Launagreiðslur til hæstaréttardómara

8. fundur
Fimmtudaginn 07. október 1993, kl. 13:42:33 (102)

[13:42]
     Kristín Ástgeirsdóttir :

    Virðulegi forseti. Eins og hér hefur verið rakið varð mikið upphlaup sumarið 1992 vegna niðurstöðu Kjaradóms sem leyfði sér með rökstuddum hætti að hækka verulega laun þeirra sem undir hann heyrðu. Ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög sem hnekktu dómnum og var inntak þeirra að ekki mætti raska launakerfinu í landinu þar sem það hefði afdrifaríkar afleiðingar fyrir efnahagslíf þjóðarinnar, enda hafði öllum launum verið haldið niðri nú um árabil. Það skýtur því skökku við þegar í ljós kemur að einn tiltekinn hópur opinberra starfsmanna sem heyrir undir Kjaradóm fær viðurkenndan sjálftökurétt í eigin launamálum. Samkvæmt fréttum hefur fjmrn. látið óátalið að hæstaréttardómarar skammti sér 48 tíma yfirvinnu á mánuði. En eftir að hafa heyrt skýringar hæstv. fjmrh. og starfandi forsrh. um þetta mál þá verð ég að segja að málið verður æ sérkennilegra.
    Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að hæstaréttardómarar séu ekki of sælir af sínum launum og ég veit að á þeim er mikið vinnuálag. Það hlýtur öllum að vera ljóst að launakjör hæstaréttardómara verða að vera með þeim hætti að þeir geti verið óháðir öðrum störfum og hagsmunatengslum af öllu tagi. Það er hins vegar afar sérkennilegt að þessi eini hópur skuli komast upp með að hækka laun sín með eigin ákvörðun eða eru hóparnir kannski fleiri, hæstv. fjmrh.? Stenst þetta hin nýendurskoðuðu lög um Kjaradóm og kjaranefnd?
    Ég er ansi hrædd um að sá launamunur sem forsrh. vísaði til, þ.e. að laun hæstaréttardómara hafi dregist aftur úr launum annarra dómara, eigi við um ýmsa aðra hópa hjá hinu opinbera.
    Ég ítreka þá skoðun Kvennalistans að launakerfi ríkisins sé óréttlátt og reyndar handónýtt. Það dæmi sem hér er til umræðu sýnir og sannar að löngu er tímabært að hefja uppstokkun á launakerfinu, ekki síst með launajafnrétti kvenna og karla í huga. En spurningin er: Ætlar ríkisstjórnin að loka báðum augum og látast ekkert sjá eða á hið sama að gilda um alla opinbera starfsmenn?