Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana (útvarpsumr.)

2. fundur
Þriðjudaginn 05. október 1993, kl. 22:31:15 (23)

[22:31]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við höfum nú hlýtt á ræður stjórnarandstöðunnar hér í kvöld og átt þess kost að kynnast úrræðum þeirra. Það verður varla sagt að margt nýtt hafi komið fram nema þá helst kröfur um ný útgjöld úr ríkissjóði eins og heyra mátti á síðasta ræðumanni. Í raun var hálfátakanlegt að heyra gamla bölmóðinn hjá Steingrími Hermannssyni, formanni Framsfl., sem hann flutti hér fyrr

í kvöld. Segja má að einu verulegu tilburðirnir til að gera nýjar tillögur í efnahagsmálum hafi komið frá formanni Alþb., Ólafi Ragnari Grímssyni, sem lýsti því sem hann kallaði þriðju leiðinni sem er eins konar efnahagsleg eilífðarvél. En það er einmitt þessi sami Ólafur Ragnar sem hefur sagt og sagði nýlega, ég held í gær í sjónvarpsþætti, að hann vilji ekki skera niður útgjöld ríkisins heldur felist lausn hans í ríkisfjármálunum í því að leggja á 4--5 milljarða í hátekjuskatt. Við skulum aðeins átta okkur á því hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að hjón með 300--400 þús. kr. mánaðarlaun þurfa að greiða 85% skatt í hærra skattþrepi í stað 45% nú. Maður hlýtur að spyrja: Hvers vegna lagði ekki maðurinn þessa hátekjuskatta á sjálfur þegar hann var fjmrh. í fyrri stjórn? En það er einmitt núverandi ríkisstjórn sem hefur farið út í það að leggja á nokkurn hátekjuskatt. Það er auðvitað ekki hægt að taka mark á svona málflutningi. En svona er samt reynt að blekkja í trausti þess að enginn nenni að kanna málið ofan í kjölinn. Ég held að þetta teljist varla gott upphaf í siðbótarstarfi hins nýheilaga stjórnmálamanns.
    Þetta gefur hins vegar tilefni til að rifja upp þá dýrð sem var hér á landi þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh., en hann sat í ríkisstjórn fyrir aðeins tveimur og hálfu ári síðan. Á þrjátíu mánaða valdaferli hækkaði Ólafur Ragnar Grímsson skatta um hvorki meira né minna en 10 milljarða. Þessar skattahækkanir dugðu þó skammt einar og sér því að hallarekstur ríkissjóðs nam 27 milljörðum kr. á árunum 1989--1991. Öll sagan er þó ekki sögð því a.m.k. 5 milljörðum var velt yfir á framtíðina með lántökum í stað beinna framlaga til byggingarsjóðanna og Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þegar ríkisstjórn þeirra Steingríms og Ólafs Ragnars lauk starfstíma sínum hafði myndast 10 milljarða yfirdráttarskuld í Seðlabankanum. Svona var ástandið við stjórnarskiptin þrátt fyrir tiltölulega hagstætt árferði. Frá þeim tíma hefur ríkissjóður þurft til viðbótar að yfirtaka vel á fjórða milljarð vegna tapaðra útlána sjóðanna, þeirra sjóða sem Steingrímur og Ólafur stýrðu. Fyrirsjáanlegt er að sá reikningur sem sendur verður skattborgurunum verður miklu hærri á næstu mánuðum og árum. Það er einmitt af þessum ástæðum, ágætu áheyrendur, sem minna er til skiptanna nú og minna er til ráðstöfunar, m.a. til heilbrigðismála.
    Flestir eru sammála um að við mjög erfiðar aðstæður í efnahagsmálum hafi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar náð verulegum árangri á mörgum sviðum. Gott jafnvægi hefur náðst í viðskiptum við útlönd, erlendar skuldir þjóðarbúsins munu ekki vaxa að raungildi á næsta ári, viðskiptahallinn á þessu ári verður líklega 5,5 milljarðar en var þrisvar til fjórum sinnum meiri 1991. Verðbólgan hér á landi mælist nú sambærileg og jafnvel lægri en í helstu viðskiptalöndum. Á þessu kjörtímabili hefur verðbólgan að meðaltali verið innan við 5% á ári og fer enn hjaðnandi. Árið 1994 verða útgjöld ríkisins 8,5 milljörðum kr. lægri en 1991 og skatttekjur ríkissjóðs verða 5,5 milljörðum lægri og hafa ekki verið lægri síðan á árinu 1987 að raungildi.
    Ríkisstjórnin hefur hamlað gegn atvinnuleysi með öflugum stuðningi við atvinnulífið í formi skattalækkana og opinberum fjárfestingum sem stuðlað geta að hagvexti í framtíðinni. Samkeppnisstaða útflutningsgreina hefur sjaldan verið betri. Núverandi ríkisstjórn hefur algerlega skrúfað fyrir yfirdrátt í Seðlabanka þannig að ríkissjóður verður nú að taka sín lán á markaði eins og aðrir. Framlög til vísinda og rannsókna hafa aldrei verið meiri og þannig er lagður grunnur að meiri hagsæld í framtíðinni. Sérstök framlög hafa verið veitt til þess að efla atvinnu fyrir konur. Og það var athyglisvert að báðir fulltrúar Kvennalistans gengu fram hjá þessari staðreynd og minntust ekki einu orði á það sem gert hefur verið sérstaklega fyrir konur, bæði hér í Reykjavík og úti á landsbyggðinni.
    Góðir áheyrendur. Í stefnuræðu forsrh. hér fyrr í kvöld var stjórnarstefnunni ítarlega lýst. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur náð verulegum árangri við afar erfiðar aðstæður. Sem betur fer hafa landsmenn yfirleitt sýnt aðgerðum ríkisstjórnarinnar skilning. Aðilar vinnumarkaðarins hafa axlað sína ábyrgð með því að gera kjarasamninga sem gefa góða von um stöðugleika næstu missiri. Ríkisstjórnin telur enga ástæðu til að draga fjöður yfir þá erfiðleika sem fram undan eru á næsta ári. Aðalatriðið er að byrðunum sé skipt réttlátlega á fólk og þeim hlíft sem verst eru settir eins og ríkisstjórnin hefur kappkostað að gera í sínu starfi.
    Sumpart eiga efnahagserfiðleikar okkar sér orsakir í fallandi markaðsverði á erlendum mörkuðum. Úr því mun rætast þegar efnahagsástand batnar í viðskiptalöndunum. Öðrum þræði má rekja vandann til slæms ástands verðmætra fiskstofna. Ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að draga tímabundið úr veiðum til að byggja upp þorskstofninn á nýjan leik. Þetta er uppbyggingarstarf sem mun vonandi skila árangri innan fárra ára. Með ráðdeild og fyrirhyggju hefur ríkisstjórnin lagt grunn að bættum lífskjörum. Við getum því horft bjartsýn fram á veginn.