Valfrelsi í lífeyristryggingum

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 10:53:02 (72)

[10:52]
     Flm. (Árni M. Mathiesen) :
    Hæstv. forseti. Eitt mesta óréttlætið sem við búum við í þessu þjóðfélagi er að finna í lífeyriskerfinu. Það er ekki bara að þegnarnir búi við mismunandi möguleika til þess að vinna sér inn lífeyrisréttindi eins og raun ber vitni um ríkisstarfsmenn annars vegar og starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar og eins og dæmin um SÍS-forstjórana einnig sýna. Það er einnig skattamisrétti þar sem sjálfstætt starfandi aðilar þurfa að greiða skatt af þeim hluta sem annars er skattfrjáls af hendi vinnuveitandans. En versta óréttlætið í þessu máli er skylduaðildin að tilteknum lífeyrissjóðum.
    Samkvæmt lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps. Í lögunum eru ítarleg ákvæði um það hvernig skyldutryggingunni, svo og skylduaðildinni, skuli fullnægt. Þegar lög þessi voru sett voru um það bil tíu ár liðin frá því að launþegar og atvinnurekendur höfðu samið um aðild launþega að lífeyrissjóðum og í sjálfu sér eðlilegt að kveða á um skyldutryggingu allra sem launatekna afla. Lífeyrissjóðir höfðu þá fest sig í sessi á grundvelli stéttarfélagsaðildar.
    Þessi lög sem ég hef hér nefnt leiða til þess að þúsundir manna eru skyldaðir til þess að greiða lífeyrisiðgjöld í gjaldþrota lífeyrissjóði. Þetta er ekki af illgirni forsvarsmanna þessara sjóða heldur eru þeir einungis fangar kerfis og hagsmuna. En þessu þarf að breyta.
    Staðreyndin er sú að það vantar talsvert upp á að margir lífeyrissjóðanna geti staðið undir lofuðum skuldbindingum samkvæmt skýrslu bankaeftirlitsins frá því í nóvember 1992 um ársreikninga og fjárhagsstöðu lífeyrissjóða árið 1991. Þrátt fyrir háa vexti undanfarin ár sem náðu hámarki í lok ferils síðustu ríkisstjórnar á árinu 1991, en lífeyrissjóðirnir munu væntanlega njóta á næstu árum þessara vaxta vegna þegar keyptra verðbréfa, vantar hjá mörgum lífeyrissjóðum það mikið upp á að eignir standi undir skuldbindingum að engar líkur virðast vera á að viðkomandi geti unnið sig út úr vandanum, eins og segir í skýrslu bankaeftirlitsins. Heildarstærð þessa vanda er á bilinu 74--142 milljarðar eftir því hvernig reiknað er en hærri talan gerir ráð fyrir áframhaldandi rekstri sjóðanna og segir því meira til um hinn raunverulega vanda en hin lægri.
    Til glöggvunar má geta þess að heildarlaunagreiðslur á Íslandi árið 1992 voru 166,5 milljarðar. Um helmingur þessa vanda sem hér er nefndur er vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna og er því vandi sem ríkissjóður þarf við að glíma.
    Orsök vandans liggur fyrst og fremst í eignarýrnun sem varð á tímum óðaverðbólgu og fjölda og smæð lífeyrissjóða með tilheyrandi rekstrarkostnaði en sjóðirnir voru árið 1991 88 samkvæmt skýrslu bankaeftirlitsins. Rekstrarkostnaður bestu sjóðanna er 0,33% af eignum en rekstrarkostnaður verstu sjóðanna er margfaldur sá kostnaður sem fellur á þá best stæðu og að sumra mati er um tífaldan til fimmtánfaldan kostnað að ræða.
    Erlendis er rekstrarkostnaður lífeyrissjóða á bilinu 0,01--0,1%. Þetta hefur auðvitað gríðarleg áhrif á ávöxtun og ávöxtunarmöguleika sjóðanna. Það hefur einnig áhrif á þennan vanda að meðalævi Íslendinga hefur lengst að undanförnu og að útgreiddur örorkulífeyrir er meiri en sumir sjóðir hafa reiknað með.
