Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:25:54 (120)


[15:25]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegur forseti. Vegna stjórnsýslulegrar sérstöðu Seðlabanka Íslands er mjög eðlilegt að málefni hans séu sérstaklega rædd hér á Alþingi vegna þess að stjórn Seðlabankans er kosin af Alþingi. Þess vegna er það afar skiljanlegt að við tökum til umræðu ýmsa þætti er lúta að rekstri bankans.
    Það sem vekur athygli og er tilefni til að ræða hér sérstaklega er þróun einstakra rekstrarliða bankans. Ég hef látið reikna út fyrir mig þróun einstakra rekstrarliða Seðlabanka Íslands undanfarin fjögur ár. Það kemur í ljós, gagnstætt því sem haldið hefur verið fram, að rekstrarútgjöld Seðlabanka Íslands hafa lækkað mjög lítið. Það er að vísu rétt að það varð lækkun á milli áranna 1990 og 1992. Þá ber þess líka að geta að árið 1991 hækkuðu mjög rekstrarútgjöld Seðlabanka Íslands. Staðan er einfaldlega sú að miðað við rekstrarreikninga Seðlabanka Íslands 1990 og 1992 standa útgjöld bankans nokkurn veginn í stað. Síðan er það auðvitað mjög fróðlegt að skoða einstaka liði. Ef við tökum t.d. bifreiðakaupin sérstaklega, sem hér eru til umræðu, kemur það í ljós samkvæmt þeim útreikningum sem ég hef hér að miðað við núvirðisútreikning á bifreiðakostnaði vegna bifreiðakaupa Seðlabanka Íslands þá hefur Seðlabanki Íslands keypt bíla á undanförnum fjórum árum fyrir tæpar 20 millj. kr. Nú geta menn auðvitað velt því fyrir sér hvað sé eðlilegt í þessu sambandi. Er það eðlilegt að Seðlabanki Íslands, sem hefur þetta hlutverk sem allir vita, þurfi að fjárfesta í bílum á þessum þrengingartímum fyrir 20 millj. kr. auk alls annars?
    Það blasir líka við þegar við skoðum aðra þætti eins og t.d. launareikninga Seðlabanka Íslands að gagnstætt því sem menn hafa látið í veðri vaka þá hefur t.d. launakostnaðurinn frá árinu 1990--1992, að undanskildu árinu 1991 sem var óvanalegt í öllu tilviki, hækkað. Þetta vildi ég láta koma fram, virðulegur forseti, í þessari umræðu. Væntanlega gefst síðar tækifæri til að fjalla almennt um störf bankans þegar tilefni er til.