Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 11:28:29 (77)

[11:28]
     Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir 3. máli þessa nýbyrjaða þings. Það er till. til þál. um gæslu íslenskra hafsbotnsréttinda. Tillögugreinin er raunar aðeins ein og fer ekki mikið fyrir henni þó að sjálfsögðu sé hér um mjög stórt og mikið mál að ræða. Ég vildi gjarnan hafa flutt málið með einhverjum þingmönnum úr einhverjum flokkum fremur en að gera það einn eins og raunin hefur nú á orðið. En þar ber margt til. Þegar við vorum í baráttunni miðri voru tillögurnar, óteljandi tillögur, gjarnan fluttar af öllum flokksmönnum eða einhverjum þingmönnum, einum úr hverjum flokki, og reynt að ná um það samstöðu. Hér hefur það ekki sérstaklega verið gert en það eru orðnar þær breytingar að margir eru ekki á meðal okkar sem stóðu að þessum flutningi. En ég vona að allir þingmenn muni nú styðja þessi mál þegar þeir hafa

fengið kost til að kynna sér þau og þau hafa verið nægilega rædd. En tillögugreinin hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja fast eftir, á grundvelli ítrekaðra ályktana Alþingis, réttmætum kröfum Íslendinga til hafsbotnsréttinda á Reykjaneshrygg og Rockall-svæðinu í nær tvo áratugi. Sérstaklega sé nú gætt íslenskra hagsmuna vegna nýlegra fregna af athöfnum Breta og Færeyinga.
    Jafnframt ályktar Alþingi að kjósa sjö alþingismenn hlutbundinni kosningu til að starfa með ríkisstjórninni að framgangi málsins.``
    Mál þetta á sér langa forsögu. Flutt var tillaga til þingsályktunar á 100. löggjafarþinginu (1978--1979) um landgrunnsmörk Íslands til suðurs. Flutningsmenn voru Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl. Var hún svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að mótmæla nú þegar öllum tilraunum Breta til að reyna að slá eignarhaldi á klettinn Rokk (Rockall).
    Alþingi lýsir því jafnframt yfir, að ákvörðun ytri landgrunnsmarka Íslands til suðurs miðast við, að engri þjóð beri tilkall til Rokksins.``
    Í greinargerð með tillögunni sagði:
    ,,Ríkisstjórn Stóra-Bretlands hefur gert tilraun til að slá eignarhaldi Breta á klettinn Rockall í þeim tilgangi að teygja yfirráð þeirra út á hafsbotnssvæði, sem tilheyrir Íslendingum eftir þeim þjóðréttarreglum, sem nú eru í mótun. Öllum slíkum tilraunum ber þegar í stað að mótmæla, enda þótt sker þetta mundi ekki fá sjálfstæða efnahagslögsögu eftir þeim reglum, sem nú eru skráðar í uppkasti að hafréttarsáttmála.
    Þegar fiskveiðilögsaga Íslands var loks færð út í 200 mílur, var þess að sjálfsögðu gætt, að engin skerðing yrði á henni vegna Rokksins. Bretar viðurkenndu síðan fiskveiðitakmörk Íslands skv. reglugerð frá 15. júlí 1975 með Oslóarsamkomulaginu 1. júní 1976 og staðfestu þar með, að engin efnahagslögsaga ætti að vera út frá Rokknum, þótt þeir teldu klettinn tilheyra sér. Ljóst er því, að nibba þessi getur ekki skert ytri landgrunnsmörk Íslands, fremur en efnahagslögsöguna.``
    Fyrsti flutningsmaður tillögunnar (Eyjólfur Konráð Jónsson) sagði m.a. í framsögu með tillögunni: ,, . . .  vart getur farið á milli mála að ágreiningur verður milli Breta, Íra, Færeyinga og Íslendinga um ákvörðun ytri landgrunnsmarka langt suður af Íslandi og þær réttarreglur sem ákvörðun slíkra marka mun hlíta. . . .  Rétt er að Íslendingar taki af öll tvímæli um að þeir viðurkenna ekkert tilkall Stóra-Bretlands til Rokksins, því að bein eða óbein viðurkenning á tilkalli Breta til þessarar nibbu gæti firrt okkur rétti þegar við gætum hagsmuna okkar á umræddu hafsvæði.``
    Tillögunni var vísað til utanríkismálanefndar sem varð sammála um að leggja til að henni yrði vísað til ríkisstjórnarinnar svo breyttri:
    ,,Alþingi lýsir því yfir, að ytri landgrunnsmörk Íslands til suðurs verði ákveðin án tillits til klettsins Rockall og að samvinna verði höfð við Færeyinga til að tryggja sameiginleg réttindi á landgrunnssvæðinu utan 200 sjómílna marka landanna.``
    Það var samþykkt og var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar 22. desember 1978.
    Þess má geta að þrjú fyrstu þingmál 100. löggjafarþings fjölluðu öll um hafréttarmál en auk tillögu til þingsályktunar um landgrunnsmörk Íslands til suðurs fluttu Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl. tillögu til þingsályktunar um rannsókn landgrunns Íslands og tillögu til þingsályktunar um samninga við Norðmenn um réttindi landanna á Íslandshafi.
    Þá var flutt tillaga til þingsályktunar á 102. löggjafarþingi (1979--1980) um hafsbotnsréttindi Íslands og samvinnu við Færeyinga. Voru flutningsmenn Eyjólfur Konráð Jónsson o.fl.
    Eins og menn sjá þá er hér mikil upptalning á því hvað var að gerast á þessum árum. Ég ætla ekki við þetta tækifæri þar sem ræðutími er takmarkaður að tíunda það sem þá var að gerast og síðan gerðist. En það er skemmst frá að segja að við unnum auðvitað hvern stórsigurinn af öðrum þannig að nú má segja að Ísland sé með gífurlega mikil hafsbotnsréttindi, bæði til norðurs og eins í suðurátt og þessara réttinda þarf að gæta. Við höfum ekki gert það nægilega dyggilega og getum þó fært stanslaust rök að því að þessi réttindi sem ekki eru bara hafsbotnsréttindi heldur fiskveiðiréttindi líka, utan 200 mílnanna, það er réttur til hafsbotnsins sjálfs og allt sem á honum er og í hvort sem það er lífrænt eða ekki. Það er eign strandríkisins. Það er eins og menn sem eru að gera út skipin t.d. á Reykjaneshryggnum á milli 200 og 350 mílna viti ekkert um það að þar eiga íslenskir útgerðarmenn og íslenska þjóðin gífurlegra hagsmuna að gæta og þeir eiga að nýta þessi auðævi sem þarna eru því hafrétturinn er alltaf ríkari eftir því sem tímar líða en hann var áður. Þannig er það nú einu sinni að strandríkin hafa ráðið ríkjum í heiminum, þau eru 2 / 3 af ríkjum heims og kannski rúmlega það. Þau hafa tekið sinn rétt og hafa verið að auka hann alla tíð. En það hefur orðið nokkur stöðnun á því að við Íslendingar héldum okkar rétti nægilega tryggilega fram og er ég þá ekki að ásaka einn eða neinn. Það stæði engum nær en mér að vinna dyggilegar að því en orðið hefur til þessa. En málið er endurflutt núna og það verður ekki stöðvað. Þessi umræða sem nú er hafin verður kannski ekki neitt sérstaklega merkileg á fyrsta stigi en við hljótum að fylgja málinu eftir því þetta eru okkar lífshagsmunir.
    Ég get aðeins til gamans getið þess að rökin eru t.d.:
    1. Sanngirni er sú meginregla sem ríkja á samkvæmt orðum og anda hafréttarráðstefnu og hafréttarsáttmála, og sanngjarnt hlýtur það að vera hverning við höfum veitt okkar málum í þessu tilliti, stanslaust boðið grannríkjunum að hafa við þau samvinnu en þau hunsa það meira og minna.

