Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 19:59:28 (8048)


[19:59]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það liggur ekkert fyrir um það að ríkisstjórnin ætli að skerða láglaunabætur til elli- og örorkulífeyrisþega eða eingreiðslurnar með þeim hætti sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti. Ríkisstjórnin hefur einfaldlega ekkert fjallað um þessar tillögur sem þingmaðurinn hefur í fórum sínum.
    Í fjárlögunum kemur fram, í greinargerðinni, að það er áformað að endurskoða fyrirkomulag eingreiðslna í samráði við fulltrúa verkalýðsfélaganna og annarra hagsmunaaðila, enda falla úr gildi greiðslur þessar um næstu áramót. Þetta stendur í fjárlagafrv. En það liggur fyrir að það er einhver hópur sem hefur fengið þessar eingreiðslur, sem hefur auk tryggingabóta tekjur, svo sem úr lífeyrissjóði, sem eru hærri en tekjur þeirra láglaunahópa sem eru á almennum markaði og fá eingreiðslur. Eftir því sem ég best veit hefur verkalýðshreyfingin ekki gert athugasemdir við það að framkvæmd á útfærslunni verði endurskoðuð þó að það leiði til sparnaðar, ef elli- og örorkulífeyrisþegar, með tekjur sem eru sambærilegar eða undir því sem þessir láglaunahópar hafa sem fá eingreiðslurnar, haldi sínum hlut. Þannig að ég vil ítreka að það liggur ekkert fyrir um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að þetta verði skert með þeim hætti sem hv. þm. lýsti. Það er fyrst og fremst, eftir því sem ég skil málið best, verið að ræða þetta mál við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar og þetta mál er sem sagt í skoðun.