Fjárframlög til Gunnarsholts

3. fundur
Miðvikudaginn 06. október 1993, kl. 14:43:01 (51)


[14:43]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Suðurl. fyrir að hreyfa þessu máli. Ég held að það sé útilokað fyrir hæstv. heilbrrh. að telja okkur alþingismönnum trú um það að það sé til þess að bæta möguleika fólks sem dvelur í Gunnarsholti að loka heimilinu. Að sjálfsögðu dvelur fólk þar vegna þess að það hefur ekki átt kost á að vera á öðrum betri stað.

Við vitum að á sama tíma og á að loka í Gunnarsholti og hæstv. ráðherra segir að það megi flytja þetta fólk annað þá er verið að þrengja að fleiri stofnunum. Hann minntist hér á Staðarfell. Það kom í fréttum fyrir fáum dögum að miðað við fjárveitingu sem sú stofnun fær þá muni þurfa að loka henni um áramót og hvar eiga þá þeir sem þangað á að vísa að fá inni?
    Því miður er ekki nokkur rökstuðningur í málflutningi hæstv. ráðherra og það er kaldranalegt að á sama tíma og þannig er verið að þrengja að þeim sem hafa misst fótanna í þjóðfélaginu og þurfa á þessari aðstoð og aðbúð að halda þá er sífellt að fjölga þeim sem lenda í þessum raunum og aldur áfengisneytenda lækkar. Það er að sjálfsögðu táknrænt fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar að lækka nú verð á bjórnum til þess að reyna að auka neyslu hans, reyna að fá fleiri til að drekka meira. Því miður þá virðist algjörlega vera öfugt að verki staðið.
    Þjóðfélagið hlýtur að verða að sjá fyrir þeim aðilum sem fara svona illa og er aðeins spurning hvar það verður gert og af hverju er þá betra að loka í Gunnarsholti og ætla þeim að búa annars staðar.