    2. Í 100 milljónir ára hafa sömu jarðfræðilegu umbrotin sett einkenni sitt á jarðsögu Rockall-hásléttu, Íslands og Færeyja.
    3. Eftir Íslands-Færeyjahryggnum tengjumst við Hatton-banka beint, en hryggurinn er náttúrulegt framhald Íslands.
    4. Íslands-Færeyjahryggurinn er af sérstakri tegund úthafsskorpu sem kölluð er ,,Icelandic type crust``.
    5. Dýpi frá Íslandi til Hatton-banka er hvergi meira en 2500 metrar, en það eru mörk sem gjarnan er vitnað til.
    Þegar við gerðum Jan Mayen-samningana þá tryggðum við þessi réttindi. En það sem menn þurfa gjarnan að átta sig á og margir gera nú raunar, er þetta náttúrulega og eðlilega og óslitna framhald af hafsbotninum þar sem hann leitar út í djúpin. ,,Natural prolongation`` gengur þannig út að það má ekki vera neitt svæði algjörlega slitið frá, sem klýfur landið frá, til þess að hægt sé að tala um eðlilega framlengingu landsvæðisins. Það er svo með Rockall-hásléttu að hún er algjörlega skorin frá hyldýpinu sem er Rockall-trogið á 3000 m hafdýpi og ég held að menn séu búnir að átta sig á að verður ekkert skorið í sundur. Þessi ,,natural prolongation`` er frá 12 mílunum og síðan alveg út og þó að síðar komi aftur grunnsævi þá er það alveg skorið frá og réttindin eru okkar.
    Það er raunar einnig tilefni til þess að taka málið upp núna að það var t.d. í Morgunblaðinu 14. ágúst sl. frétt um það á forsíðu að leynileg olíuleit sé nú við Rockall og það er haft eftir dönskum heimildum og danska stjórnin hyggst reyna að flýta rannsóknum á Rockall-svæðinu og gera það á bak við tjöldin. Það er það sem er að gerast núna. Það er verið að gera þetta allt á bak við tjöldin og við höfum ekki hönd í bagga.
    En eins og mig grunaði þá var tíminn fljótur að líða og ég vil ekki syndga mjög upp á náðina. En eins og ég segi þá hafa þessar fréttir verið að berast og við Íslendingar hljótum að sameinast um að bregðast hart við eins og við höfum alltaf gert þegar mikið hefur verið í húfi. Með hliðsjón af framansögðu má ljóst vera að landhelgisbaráttu Íslands er ekki lokið, þvert á móti eigum við mikilla hagsmuna að gæta og því er tillagan flutt.