Gæsla íslenskra hafsbotnsréttinda

7. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 11:44:32 (78)


[11:44]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni fyrir að flytja þessa tillögu hér og um leið lýsa virðingu minni gagnvart því hve ötullega hann hefur á undanförnum árum haldið þessu máli vakandi. Ég held því miður að það hafi ekki verið nægilegur skilningur á því, hvorki innan stjórnkerfisins né meðal þjóðarinnar, hvað hér er stórt mál og brýnt.
    Hv. flm., Eyjólfur Konráð Jónsson, hefur hins vegar haldið þessum málstað á lofti og vekur enn á ný athygli þingsins á því að hér eru miklir hagsmunir á ferð.
    Ég vil þess vegna strax í upphafi lýsa yfir stuðningi okkar við þessa tillögu og teldi það gæfu fyrir þingið ef hún yrði samþykkt. Ég held líka að það sé nauðsynlegt að þingið sýni með afgerandi hætti að við viljum halda fram okkar hagsmunum í þessum efnum. Án þess að vera að saka einn eða neinn um vanrækslu þá held ég að það sé því miður staðreynd að innan íslenska stjórnkerfisins hafi á undanförnum árum of lítill áhugi verið á því að reka hagsmuni og réttindi Íslands á Reykjaneshrygg og Rockall-svæðinu. Við höfum af og til í utanrmn. óskað eftir því að þessi mál yrðu tekin til umfjöllunar en það hefur ekki gefist tími til þess og utanrrn. hefur ekki haft frumkvæði að því að koma með þessi mál til nefndarinnar. Mér sýnist verklagið þess vegna vera með þeim hætti að til þess að vekja á ný til lífsins málsókn okkar á þessu sviði þá þurfi að gera eitthvað sérstakt. Það sé ekki viðunandi að hafa það í þeim rólega farvegi sem það hefur verið á undanförnum árum, oft á tíðum aðgerðaleysi, vegna þess að það sé þá túlkað af hálfu hinna ríkjanna sem þarna eru líka að sækja hagsmuni að Íslendingar séu ekki mjög fylgnir sér í þessum efnum.
    Ég tók það fram að ég ætlaði ekki hér að fara að lýsa sök á hendur einum eða neinum í þessum efnum. Ég held einfaldlega að málið sé svona vaxið og þess vegna sé skynsamlegt bæði að flytja tillögu af þessu tagi og jafnframt afgreiða hana á þinginu. Það er auk þess fyrir því nokkur hefð að þegar Alþingi hefur viljað leggja sérstaka áherslu á réttindamál þjóðarinnar af þessu tagi þá hefur verið skipuð til þess sérstök nefnd. Þau mál hafa verið tekin inn á sérstakan vettvang og áhersla þingsins birt með þeim hætti. Auðvitað mætti halda því fram að eðlilegt væri að öllu jöfnu að málið væri á vettvangi utanrmn. en staðreyndin er hins vegar sú, því miður, að samspil utanrmn. og utanrrn. í þessum efnum hefur ekki leitt til sérstakrar vöku í málinu. Þess vegna sé skynsamlegt að kjósa nefnd þingmanna til að hafa þetta verkefni sérstaklega.
    Það er líka rétt hjá hv. flm. að fréttir hafa verið að berast af því að aðrar þjóðir hafa verið mjög virkar í þeim efnum að afla sér þekkingar og tryggja hagsmuni sína á þessu svæði. Auðvitað veit enginn hvað þeir hagsmunir eru miklir á mælistiku auðæva en það er hugsanlegt að þeir séu svo miklir að um ótrúleg auðævi sé að ræða samanborið við okkar þjóðartekjur. Málið liggur þar að auki þannig fyrir að við höfum að ýmsu leyti sterka stöðu til þess að gera tilkall í a.m.k. sameiginlegan búskap með öðrum þjóðum gagnvart þessu svæði. Það liggur ekki þannig fyrir að aðrar þjóðir geti ráðstafað þessum svæðum og hugsanlegri auðlegð þeirra eingöngu eftir sínu höfðu án þess að leita samvinnu og þátttöku okkar Íslendinga í þeim efnum.
    Í sjálfu sér tel ég ekki þörf á því að hafa fleiri orð um þessa tillögu, greinargerð hennar er mjög skýr, framsagan var einnig mjög ljós. En ég vildi nota þetta tækifæri við 1. umr. bæði til þess að þakka flm. fyrir að flytja tillöguna og lýsa yfir eindregnum stuðningi okkar alþýðubandalagsmanna við það að hún verði afgreidd.