Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 21:38:26 (18)

                
[21:38]
    Petrína Baldursdóttir :
     Frú forseti. Hv. þingmenn. Góðir landsmenn. Á hvaða leið erum við? Við fjárlagagerðina hefur enn frekar komið í ljós hvers konar vanda íslenska þjóðin á við að glíma. Skuldasöfnun þjóðarinnar á sl. 20 árum vekur með ungu fólki mikinn kvíða. Það er vissulega mikið áhyggjuefni fyrir það og æsku landsins bíður það hlutverk að greiða niður afborganir og vexti erlendra lána.
    Ungt fólk er framtíð þessarar þjóðar og þess vegna hlýtur það að vera mikið mál fyrir ungt fólk að stjórnmálamenn sýni ábyrgð og einbeiti sér að því að ná niður halla á fjárlögum og draga úr ríkisútgjöldum.
    Ríkisstjórn sú sem Alþfl. á nú aðild að hefur leitast við að sýna fram á ábyrgð í fjármálum og sporna við fótum í aukningu ríkisútgjalda við afar erfiðar kringumstæður í efnahagslífi okkar. Ég tel almenning í þessu landi vita að það þarf ráðamenn sem sýna ábyrgð og stefnufestu, sem ekki hlaupa útundan sér við hvert tækifæri til að öðlast tímabundnar vinsældir. Alþfl. hefur sýnt þá ábyrgð að láta verkin tala, ekki sársaukalaust. Það er erfiðleikum bundið að skera niður í velferðarmálum eins og nú hefur verið gert og, góðir áheyrendur, ekki líklegt til vinsælda. En þetta sýnir ábyrgð. Við viljum ekki stuðla að því að íslenska þjóðin verði gjaldþrota og missi lánstraust á erlendri grund. Við segjum sannleikann eins og hann er. Sparnaður í rekstri þjóðarbúsins bitnar á öllum. Þessu verðum við að átta okkur á því að allt of algengt er að fólk telji sparnað góðan svo framarlega sem hann bitnar ekki á því sjálfu. Það þarf hugarfarsbreytingu í íslensku þjóðfélagi, breytt hugarfar um sameiginlegan sjóð okkar, bæði hvað varðar að borga í hann og úr honum. Í hvert skipti sem á að draga úr útgjöldum rísa upp hagsmunahópar sem hafa hagsmuni af áframhaldandi fjáraustri. Þessu verður að breyta. Stjórnvöld verða að bregðast við undanskotum þegna frá skatti. Því hugarfari verður að breyta. Unga fólkið í þessu landi ber ekki ábyrgð á þeim fjáraustri sem hefur verið í alls konar sjóði á undanförnum árum, í fiskeldi, loðdýrarækt o.fl. En það er unga fólkið sem þarf að greiða þessa óráðsíu m.a. með háum bankavöxtum og niðurskurði í opinberum útgjöldum. Það er unga fólkið sem þarf að taka lán meðan það er að koma undir sig fótunum. Ungt fólk langar ekki til að sjá stærstan hluta tekna ríkisins í náinni framtíð fara til að greiða erlendar og innlendar skuldir til lánardrottna, skuldir sem eru tilkomnar vegna gæfulausra fjárfestinga fyrri kynslóðar. Þess vegna hlýtur ungt fólk að spyrja: Á hvaða leið erum við? Við viljum sjá bjarta framtíð hér fyrir börnin okkar, framtíð þar sem jafnaðarmennskan er í fyrirrúmi. Við viljum sjá ráðdeild í meðferð opinberra sjóða. Með ráðdeild getum við byggt upp réttlátt þjóðfélag þar sem enginn þarf að líða skort og börnin okkar þurfa ekki að líða fyrir óráðsíu fyrri kynslóðar. Stjórnmálamenn þurfa að breyta vinnubrögðum, sýna fordæmi og umgangast opinbert fjármagn með virðingu.
    Frú forseti. Hv. þingmenn. Góðir landsmenn. Það er bjargföst trú mín að þessi ríkisstjórn sé á réttri leið. Ég trúi því að almenningur skilji og viti nauðsyn þess að sporna við fótum í útþenslu ríkisfjármála. Ég veit einnig að almenningur í landinu er til í að taka þátt í því svo framarlega sem einhver árangur sést í þeirri baráttu. Við alþýðuflokksmenn munum eftir sem áður gæta hagsmuna þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu og standa vörð um réttlátt velferðarkerfi sem nýtist þeim sem á þurfa að halda. Stjórnmálamenn þurfa pólitískt hugrekki til að takast á við vandann. Það þarf hugrekki til að takast á við óvinsælar aðgerðir. Það vantar ekki hugrekki í alþýðuflokksmenn. Við trúum því að almenningur á Íslandi viti hverjum á að treysta og hverjum ekki.
    Það er sameiginlegt markmið okkar þjóðfélagsþegna að gera þetta þjóðfélag að betra þjóðfélagi sem verður aðlaðandi fyrir börn framtíðarinnar að búa í. --- Góðar stundir.