    Vegna þessa vanda sem ég hef hér að framan lýst hef ég ásamt hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni lagt fram þáltill. um valfrelsi í lífeyrismálum. Tillagan felur í sér að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 55/1980 þannig að starfandi menn ráði sjálfir til hvaða lífeyrissjóðs eða samsvarandi stofnunar þeir greiða iðgjöld eða kaupa lífeyristryggingu hjá. Bönkum, sparisjóðum og tryggingafélögum verði leyft að starfa á sviði lífeyristrygginga og veita þjónustu sem samsvarar þjónustu lífeyrissjóða.
    Í frumvarpinu verði ekki hróflað við skyldu launamanna og sjálfstæðra atvinnurekenda til kaupa á lífeyristryggingu hjá lífeyrissjóði eða samsvarandi stofnun og ekki verði gerðar minni kröfur til annarra stofnana sem selja lífeyristryggingar en gerðar eru til lífeyrissjóða.
    Tillögunni er ætlað að ýta undir sameiningu lífeyrissjóða og bjarga þannig þeim verðmætum sem fyrir eru í hinum verr stöddu sjóðum og forða því að þúsundir manna verði áfram skyldaðir til þess að kasta peningunum á glæ í gjaldþrota sjóði. Tillagan mun einnig skapa grundvöll fyrir stærri og hagkvæmari rekstrareiningum í lífeyriskerfinu sem ber lægri kostnað og betri ávöxtun geta hugsanlega unnið upp eitthvað af því sem þegar hefur tapast.
    Tillögunni er jafnframt ætlað að skapa samkeppni á meðal þeirra stofnana sem þessa þjónustu veita og auka þannig hvatninguna til hagræðingar og betri ávöxtunar.
    Jafnframt er tillögunni ætlað að auka valmöguleika þeirra sem greiða lífeyrisiðgjöld þar sem aðstæður okkar og þarfir eru mjög mismunandi. Einhleypingurinn hefur aðrar þarfir heldur en fjölskyldumaðurinn og þarfir þeirra sem þegar hafa greitt í gjaldþrota lífeyrissjóði verða að sjálfsögðu aðrar í framtíðinni en þarfir þeirra sem greitt hafa í hina betur stæðu sjóði.
    Ég er sannfærður um það að ef tillaga þessi nær fram að ganga og að frv. í anda tillögunnar verður lagt fram á Alþingi og það samþykkt þá verði það til þess að styrkja lífeyriskerfið og auka öryggi og fjárhagslegt sjálfstæði þegnanna. Það mun væntanlega í framtíðinni spara ríkissjóði fjármuni þar sem það mun létta álaginu á velferðarkerfi hins opinbera. Ég tel að það muni auka sparnað og þá sérstaklega ef jafnframt verða gerðar breytingar á skattlagningu lífeyrisframlaga og tvísköttun afnumin og skattfrelsisprósentan hækkuð.
    Í tengslum við þetta er ekki hægt að komast hjá því að nefna félagafrelsið svokallaða og þær umræður sem um það hafa verið í þjóðfélaginu að undanförnu. Það hafa verið færð góð rök fyrir því að það séu brot á mannréttindum okkar að skylda okkur til þess að greiða í tiltekna lífeyrissjóði. Þetta er sjónarmið sem við hér á Alþingi verðum að taka fullt tillit til en það sem vegur ekki minna í þessu máli er það að þetta kerfi skapar gríðarlegt óréttlæti og að það varnar okkur hverju og einu að gæta okkar eigin fjárhagslegu hagsmuna með því að velja um það hvert við greiðum okkar lífeyrisiðgjöld og hvers konar lífeyristryggingar og lífeyrisgreiðslur við viljum fá að lokinni starfsævi okkar.
    Ég sagði í upphafi að það óréttlæti sem þetta kerfi skapar væri eitt hið mesta sem fyrirfinnst í okkar þjóðfélagi. Ég held að það séu engar ýkjur og ég held að við hér á Alþingi getum ekki skorast undan því að breyta þessu kerfi. Ég vil því leggja til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. efh.- og viðskn.