Vandi skipasmíðaiðnaðarins

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:29:33 (8036)


[19:29]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með öðrum þeim sem hér hafa talað að það er eðlilegt að um skipasmíðaiðnaðinn sé rætt, bæði í hv. iðnn. og eins hérna utan dagskrár. Nokkrir hv. ræðumenn hafa nefnt jöfnunaraðstoðina svokölluðu, 40 millj. sem samþykktar voru í ríkisstjórn snemma í janúar. Það erfiða við þetta mál er að sjálfsögðu það að ekki var gert ráð fyrir þessum fjármunum á fjárlögum íslenska ríkisins í ár og þess vegna eðlilegt að málið sé skoðað nú með tilliti til þess og með tilliti til hins líka hverjar verða heildstæðar aðgerðir í greininni. Menn hafa rætt hér um það að stokka upp, sameina, sérhæfa og auka samvinnu skipasmiðjanna, t.d. hér við Faxaflóa. Það kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni og undir það tekið. Útlánareglur hafa breyst. Það þarf að takmarka fjárfestingar og ekki má gleyma því að ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir lagabreytingu sem gerir það að verkum að hægt er að grípa fremur til jöfnunar- og undirboðstolla en áður. Það þarf að vinna að þessu máli í heilu lagi . . .   ( Gripið fram í: Hvernig er með reglugerðina?) Reglugerðardrögin liggja fyrir og eftir að lögin hafa verið auglýst þá verður reglugerðin að sjálfsögðu gefin út.
    Aðalatriðið er að skoða þetta mál með þeim hætti sem hér hefur verið minnst á og láta aðstoð til greinarinnar, ef um hana verður að ræða, byggjast á því hvernig menn sjá greinina þróast á næstunni. En það er auðvitað það sem skiptir miklu máli.