Rekstur dagvistarheimila sjúkrahúsanna

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:07:18 (38)


           [14:07]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Starfsemi dagvistarstofnana sjúkrahúsanna er um margt ólík því sem gerist í svipuðum rekstri á vegum sveitarfélaga og einstaklinga. En að gefnu tilefni vil ég þó benda á það að allar dagvistarstofnanir eiga það sameiginlegt að gegna uppeldis- og fræðsluhlutverki með markvissri og faglegri starfsemi. Ástæða þess að sjúkrahúsin hafa kosið að reka dagvistarstofnanir á eigin vegum eru margvíslegar. Sveitarfélög, eins og t.d. Reykjavíkurborg hafa enn ekki getað annað vistunarþörf allra þeirra barna sem óskað hefur verið eftir heilsdagsvistun fyrir. Þannig hafa ákveðnir þjóðfélagshópar haft forgang eins og kunnugt er svo sem einstæðir foreldrar og nemendur og lítið rúm verið eftir fyrir börn hjóna eða sambýlisfólks. Vistun við einkastofnanir og hjá dagmæðrum hafa reynst mörgum ofviða. Rétt er þó að geta þess að vistun barna á barnaheimilum spítalanna hefur ekki miðast við búsetu í því sveitafélagi sem sjúkrahúsið starfar. T.d. búa 48 af 166 börnum á barnaheimili Borgarspítalans utan Reykjavíkur. Sjúkrahúsin hafa um langt skeið átt í erfiðleikum með að manna nauðsynlegar stöður og hafa eins og ýmsir aðrir vinnuveitendur orðið að leita leiða til að laða til sín starfsmenn. Mjög stór hópur starfsfólks sjúkrahúsanna er ungt fólk í sambúð og á barneignaraldri og hefur þetta fólk ekki átt um marga kosti að velja til vistunar fyrir börn sín. Því hefur sá háttur að laða fagfólk með vistun fyrir börn sín á sama verði og sveitarfélög bjóða verið heppileg lausn bæði fyrir sjúkrahúsin og fyrir þetta starfsfólk. Þetta fyrirkomulag hefur verið hluti af ráðningarsamningi ýmissa stétta við sjúkrahúsin. Í fyrstu voru þessi pláss ætluð börnum hjúkrunarfólks en hin síðari ár hafa ýmsar stéttir bæst í hópinn eftir því sem mannekla hefur vaxið meðal þeirra stétta.
    Sjúkrahúsin hafa haft forgangsröðun í veitingu vistunarplássa. Starfsfólkið sem starfar á deildum þar sem hörgull er á vinnuafli gengur fyrir. Starfsfólk sem gegnir 100% starfi

gengur einnig fyrir. Starfsfólk sjúkrahúsanna vinnur sem kunnugt er vaktavinnu og er því dvöl barnanna í vistuninni mun sveigjanlegri en gerist og gengur í öðrum sambærilegum rekstri. Börnin dveljast í vistuninni mislengi allt eftir vaktaálagi hverrar viku og hvers mánaðar. Þetta auðveldar starfsfólki að koma til móts við misjafnt vinnuálag innan sjúkrahúsanna. Ég vil einnig benda á að strangar reglur gilda um vistunarrétt barnanna, t.d. dvelja þau ekki í þessari dagvistun í barnsburðarleyfi foreldris, námsleyfis þess eða lengri veikindaleyfum. Uppsagnarfrestur er þrír mánuðir.
    Að sjálfsögðu má til sanns vegar færa að það fyrirkomulag að veita ákveðnum starfsstéttum forgang að dagvistun fyrir börn sé ekki réttlát og æskilegt er að unnt sé að veita öllum sem þess óska vistun fyrir börn sín. Ef gera á grundvallarbreytingar á þessum rekstri verður að gæta þess vandlega að slíkt verði gert á skipulegan og mannúðlegan hátt þannig að það komi ekki niður á mikilvægum rekstri heilbrigðisþjónustunnar, starfsfólki og þeim sem oft vilja gleymast í umræðum þessum, viðkvæmum sálum barna þeirra sem á heimilunum dvelja.