasmíðaiðnaðurinn á að komast á legg á nýjan leik, að skipasmíðastöðvarnar taki upp skipulega samvinnu sín á milli í stórauknum mæli og hefji jafnvel verkaskiptingu með skipulegum hætti. Ég tel með öðrum orðum að margar skipasmíðastöðvar á Íslandi sem eru kannski meira og minna allar að fást við það sama geti tæplega gengið. Þess vegna séu full rök fyrir því að stjórnvöld beiti sér fyrir víðtæku samstarfi skipasmíðastöðva hér við Faxaflóann svo að dæmi sé nefnt, þ.e. frá Njarðvíkum og vestur á Akranes. Um þetta atriði vildi ég spyrja sérstaklega hæstv. iðnrh. því ég tel að það sé mjög mikilvægt að fá upplýsingar um það hvort ráðherrann er sammála okkur um það að reyna að ná samstöðu af þessu tagi.
    Ég vil í þriðja og síðasta lagi spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort uppi eru hugmyndir um einhverjar aðrar sérstakar eða takmarkaðar aðgerðir fyrir skipasmíðaiðnaðinn eða einstakar skipasmíðastöðvar. Nú vil ég ekki að orð mín séu skilin þannig að ég sé að hvetja til þess að farið verði í aðgerðir fyrir einstakar skipasmíðastöðvar sem kalla mætti mismunun í greininni. Ég tel að það sé mjög brýnt að það verði farið heildstætt í málefni skipasmíðaiðnaðarins og það verði ekki efnt til verkefna eða annarra aðgerða sem vekja upp úlfúð, draga úr möguleikum á samstarfi eða spilla í raun og veru fyrir framtíðarþróun greinarinnar á annan hátt. Þessar spurningar vildi ég bera fram við hæstv. iðnrh. og þakka hæstv. forseta fyrir að gefa kost á því að taka þessi mál til umræðu í lok þingsins.