Skerðing á eingreiðslum til lífeyrisþega

159. fundur
Miðvikudaginn 11. maí 1994, kl. 20:03:51 (8050)


[20:03]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég undrast nokkuð þann mun sem var á málflutningi hæstv. ráðherra hér áðan. Hæstv. fjmrh. talaði um að það hefði ekki verið samið um neitt af þessu tagi við síðustu kjarasamninga. Ég spyr þess vegna: Var það ekki þannig að hæstv. ríkisstjórn kæmi að þeim samningum með einhverjum hætti? Vissu menn ekki hvað var verið að skrifa undir í kjarasamningunum? Ég tel það undarlegt að hæstv. ráðherra skuli halda því fram að ríkisstjórnin viti ekkert um hvað stóð í þessum kjarasamningum. Hann kastar sem sagt algerlega ábyrgð af niðurstöðu kjarasamninganna frá sér og talar um eins og það standi til að gera þessa hluti dálítið öðruvísi heldur en hæstv. félmrh. sem kom hér í ræðustól. En ég verð að segja það að afstaða hæstv. fjmrh. er í fullu samræmi við kjara- og félagsmálastefnu þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem hefur gengið út á svona hluti. Hún hefur gengið út á hina blindu trú á leiðsögn fjármagnsins og það að snúa sér að því að spara hjá þeim sem minnst mega sín í þjóðfélaginu. Það er einhvern veginn þannig að það hefur legið fyrir þessari hæstv. ríkisstjórn að ganga þannig fram.
    Ég var satt að segja að vona að það sem hér hefur komið fram og yfirlýsing hæstv. félmrh. vekur vonir um það að þarna verði snúið við á brautinni og þessir aðilar verði ekki látnir gjalda með þeim hætti sem hér virtist standa til að gera. Ég trúi ekki öðru heldur en hæstv. félmrh. hafi afl til að standa við það sem hann sagði hér áðan.